Að taka lífinu létt

Það er fátt notalegra á vetrarkvöldum en hlusta á ljúfa tónlist. Eitthvað sem fær mann til að slaka á og hugsa um hvað lífið er gott. Einmitt þannig er nýr diskur Jóhönnu V. Þórhallsdóttur söngkonu og tónskálds, en Jóhanna samdi sjálf fjögur laganna níu sem eru á honum. Tónlistin er dillandi og rödd Jóhönnu frábær. Diskurinn heitir Söngvar á alvörutímum.  Eitt laganna á diskinum má sjá og heyra á myndbandi hérna neðst í færslunni.

Lífið dýrmætt og það að skapa

„Þetta eru aðallega revíulög, léttur og skemmtilegur diskur“ segir Jóhanna þegar ritstjóri Lifðu núna hitti hana einn bjartan dag fyrir skömmu. Hún vildi hafa húmor í lögunum, „engin leiðindi, segir hún. Danirnir Poul Dissing og Benny Anderson höfðu áhrif á hana. „Það eru allir svo alvörugefnir“ segir Jóhanna. „Við lifum á alvörutímum. Fólk er alvarlegt og áhyggjufullt. Það er pólitíkin og svo var það hrunið. Sumir eiga erfitt í alvörunni en ekki allir“, segir hún. „Lífið er svo dýrmætt og það að skapa eitthvað notalegt og skemmtilegt. Það verður svo frjótt. Ef menn fara í niðurrif slökknar á öllu sem þeir myndu vilja gera“

Lifir skammt en dauður óralengi

Tengdafaðir Jóhönnu, Guðmundur Sigurðsson, á nokkra texta á diskinum en eiginmaður hennar er Óttar Guðmundsson geðlæknir. Jóhanna vitnar í einn þeirra.

Og Göthe karlinn sem grúskaði þó í flestu                                                                                                        

á gamalsaldri taldi það oss fyrir bestu:                                                                                                              

að taka lífinu létt á hverju sem gengi                                                                                                            

maður lifir svo skammt og er dauður svo óralengi

Sveitastelpa sem varð tónlistarmaður

Jóhanna á að baki áratugi í íslensku tónlistarlífi. Henni datt ekki í hug þegar hún var kornung kona að hún gæti lifað á tónlistinni. Hún tók stúdentspróf frá MH og sá fyrir sér að hafa tónlistina „með“. En Jóhanna sem fór seinna í tónlistarnám í Manchester í Bretlandi, hefur kennt, sungið með hljómsveitum, stjórnað kórum og farið í kóraferðalög bæði innanlands og utan. Hún stofnaði Léttsveit Reykjavíkur og stjórnaði í 17ár, syngur með 3 Klassískum. Hún hefur líka lagt stund á myndlist og er einn af félögum í listagalleríinu Anarkíu.

Bjuggu með kindur á Háaleitisbrautinni

Jóhanna ólst upp á Háaleitisbrautinni, sem hét Háaleitisvegur þegar hún var lítil stelpa og bjó þar í stóru steinhúsi sem nú er horfið, ásamt foreldrum, afa og ömmu, tveimur bræðrum, kindum og köttum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og tölvuöldin hefur breytt tónlistinni eins og öðru. „Það er mun auðveldara að semja og útsetja á tölvu núorðið, þótt ég sé ennþá af gamla skólanum og semji við píanóið “segir hún að lokum.

Myndirnar hérna fyrir neðan sýna Léttsveitina og stjórnandann Jóhönnu.  Hún hélt líka myndlistarsýningu síðast liðið sumar og hver nema kórstjóri myndi kalla sýninguna sína Þögli kórinn.  Mjög vel við hæfi og skemmtilegar myndir eins og sjá má.

 Hér flytur Jóhanna lagið Einskonar eftirmáli.

 

Ritstjórn nóvember 4, 2014 14:00