Kvennaskólinn og síbreytileiki jafnréttisbaráttunnar

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður árið 1874 af mektarhjónunum Þóru og Páli Melsteð en hann var fyrsti skólinn sinnar tegundar á Íslandi.

Stofnun skólans var mikið framfaraskref fyrir íslenskar konur á sínum tíma, en skólinn veitti konum menntun í bóklegum greinum, tónlist, hannyrðum og heimilshaldi. Skólinn naut einhverra styrkja frá ríkinu, en það fé nægði ekki til reksturs skólans, og greiddu nemendur því skólagjöld. Þau voru það há, að aðeins stúlkum frá efnaheimilum landsins var fært að stunda nám við skólann. Snemma kom fram gagnrýni á skólann fyrir að vera aðeins aðgengilegur dætrum efnamanna, ein þeirra, sem skrifaði um þennan löst skólans, var Bríet Bjarnhéðinsdóttir.  Stjórn skólans brást við þessari gagnrýni með því að stofna styrktarsjóð fyrir efnilegar, en efnalitlar stúlkur og bar sjóðurinn heitið Systrasjóður, en hann var byggður á fjárframlögum frá fyrrverandi nemendum skólans.  Þetta var gott framtak, en bögull fylgdi skammrifi. Fyrstu árin eftir að farið var að veita stúlkum þennan styrk, urðu styrkþegar að launum að þrífa Kvennaskólann hátt og lágt, að loknum skóladegi. Þessar kröfur voru gerðar, vegna þess að talið var að stúlkur, sem hlutu Systrastyrk, myndu síður en hinar skólasystur þeirra, hafa ráð á að hafa vinnukonur, og því væri gott fyrir þær að stunda heimilsverk meðfram náminu.

Styrkir úr Systrasjóði voru veittir fram á miðja tuttugustu öld og sagði mér kona, sem hóf nám í Kvennaskólanum haustið 1953, að við setningu skólans hefði skólastýran lesið upp nöfn stúlknanna, sem voru á Systrastyrk og voru skilaboðin skýr: þær voru skör lægra settar en hinar Kvennaskólastúlkurnar, sem ekki þurftu á ölmusu að halda.

Móðuramma mín var ein af fátæku stúlkunum, sem komust í Kvennaskólann. Hún fékk þó ekki Systrastyrk, en hún átti því láni að fagna að eiga föðurbróður, sem var háttsettur embættismaður í Reykjavík og bauðst hann til að kosta hana til náms í skólanum gegn því, að hún ynni sem vinnukona á heimili hans. Það var mikil upphefð fyrir ömmu mína, sem var bæði námsfús og mikil handavinnukona, að komast í svona fínan skóla. Henni sóttist ekki aðeins bóknámið vel, heldur líka handavinnan, og á síðasti ári sínu í skólanum vann hún fyrstu verðlaun fyrir saumaskapinn á hvítum náttkjól í viktoríönskum stíl. Náttkjól, sem síðar var brúðarkjóllinn minn, þegar ég gifti mig á afmælisdegi Reykjavíkur, 18. ágúst árið 1979.

Eftir að amma mín lauk námi í Kvennaskólanum árið 1913 reyndi hún fyrir sér á atvinnumarkaðnum í Reykjavík. Þar var ekki um auðugan garð að gresja, en eftirsóttustu kvennastörfin á þessum tíma voru störf hjá Landsímanum, en síminn var þá tiltölulega nýkominn til landsins.  En efnalítil kona utan af landi átti ekki sjéns á að fá starf sem símastúlka í Reykjavík, því þar sátu ráðherradætur landsins á fleti fyrir. En hún fékk starf á símstöðinni í Vestmannaeyjum, sem voru afar afskekktar á þeim tíma. Það var henni mikið gæfuspor, því hún kynntist afa mínum í gegnum símann, en hann rak á þeim tíma kaupfélag í Landeyjum og sendi vörur og varning til Vestmannaeyja.

Amma og afi settust síðar að í Reykjavík og komust í dágóð efni. Þau áttu fimm börn, tvo syni og þrjár dætur. Synir þeirra tveir og elsta dóttir þeirra fóru í Menntaskólann í Reykjavík, og þráði móðir mín, sem var númmer fjögur í röð systkinanna, að fara þangað líka.

