Ásmundur Stefánsson hagfræðingur var tíður gestur á sjónvarpsskjám landsmanna um áratugaskeið. Hann var forseti Alþýðusambands Íslands í tólf ár en ákvað árið 1992 að nú væri komið gott. Það væri rétt að einhver annar tæki við keflinu. Skömmu síðar varð hann framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka en árið 2003 var hann skipaður ríkissáttasemjari til fimm ára. Að þeim tíma loknum ætlaði hann að fara á eftirlaun. En eins og allir muna varð hrun á Íslandi og Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra fékk hann sem sérstakan ráðgjafa ríkisstjórnarinnar. Í tilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér sagði að; Ásmundi sé falið að hafa yfirumsjón með þeim margvíslegu starfshópum sem nú starfa og vera tengiliður á milli þeirra innbyrðis og gagnvart forsætisráðherra og ríkisstjórn.
Hann tók við stöðu formanns bankastjórnar Landsbankans stuttu eftir hrun og tók í febrúar 2009 við stöðu bankastjóra á meðan verið væri að koma Landsbankanum fyrir vind. Því verki skilaði hann af sér um mitt ár 2010.
Auk þessa alls skrifaði Ásmundur fjölda greina í blöð og tímarit og eftir hann liggja tvær bækur.
Í dag segist hann sáttur við lífið og tilveruna. „Ég fór á eftirlaun 2010 og er sestur í helgan stein. Auðvitað var það skrýtið fyrst eftir að maður hætti störfum þegar síminn hætti að hringja og maður þurfti ekki að standa skil á neinu. Ekki klára einhver verkefni fyrir klukkan tíu að morgni eða tvö eftir hádegi. Það eru skörp umskipti þegar maður hættir að hafa skuldbindingar í daglegu lífi, fer úr annasömum störfum og yfir í það að ráða sér sjálfur. Það tekur vissulega tíma að aðlagast þessum breytingum en svo venst þetta líf vel. Ég sakna þess ekki að vera í hringiðunni nema síður sé,“ segir hann.
Í dag segist Ásmundur ferðast og lesa mikið og öllu skipti að hann eigi eiginkonu, börn og barnabörn sem hann njóti að vera samvistum við. „Það er nú einhvern veginn svo að þau verkefnin sem maður skapar sér fylla upp í þann tíma sem maður hefur og gefa dögunum lit.“