Ástin og allar hennar flækjur

„Ástin hefur hýrar brár en hendur sundurleitar,“ orti Sigurður Breiðfjörð og svo sannarlega tekur ástin á sig ýmsar myndir, bæði sárar, mjúkar, grimmar og sterkar. Þannig að hendurnar eru ekki tvær heldur fleiri og stundum getur mjúka höndin breyst í grimma. Hér eru þrjár bækur sem allar snúast að einhverju leyti um ást.

Á villigötum

Malin Fors er án efa meðal áhugaverðustu rannsóknarlögreglumanna í norrænum sakamálasögum. Hún berst stöðugt við sjálfsefann, fíknina og óréttlæti heimsins. Í nýjustu sögunni um hana Villuljósi lætur Mons Kallentoft hana horfast í augu við svik og blekkingar kærasta síns, það hversu mjög dóttir hennar hefur fjarlægst hana og leit að morðingja ungs drengs af arabískum uppruna sem virðist hafa verið fleygt út úr flugvél í háloftunum.

Lögreglan er strand í málinu því enginn veit hver drengurinn er þar til að tölvupóstur berst frá Alsír. Kona að nafni Leila Hadad er sannfærð um að þetta sé sonur hennar Omar. Malin er send til Alsír til að hafa uppi á Leilu og fá hjá henni DNA sýni. Í stað þess að taka bara sýnið kemur Malín með konuna heim til Svíþjóðar og í kjölfarið hefst óhugnanleg atburðarrás og vinsæll listamaður sem málað hafði mynd af drengnum er myrtur.

Sænski rithöfundurinn Mons Kallentoft er best þekktur á Íslandi fyrir sakamálasögur sínar. Hann er hins vegar ákaflega fjölhæfur og starfaði árum saman sem ferða- og matarblaðamaður áður en hann hóf að skrifa skáldsögur. Fyrir fyrstu bók sína, Pesetas, fékk hann sænsku Katapult-bókmenntaverðlaunin. Mons fæddist 15. apríl 1968 í Linköping. Foreldrar hans voru verkafólk og á æskuheimilinu voru bækur ekki í hávegum hafðar. Það var því ekki gefið að hann sneri sér að skrifum þegar hann yxi upp, enda voru fótbolti og íshokkí hans aðaláhugamál á þeim árum. Bókmenntir uppgötvaði hann eftir að hafa hlotið alvarleg íþróttameiðsl en hann beinbrotnaði illa og varð að vera rúmfastur í langan tíma. Þá opnaðist honum ný veröld þar sem Kafka, Hemingway og George Orwell komu við sögu. Hann fór að vinna við textaskrif á auglýsingastofu og þaðan fór hann í blaðamennsku.

Hann byrjaði að skrifa bækur árið 1999 og síðan hafa þær komið hver á fætur annarri. Bækur hans um Malin Fors hafa verið þýddar á tuttugu og átta tungumál og náð metsölu víða um heim. Mons er kvæntur Karolinu og á með henni börnin Körlu og Nick. Hann er mikill fjölskyldumaður og kýs að verja löngum stundum með konu sinni og börnum. Matur og eldamennska er meðal hans helstu áhugamála og hann eldar mikið. Eitt af því sem honum þykir hvað best að borða er grilluð sandhverfa og dúfur. Um tíma bjó hann í Madrid á Spáni og skrifaði mikið um matargerð þar í landi. Þar lenti hann í því óvenjulega ævintýri að vera eltur af sköllóttum byssumanni en komast undan óskaddaður. Hann hatar sænska veturinn og hefur þess vegna kosið að búa á suðlægari slóðum lengst af.

Brostin jörð og brostnar vonir

Brostin jörð er fyrsta bókin sem breski rithöfundurinn Clare Leslie Hall skrifar undir eigin nafni. Áður hafði hún gefið út tvær spennubækur undir skáldanafninu Clare Empson. Brostin jörð vakti mikla hrifningu þegar hún kom út í heimalandinu og fékk metsölu. Þetta er saga af heitum ástum og ástarþríhyrningi sem endar með ósköpum.

Sagan hefst á því að óður hundur ræðst inn í kindahóp og bróðir bóndans grípur byssu og skýtur dýrbítinn. Nokkuð sem vissulega gerist í sveit en þarna eiga meðal annarra hlut að máli gamlir elskendur. Beth verður yfir sig ástfangin af yfirstéttastráknum Gabriel þegar þau eru unglingar. Eftir dásamlegt sumar saman fer Gabriel til Oxford og til stendur að Beth hefji þar nám ári síðar því hún er líkleg til að vinna sér inn skólastyrk. Margt fer hins vegar öðruvísi en ætlað er og móðir Gabríels á sinn þátt í í stía þeim í sundur. Beth fer ekki í háskóla og giftist bóndasyni úr nágrenninu, eignast son og byggir upp hamingjusama tilveru. Hræðilegt slys verður hins vegar til að flækja líf hennar og Frank, eiginmaður hennar, er þjakaður af sektarkennd. Það er Jimmy, bróðir Franks, sem skýtur hundinn og eigandi hans er Leo sonur Gabríels. Beth dregst strax að drengnum og vill bæta honum hundsmissinn og líklegt að enn leynist neisti í gömlum glæðum og óhjákvæmilegt að til einhvers konar uppgjörs komi.

Þetta er að mörgu leyti dapurleg saga þótt í henni sé einnig að finna von um nýja byrjun, hún er vel sögð þótt sumar persónur hefðu mátt vera dýpri. Atburðarrásin er hins vegar hröð sérstaklega í seinni hlutanum og vel þess virði að velta fyrir sér ákvörðunum Beth og viðbrögðum annarra við þeim. Þessi er tilvalin til að taka fyrir í bókaklúbbnum því ansi mörg þemu sögunnar eru líkleg til að skapa líflegar umræður.

Rómantík í Króatíu  

Litla leynivíkin í Króatíu eftir Julie Caplin er notaleg afþreying og fyrirtaks bók að lesa á sólarströnd. Maddie er boðin vinna á lúxussnekkju og henni finnst hún hafa himin höndum tekið. Starfið fer hins vegar ekkert sérlega vel af stað en svo fer hún að kynnast gestunum og mynda vináttu við, Nick og Töru, Douglas og Cory og Siri og Simon. Ivan heitir skipstjórinn og yfirmaður hennar.

Henni líkar vissulega misvel við þau, Tara og Cory eru til að mynda leiðinlegt fólk, Nick fremur afskiptalítill og persónulaus en Siri er vingjarnleg og þægileg manneskja. Þegar Simon fer að reyna við Maddie veit hún ekki alveg hvernig hún á að bregðast við því hún dregst að honum en veit ekki hverju hún á að treysta. Þetta er fjórða bók Julie Chaplin sem kemur út á íslensku og hún á sér dygga lesendur hér á landi, enda bækur hennar þægileg afþreying. Í lokin á þessar kemur hins vegar óvæntur og skemmtilegur snúningur.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.