En amma þvertók fyrir það. Mamma hafði erft handavinnuhæfileika móður sinnar og hún átti, eins og amma sjálf forðum, að fara í Kvennaskólann. Mamma hlýddi fyrirskipunum móður sinnar, en hún var alla tíð afar ósátt við það, að hafa verið send í Kvennaskólann og hét sjálfri sér því, að ef hún ætti eftir að eignast dætur skyldi engin þeirra fara í Kvennaskólann.  Hún eignaðist síðar fimm dætur og engin þeirra fór í Kvennó. Mamma þráði að mennta sig enn frekar og þar sem langskólanám stóð henni ekki til boða, fór hún í Hjúkrunarskólann.  Henni sóttist hjúkrunarnámið vel og fékk hæstu einkunn upp úr fyrsta bekk. En svo varð henni á í messunni, varð óvart ófrísk á öðru ári í skólanum og þegar skólastýran fékk fregnir af því, var sem við manninn mælt, mamma var rekin úr skólanum. Brottrekstrinum fylgdi mikil niðurlægin og skömm og markaði þessi reynsla djúp og sár spor í sálu mömmu.

Hún giftist “vel”, eins og sagt var, og varð heimavinnandi húsmóðir, enda nóg að gera við að ala upp fimm dætur.  En hún var þó aldrei að fullu sátt við hlutskipti sitt, þráði annað og meira en að vera á þjónustuvakt allan sólahringinn. Þegar kvennahreyfingunni óx fiskur um hrygg á síðari hluta sjöunda áratugs síðustu aldar, þá fylgdist mamma grannt með henni.  Hreyfingin fyllti hana hugrekki og í leyni steig hún skref, sem var afar stórt fyrir hana: Hún sótti um starf sem ritari hjá opinberri lánastofnun. Sér, já okkur öllum, til mikillar undrunar, fékk hún starfið. Þær konur af hennar kynslóð, sem voru í vinnumarkaði voru nær allar annað hvort einhleypar eða konur, sem voru giftar láglaunamönnum og þurftu að afla tekna til að geta framfleytt fjölskyldum sínum. “Vel” giftar konur unnu almennt ekki úti, og ef þær gerðu það, fór fólk að gruna að annað hvort væri eiginmaðurinn ekki lengur fær um að halda fjölskyldunni uppi eða að eitthvað væri að í hjónabandinu. Það var einmitt vegna þessara viðhorfa, sem mamma fór leynt  og sagði engum frá því að hún hefði sótt um vinnu fyrr en hún fékk hana.

Mamma hafði sem ung kona lært vélritum, en fyrstu vikurnar í vinnunni, kom hún heim með fulla tösku af krumpuðum blöðum. Hún gerði svo margar prentvillur í byrjun og vildi alls ekki láta yfirmann sinn sjá það, en á þessum árum voru engin góð meðul til að hylma yfir prentvillur og bréf embættismanna urðu að vera lýtalaus.

Hún varð þó fljótt mjög flínk í vélritun og þáttaka hennar á vinnumarkaðnum gjörbreytti lífi hennar. Sjálfstraustið efldist, hún öðlaðist fjárhagslegt sjálfstæði, og henni fannst mjög gaman að fylgjast með þróun íslensks atvinnulífs, en sjóðurinn sem hún vann fyrir, veitti framtakssömum mönnum lán til að koma iðnaðarfyrirtækjum á stofn. Svo eignaðist hún góðar vinkonur í vinnunni og fannst alltaf gaman að vera í hringiðu mannlífsins við Austurvöll í hjarta Reykjavíkur. Hún vann úti í rúmlega tuttugu ár og þáði góð eftirlaun og skipti þau sköpum fyrir afkomu foreldra minna á efri árum.

Mér finnst saga ömmu minnar og móður minnar varpa áhugaverðu ljósi á síbreytileika jafnréttisbaráttunnar.  Á tímum ömmu minnar var varla hægt að ná lengra fyrir íslenskar stúlkur, en að fara í Kvennaskólann. Það var alltaf mikill ljómi í huga ömmu yfir minningum hennar úr skólanum.  Minningar móður minnar úr sama skóla voru af allt öðrum toga. Setan í Kvennaskólanum hafði sett henni hömlur, en á þessu árum fóru æ fleiri konur í menntaskóla og þangað langaði hana að fara. En fyrir henni var það mikið framfaraskref að fara út á vinnumarkaðinn og hún var bæði stolt og ánægð með að starfa sem ritari.

Í dag stefna konur miklu hærra, þær ljúka æðstu háskólagráðum og sækjast, já og sitja margar, í æðstu stöðum og störfum landsins.

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir maí 17, 2019 14:18