Svona er lífið undarlegt og skrítið

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur segir frá

Vorið 1992 gerði ég mér sérstaka ferð til Íslands til að halda upp á 20 ára stúdentsafmælið mitt með skólafélögum mínum úr MH. Þar hitti ég gamlan skólafélaga, sem ég hafði ekki séð í mörg ár og hann spurði mig, „þú ert búsett í Bandaríkjunum ekki satt?“ Ég játti því, en tóninn í spurningunni var mér kunnulegur. Þessi skólafélagi minn var gamall vinstri maður og hafði verið mikill andstæðingur Víetnam stríðsins, rétt eins og ég, og honum fannst greinilega ekki nógu gott, að ég byggi nú í landi stríðsherranna. Stuttu seinna spurði hann mig annarrar spurningar, „Hvað ætlar þú að gera, ef dóttir þín kemur heim með bandarískan kærasta?“ Tóninn í þessari spurningu kom mér heldur ekki á óvart, en ég hafði eytt undanförnum árum við rannsóknir á íslenskum konum, sem giftust bandarískum hermönnum á stríðsárunum. Hin neikvæðu viðhorf Íslendinga í garð þessara kvenna, fyrir það eitt að hafa valið sér bandarískan lífsförunaut, höfðu verið eitt meginstefið í rannsókn minni. Ég svaraði spurningu skólabróður míns með því að segja, að ég mundi fagna komu bandaríska kærastans og bjóða hann velkominn í okkar hús.

Dóttir mín var bara sjö ára á þessum tíma, en árin liðu og þegar hún var 21 árs kom hún heim með bandarískan kærasta, sem við tókum fagnandi, enda yndislegur ungur maður og hann og fjölskylda hans hafa upp frá því veitt okkur ómælda ánægju og gleði, og nú eigum við saman fyrsta barnabarnið! En það var annað og meira, sem samband dóttur okkar og bandaríska eiginmannsins hennar veittu okkur, en það var innsýn  í bandaríkst samfélag og bandaríska sögu, sem við þekktum ekki mikið til. Móðurafi tengdasonar okkar, maður að nafni David Dellinger, reyndist hafa verið einn fremsti friðarsinni Bandaríkjanna á 20. öld.

David Dellinger fæddist árið 1915 inn í íhaldssama, velefnaða fjölskyldu í Wakefield í Masschusettes. Faðir hans var lögfræðingur og formaður í deild Repúblikana flokksins í heimabæ sínum. Hann var góðvinur Calvin Coolidge Bandaríkjaforseta og þegar David var ungur drengur, heimsótti hann Coolidge í Hvítahúsið með föður sínum og gistu þeir feðgar þar. Hann stundaði nám í hagfræði við Yale háskóla, en þar varð hann fyrir reynslu, sem gjörbreytti lífi hans og lagði grunninn að ævilangri baráttu hans gegn hernaði og stríðsrekstri. Það gerðist eftir leik í ruðningsbolta milli liðs Yale háskóla og háskóla frá Georgía ríki. Eftir leikinn brutust út óeirðir, þar sem sumir áhorfenda voru ekki sáttir við úrslit leiksins. David skarst í leikinn og sló ungan áhorfenda svo illa að hann missti meðvitund. Eins og David lýsti því síðar, var þetta augnablik eitt það skelfilegasta í lífi hans, hann hélt að hann hefði myrt unga manninn. Hann tók hann í fang sér og honum til mikils léttis þá raknaði ungi maðurinn úr rotinu eftir dágóða stund. Á því augnabliki hét David sér því að hann skyldi aldrei verða manni að bana.

Að námi loknu, árið 1936, fékk hann styrk til framhaldsnáms við Oxford háskóla í Englandi. Þaðan ferðaðist hann um Þýskaland og sá hættuna sem stafaði af uppgangi Nazista. Hann dvaldi einnig um hríð á Spáni, þar sem borgarstyrjöldin stóð sem hæst, og ók sjúkrabíl fyrir lið lýðræðissinna. Þegar heim kom hóf hann nám í guðfræði og lauk Cand. theol námi frá Union Seminary í New York borg. Um það leyti höfðu Bandaríkjamenn komið á herskyldu og voru að hefja þáttöku sína í seinni heimstyrjöldinni og var David kallaður í herinn. Hann svaraði ekki þeirri köllun á grunni þess að hann vildi ekki drepa neinn. Fyrir vikið var honum varpað í fangelsi í tvígang og sat hann í fangelsi í samtals þrjú ár. Um tíma var hann settur í einangrun fyrir að hafa staðið fyrir hungurverkfalli í fangelsinu til að mótmæla kynþáttamisréttinu, sem hann varð vitni að þar, en svartir fangar fengu mun verri meðferð en hinir hvítu.

