Er heilinn að bila?

Margir óttast að fá heilahrörnunarsjúkdóma þegar þeir eldast eða að þurfa að sjá um einhvern sér nákominn sem fær heilabilun.  Í grein á vefnum considerable.com segir  að hægt sé að koma í veg fyrir eitt af hverjum þremur Alzheimerstilvikum með breytingum á lífsháttum.

„Við erum ekki að tala um að gefa fólki lyf,“  segir James E. Galvin stjórnandi the Comprehensive Center for Brain Health at Florida Atlantic University.  Hann skrifaði grein árið 2017 í Journal of the American Geriatrics.  Þar segir hann að það sé hægt að seinka því að fá heilahrörnunarsjúkdóma eða jafnvel að koma í veg fyrir það ef fólki hugi að næringu, hreyfingu, svefni, lifa í núinu og reyna að hafa stjórn á þyngdinni. Galvin segir þó að það sé ekki hægt að búa til eitt prógramm sem passi öllum fólk þurfi að líta í eigin barm og sjá hvað henti því. Fyrsta skrefið ætti að vera að ræða við heimilislæknirinn og fá hann til að meta áhættuþætti sem geta leitt til heilbilunarsjúkdóma svo sem ofþyngd, hás blóðþrýstings, láta athuga kólesterólið, kanna hvort að fólk sé með áunna sykursýki, hvort það hreyfi sig nóg, hvort það séu svefnvandamál og hvort fólk sé að borða nógu næringarríkan mat.

Gavin segir að erfðir geti haft mikil áhrif á hvort að fólk fær Alzheimer eða aðra heilhrörnunarsjúkdóma. Það þurfi því að skoða fjölskyldusögu hvers og eins. Það þurfi þó ekki að örvænta því hreyfing geti seinkað sjúkdómnum um nokkur ár eða komið veg fyrir hann. Hreyfing hafi góð áhrif á efnaskipti líkamans, blóðþrýsting og sykursýki og þeir sem hreyfi sig sofi oft betur.

Minni vöðvastyrkur er oft fylgifiskur hækkandi aldurs og rannsóknir þykja hafa sýnt fram á að þeir sem tapa vöðvastyrk glíma frekar við ýmsa heilabilunarsjúkdóma. Mælt er með að fólk stundi bæði þolæfingar og styrktaræfingar til að viðhalda líkamlegum styrk. Þeir sem hafa ekki stundað reglulegar æfingar lengi ættu þó að fara varlega af stað og ofreyna sig ekki.

Galvin mælir með því að fólk tileinki sér Miðjarðarhafsmatarræði. Í því felst að fólk borðar meira grænmeti, notar ólífuolíu í mat og út á salöt, borðar ber, ávexti, hnetur og fisk en minnkar á móti neyslu á mjólkurafurðum og rauðu kjöti.  Hann segir að fólk eigi líka að láta fylgjast með D-vítamínbúskap líkamans.  Frönsk rannsókn sem gerð var árið 2017 og tók til rúmlega 900 einstaklinga 65 ára og eldri hafi leitt í ljós að þeir sem fengu nægt D-vítamin áttu síður á hættu að fá heilabilun en þeir sem voru lágir í D-vítamíni.

Svo er það svefninn. Fólk sefur minna þegar það eldist en þegar það var ungt. Fólk ætti að huga vel að svefnherberginu, hafa temmilega heitt, myrkva herbergið, ekki vera með rafeindatæki inni hjá sér og forðast koffín seinnipart dags og á kvöldin. Slæmur svefn er talin geta stuðlaða að því að heilinn gefi sig en það á heldur ekki að sofa allt of lengi. Japanskir vísindamenn telja samkvæmt rannsókn sem var gerð þar í landi og stóð í tíu ár að fólk 60 ára og eldra sem sefur meira en 10 tíma á nóttu sé í tvöfalt meiri hættu að að fá heilabilunarsjúkdóma en þeir sem sofa í tæpar sjö stundir.

Fólk ætti svo að halda heilanum virkum með því að læra tungumál, lesa, hlusta á tónlist og umgangast annað fólk. Fjölmargar rannsóknir benda til að það geti seinkað því að fólk fái Alzheimer eða aðra heilahrörnunarsjúkdóma.

Ritstjórn júní 12, 2019 05:49