Uppreisnin í Kvennaskólanum

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Undanfarin ár hef ég tekið þátt í því sem á ensku kallast “connection circle,” sem þýða má yfir á íslensku sem “samtalshring.” Meðlimir hringsins eru átta, karlar og konur, og hittumst við tvisvar í mánuði, einn og hálfan tíma í senn. Hver mánuður hefur ákveðið þema og þema síðasta mánaðar var “your life´s journey”, sem þýða má sem lífsferill þinn eða ævivegur. Þetta varð til þess að ég leit yfir farin veg og komst ég að því, að einn stærsti áhrifavaldur í lífi mínu var íslenska kvennahreyfingin, fyrst Rauðsokkuhreyfingin og síðan Kvennalistinn. Ef þessara hreyfinga hefði ekki notið við á mótunarárum mínum, þá væri ég ekki þeim stað, sem ég er nú. Ég hefði til dæmis aldrei helgað líf mitt rannsóknum og skrifum á sögu og afdrifum íslenskra kvenna, sem ólu aldur sinn að mestu, eins og ég sjálf, fjarri heimalandi sínu.

Fyrsta rannsóknaverkefni mitt á sviði kvennafræða var þó um konur á Íslandi, en magister ritgerð mín fjallaði um upphaf kvenmenntunar á Íslandi. Í ritgerðinni skrifaði ég um skóla sem voru ætlaðir konum og voru stofnaðir á Íslandi á seinni hluta nítjándu aldar og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, en það voru kvennaskólar og húsmæðraskólar. Kvennaskólinn í Reykjavík var í brennidepli ritgerðarinnar, en hann var elsti, virtasti og einn langlífasti kvennaskóli landsins. Ég komst auðvitað að því, að þessir skólar voru á sínum tíma mikil lyftistöng fyrir íslenskar konur. Ég komst líka að annarri, og óvæntri niðurstöðu, um langtíma áhrif Kvennaskólans í Reykjavík á stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Niðurstaðan var þessi: Kvennaskólinn hafði dregið, þegar til lengdar lét, úr frama íslenskra kvenna og hafði þau áhrif að fáar námsmeyjar skólans gengu menntaveginn og stunduðu háskólanám.

Hvernig má það vera? Jú, Kvennaskólinn, naut mikillar virðingar og var mjög eftirsóknarvert fyrir stúlkur að komast í hann. Hann var þó ekki öllum konum opinn. Til að komast inn í skólann urðu stúlkurnar að fá yfir níu í aðaleinkunn á barnaskólaprófi. Þegar hinar útvöldu stúlkur mættu til leiks í Kvennaskólanum hélt skólastýran yfir þeim ræðu og var þeim sagt að þær væru engar venjulegar stúlkur, heldur Kvennaskólastúlkur og um leið var þeim sagt að engin prófgráða væri verðmeiri fyrir íslenskar konur en Kvennaskólapróf. Hinum nýju nemendum skólans var líka gefið í skyn að það væri svik við skólann að ljúka ekki Kvennaskólaprófi og leita annað, eins og til dæmis að fara í menntaskóla. Það kom þó að því, að landsprófsdeild var stofnuð við skólann, en frá upphafi hennar var reynt að hamla aðgöngu námskvenna að þeirri deild. Lágmarkseinkunnin úr öðrum bekk til að komast í landspróf í Kvennaskólanum var 7.50.  Við fyrstu sýn virðist talan ekki vera ýkja há, en hún var það, því einkunnargjafir í Kvennaskólanum voru ekki þær sömu og tíðkaðist í öðrum skólum. Til dæmis lækkaði einkunnin um tíu punkta við hverja villu á stafsetningarprófi í íslensku. Stúlka sem gerði þrjár villur fékk 7 í Kvennó, en ekki 8.8 eins og hún hefði sennilega fengið í öðrum skóla. Þessi stranga einkunnargjöf varð til þess að fáar stúlkur voru teknar inn í landsprófsdeild skólans. En öll sund voru þó ekki lokuð. Þeim stúlkum sem fengu undir 7.50 í aðaleinkunn úr öðrum bekk, var boðinn sá kostur að sitja hjá, eins og sagt var, sækja tímana í landsprófsdeildinni, en taka ekki prófið. Rökin að baki þessarar stefnu voru víst  þau, að skólinn vildi ekki eiga það á hættu að nemendur skólans féllu á landsprófi, því máttu aðeins þær sem fengu yfir 7.50 í aðaleinkunn taka prófið eftir einn vetur.  Ímynd og sérstaða skólans var í húfi. Þær stúlkur, sem sátu hjá í landsprófi fóru síðan flestar í fjórða bekk og luku Kvennaskólaprófi, en sú staðreynd að þær höfðu setið einn vetur í landsprófi gaf þeim forgjöf á lokaárinu. Þær voru taldar vera í betri klassa en hinar stúlkurnar í bekknum.