Eftir að hafa afplánað dóminn, hóf hann ásamt öðrum kristnum friðarsinnum, útgáfu á blaðinu Direct Action og síðar á blaðinu Liberation og helgaði líf sitt upp frá því  baráttunni fyrir friði og réttlæti. Í fyrstu ritstjórnargrein sinni dæmdi hann árás Bandaríkjamanna á Hírósíma og Nagasakí harðlega. Eftir að Bandaríkjamenn réðust inn í Víetnam var hann í fremstu víglínu þeirra sem börðust gegn því stríði. Hann var einn þeirra sem skipulagði frægan mótmælafund árið 1967, þar sem mótmælendur mynduðu hring í kringum Pentagon í Washington D.C.

David Dellinger er þó þekktastur fyrir að hafa verið í forsvari fyrir mótmælin gegn Víetnam stríðinu, sem haldin voru í Chicago árið 1968 á meðan á aðalfundi Demókrataflokksins stóð. Þar var Hubert Humphrey útnefndur sem forsetaefni Demókrata, en Lyndon B. Johnson sitjandi forseti hafði ekki gefið kost á sér til endurkjörs,vegna þess hve illa gekk í stríðinu í Víetnam. Mótmælin enduðu með ósköpum og var David Dellinger og sex aðrir mótmælendur handteknir og ákærðir fyrir að hafa haft samráð um að stofna til ofbeldis og óeirða. Meðal hinni ákærðu voru Abby Hoffmann, Tom Hayden (sem síðar varð eiginmaður Jane Fonda) og Bobby Seal, sem var í forystu The Black Panther hreyfingarinnar. Þessir sex menn voru mikli yngri og róttækari en David, hann hefði getað verið faðir þeirra allra. Þeir voru með sítt hár og klæddir hippafötum, meðan David var með vatnsgreitt hár, í blankskóm, jakkafötum og vesti.

Réttarhöldin yfir sjömenningunum stóðu yfir í fimm mánuði, frá hausti 1969 til febrúar1970, og eru með þekktari réttarhöldum í sögu Bandaríkjanna. Allir sjö voru sýknaðir af því að hafa haft samráð um að efna til óeirða, en tveir þeirra voru sakfelldir fyrir að hafa komið slagsmálunum af stað. Sem forystumaður hópsins fékk David hins vegar þyngsta dóminn. Hann var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar og gert að greiða 5.000 dala sekt. Hann var að auki dæmdur til tveggja ára og fimm mánaða fangelsis fyrir gagnrýnin orð, sem hann hafði látið falla um réttarhöldin á meðan á þeim stóð. David og félagar hans tveir áfrýjuðu dómunum.Tvímenningarnir, sem voru sagðir hafa komið slagsmálunum af stað, voru sýknaðir tveimur árum síðar. Mál Davids var tekið fyrir dóm ári síðar en hann var ekki sýknaður. Dómarinn vildi hins vegar ekki fella dóm í málinu og fyrir vikið slapp hann við fangelsisvist.

David var óflokksbundinn og talaði máli friðar undir hvaða kringumstæðum sem var, og var hann sendur í tvígang til Norður Víetnam, þar sem hann samdi við Ho Chi Minh um að leysa bandaríska stríðsfanga úr haldi og fylgdi þeim síðan heim til Bandaríkjanna. David vann traust Ho Chi Minhs og dvaldi í París sem ráðgjafi hans á meðan friðasamningar Bandaríkjamanna og Víetnama stóðu yfir.

Síðar flutti hann ásamt konu sinni til Vermont og þaðan hélt hann áfram baráttunni fyrir friði og réttlæti, allt þar til hann lést í maí árið 2004.

Sonur okkar, sem er fimm árum yngri en systir hans, er nú heitbundinn stúlku af Víetnöskum ættum. Foreldrar hennar uxu úr grasi í Víetnam, meðan ósköp Víetnamsstríðsins dundu yfir þjóðina, ósköp, sem David Dellinger, afi tengdasonar okkar, barðist af ákafa gegn. Þegar stríðinu lauk, flúðu þau land, móðir hennar var í þrjú ár í flóttamannabúðum á Filippseyjum, en faðir hennar var líka í þrjú ár í flóttamannabúðum í Hong Kong. Þau kynntust eftir að þau komust til Kalíforníu og hófu þar saman nýtt líf með tvær hendur tómar og tókst með dugnaði og stuðningi víetnamska samfélagsins hér í landi, að koma undir sig fótunum. Þau hafa líka komið fjórum yndislegum dætrum til manns, og ein þeirra er nú verðandi tegndadóttir okkar!- Já, lífið er svo sannarlega undarlegt og skrítið!

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir janúar 31, 2020 19:19