Að hlusta á tónlist bætir heilsuna

Hlustar þú reglulega á tónlist? Kannski á uppáhalds útvarpstöðina á meðan þú eldar, eða skellir heyrnartólum á höfuðið þegar þú ferð út að ganga. Persónulega, er ég þvílík risaeðla að mér finnst skemmtilegast að hlusta á geisladiskana úr safninu mínu, enda búin að safna diskum árum saman, segir Carol Benton í nýlegri grein á vefnum sixtyandme. Þar rekur hún fimm atriði sem sýna áhrif þess á heilsuna, að hlusta á tónlist. Skoðum grein hennar nánar.

Skoðanir manna á tónlist tengjast fyrri reynslu og hugrenningatengslum hvers og eins. Mörgum þykir til að mynda vænt um gömlu tónlistina sem þeir hlustuðu á  þegar þeir voru unglingar í skóla. Sum pör eiga sérstakar minningar sem tengjast lögum sem þau hlustuðu á í tilhugalífinu eða voru leikin í brúðkaupinu þeirra.

Tæknibreytingar síðustu áratuga gera það að verkum að það hefur orðið mögulegt að gera tónilstarhlustun að persónulegri reynslu fyrir hvern og einn. Í fyrsta sinn í sögunni, er hægt að hafa tónlistina með sér og hlusta á eigin tónlist, þó menn séu í opinberu rými ásamt fleira fólki.

Vissir þú að hlustunarvenjur þínar á tónlist, geta bætt líkamlega, andlega og tilfinningalega líðan þína? Það er sannarlega ástæða til að skoða það nánar, því tónlistin hefur margvísleg áhrif á okkur.

1. Auðveldar slökun og minnkar streitu

Samkvæmt rannsóknum bandarísku Heilsustofnunarinnar (National Institutes of Health) leiðir tónlistarhlustun til bættrar heilsu og vellíðunar. Sem dæmi má nefna að í könnun sem gerð var á grísku sjúkrahúsi kom í ljós að sjúklingar áttu auðveldara með að þola sársauka ef þeir hlustuðu á uppáhalds tónlistina sína á meðan þeir fóru í aðgerð.

Aðrar rannsóknir hafa sýnt að þáttakendur voru ekki jafn áhyggjufullir, fannst þeir meira við stjórnvölinn og geta þolað sársauka betur ef þeir voru að hlusta á tónlist sem þeim fannst skemmtileg.

Ákveðin tónlist hefur ekki sömu áhrif á alla einstaklinga. Það að hlusta bara á einhverja tónlist, hefur ekki þau áhrif sem menn eru að sækjast eftir. Það þarf að velja uppáhaldstónlist hvers og eins til að ná þeim fram.

Að hlusta á tónlist getur haft sömu áhrif og menn verða fyrir við hugleiðslu. Sýnt var fram á það í einni rannsóknanna, fólki létti í skapi, það svaf betur og upplifði meiri lífsgæði.

Þar sem tónlistarhlustun getur dregið úr áhyggjum og þunglyndi, er hægt að nota hana ásamt hugleiðslu til að ná enn betri árangri. Róandi tónlist sem menn kannast við, með hugleiðslu, getur hjálpað þeim að finna sálarró.

Ef þú ert að hlusta á tónlist, gagngert til að slaka á, áttu að einbeita þér að tónlistinni. Ekki reyna að gera eitthvað annað á meðan tónlistin spilast í bakgrunninum. Hlustaðu á hæga, róandi tónlist á meðan hugurinn róast.

2. Bætir heilastarfsemi

Kennarar nota tónlist fyrir nemendur á öllum aldri, til að hjálpa þeim að læra í kennslustofunni. Rannsóknir sýna að tónlistarhlustun í því samhengi hefur jákvæð áhrif á getuna til að læra og á þekkingarferlið.

Vísindamenn gerðu tilraun með að spila  klassíska tónlist fyrir nemendur sem spreyttu sig á ákveðnum verkefnum. Þeir komust að raun um að hlustun á bakgrunnstónlist bætti frammistöðu þeirra. Einkum og sér í lagi bætti tónlistarhlustunin hæfileika nemenda til að halda takti og jók nákvæmni þeirra í tungumálanámi.

Rannsókn sem var gerð við læknaskólann í Stanford háskólanum sýndi að hlustun á tónlist virkjar svæði í heilanum sem auðvelda okkur að taka eftir upplýsingum sem berast okkur. Þannig hjálpar hún heilanum að  flokka upplýsingar og bæta minnið.

3. Eykur orku og áhuga á líkamsrækt

Nútíma tækni gerir okkur kleift að taka uppáhalds tónlistina með okkur þegar við förum út að ganga, hlaupa, eða í ræktina. Það að hafa tónlist við hendina þegar menn stunda hreyfingu, getur haft ýmsa kosti  í för með sér

Að hlusta á fjöruga tónlist hvetur menn áfram í  þjálfuninni. Veljið lög sem eru taktföst og með skemmtilegum textum. Þar á ofan er gott að velja tónlist sem heldur athyglini og kemur þér í gott skap.

Eins og segir í skýrslu frá Háskólanum í New Hampshire. Tónlistin getur dreift huga fólks frá verkjum og þreytu sem það kanna að finna fyrir við þjálfunina. Hún kemur fólki í gott skap, eykur úthald, dregur úr áreynslunni sem menn finna fyrir og eykur virkni líkamsstarfseminnar.

4. Bætir svefninn

Við vitum að tónlist getur dregið úr stressi og minkað kvíða og áhyggjur. Ef þú ert að leita leiða til að sofa betur, gæti tónlistarhlustun verið svarið.

Að hlusta á rólega, sefjandi tónlist fyrir svefninn getur hjálpað þér að sofa betur. Tónlist sem er hæg og hljómar vel gerir það að verkum að það verður auðveldara að ná sér niður fyrir svefninn. Áhrif tónlistarinnar valda því   að fólk fer að slaka á og anda rólegar. Það minnkar spennu, blóðþrýsting og dregur úr hjartslætti.

Ef þú átt erfitt með að sofna, prófaðu að hlusta á tónlist í stað þess að taka svefntöflu. Í skýrslu bandarísku Heilsustofnunarinnar segir að það að hlusta á tólist sé ódýr og náttúruleg aðferð við að sofa vel.

5. Kemur fólki í betra skap

Mörg okkar vita hvað tónlist getur verið upplífgandi. Vísindamenn hafa komist að því að það eru efnafræðilegar breytingar í heilanum sem hafa þessi áhrif.

Það örvar vellíðunarstöðvar heilans að hlusta á tónlist, sem veldur því að hann fer að framleiða svokallað dopamín, sem er taugaboðefni sem veldur vellíðan. Þar að auki örvar tónlistarhlustun myndun efnanna endorfíns og oxitocins sem létta einnig lundina.

Veldu létta tónlist með upplífgandi textum til að koma þér í gott skap. Engin ákveðin tónlist kemur öllum í gott skap. Þín uppáhaldstónlist virkar fyrir þig.

Sumir velja hip-hop tónlist á meðan aðrir velja rokk eða diskó tónlist frá áttunda áratugnum. Það er engin uppskrift að þessu önnur en sú, að tónlistarval er algerlega einstaklingsbundið. Hlustið á tónlist sem kemur ykkur í gott skap.

Ritstjórn ágúst 26, 2020 08:58