Það var  strangur agi í Kvennaskólanum. Nemendum skólans var til dæmis bannað að koma með andlitsfarða í skólann og fylgdust kennarar grannt með því að svo væri. Í mörg ár tíðkaðist það líka, að skólastúlkurnar voru látnar mynda röð við útgöngudyr skólans í lok skóladagsins. Þar stóð einn kennari skólans vörð og grandskoðaði andlit hverrar námsmeyjar til að ganga úr skugga um, að engin þeirra hefði freistast til þess að setja á sig varalit áður en þær héldu heim á leið.  Ef sú var raunin var þeim skipað að fara inn í baðherbergi skólans og þurrka hann af vörunum.

Stúlkur með Kvennaskólapróf voru eftirsóttur vinnukraftur hjá opinberum stofnunum og hjá fyrirtækjum, og sumar þeirra fóru í nám í Hjúkrunarskólanum og Kennaraskólanum, en þessir skólar voru ekki á háskólastigi á þessum árum.

Þó kvennahreyfingin hefði enn ekki risið upp á Íslandi í byrjun sjötta áratugar síðustu aldar, þá höfðu vindar stúdentauppreisnanna í Evrópu og baráttu blökkumanna og bandarískra kvenréttindakvenna borist til Íslands. Þessir vindar höfðu smeygt sér inn um veggi Kvennaskólans og  á þessum árum gerðu nokkrar námsmeyjar Kvennaskólans, það sem kalla má “hljóðláta uppreisn.” Hún fólst í því, stúlkur, sem ekki fengu 7.50 í aðaleinkunn úr öðrum bekk, hættu einfaldlega námi í Kvennó og fóru í landspróf í gagnfræðiskólum í  Reykjavík eða í Verslunarskólann.

Brotthvarf þessara stúlkna úr Kvennaskólanum hafði greinilega áhrif á stjórnendur skólans, því haustið 1968 kom fram sú tillaga, að opna menntaskóladeild innan skólans. Nú áttu nemendur að geta valið á milli þess að taka Kvennaskólapróf og útskrifast eftir fjögur ár úr skólanum, eða sitja áfram í skólanum og útskrifast sem stúdentar um tvítugt. Þegar fréttin af þessum ráðagerðum barst upp í Menntaskólann í Hamrahlíð urðu viðbrögðin snögg og dágóður hópur nemenda, ég þar með talin, yfirgáfu skólastofurnar á miðjum skóladegi og gekk fylktu liði niður Eskihlíð, vestur Hringbrautina og inn Fríkirkjuveg. Hópurinn staðnæmdist fyrir framan Kvennaskólann ,þar sem hann mótmælti harðlega þeirri áætlun að opna menntaskólabraut innan Kvennaskólans.

Ekki er ljóst hversu mikil áhrif þessi mótmæli höfðu, en raunin varð sú að Kvennaskólanum var ekki breytt. Hann starfaði í sinni gömlu mynd næstu níu árin en árið 1977 var hann opnaður piltum og settist fyrsti karlmaðurinn á bekk í skólanum það haust. Tveim árum síðar, eða árið 1979, var skólanum breytt í framhaldsskóla og fyrstu stúdentarnir, karlkyns og kvenkyns, útskrifuðust þaðan vorið 1982.

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir apríl 29, 2019 07:21