Best varðveittu leyndarmál miðborgarinnar

Gönguferðabókin Reykjavík Walks eftir Guðjón Friðriksson er afskaplega handhæg og fer vel í vasa. Þó hún sé ætluð erlendum ferðamönnum gætu margir Íslendingar sem tala ensku, haft gaman af að bregða sér í göngu og með bókina að vopni. Það er til dæmis ekki víst að þeir þekki allir götuna sem myndin er af hér fyrir ofan.

Guðjón segir að mörgum finnist gatnakerfið í Þingholtunum og Skólavörðuholti fremur ruglingslegt og erfitt að rata þar. „Þar er líka að finna ýmsar götur sem fáir vita um. Þar má nefna Haðarstíg og Válastíg sem eru – að því er sumir telja – einhver best varðveittu leyndarmál reykvísks gatnakerfis“, segir hann og myndin með þessari grein er einmitt af Haðarstíg. „Þetta eru þröngar götur, eins konar bakstígar, sem liggja til suðurs frá Freyjugötu. Stígarnir tilheyra svokölluðu „goðahverfi“ og er Haðarstígur nefndur eftir Heði hinum blinda sem var einn ása. Hann varð Baldri óviljandi að bana. Öðru megin stígsins er röð parhúsa frá árinu 1925, líklega þeirra fyrstu hér á landi sinnar tegundar“.

Guðjón ákvað að skrifa gönguferðabókina fyrir erlenda ferðamenn sem eru  fjölmennir í Reykjavík allan ársins hring. Honum fannst vanta góða leiðsögubók um Miðbæinn og nágrenni hans þar sem ferðamennirnir halda sig mest. Bókin er í litlu vasabókarbroti, en með miklu lesmáli og prýdd fjölmörgum myndum.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn júní 30, 2014 16:29