Ásdís Karlsdóttir áttræð fyrirsæta hjá fyrirtækinu 66 gráður Norður, hefur vakið mikla athygli bæði innanlands og utan. Fannar Páll Aðalsteinsson markaðsstjóri hjá fyrirtækinu, segir að fjölmiðlar á Bretlandi hafi til dæmis haft samband vegna auglýsinganna með henni. Það veki fyrst og fremst athygli að kona á þessum aldri skuli koma fram í auglýsingum.
Var í sambandi á Facebook
Ásdís sem er lærður leikfimikennari starfaði við kennslu eftir að börnin hennar voru komin á legg. Hún hafði samband við fyrirtækið á Facebook eftir að það auglýsti eftir starfsfólki. Hún sendi myndir af sér og spurði hvort þá vantaði ekki fyrirsætu? Sjálf segist hún hafa gert þetta í gríni og að hún hafi ekki átt von á að viðbrögðin yrðu svona mikil. Fannar Páll segir að fyrirtækið hafi haft samband við hana og tveimur dögum síðar hafi verið búið að gera auglýsinguna.
Erfitt að kaupa á mig kjól
Ásdís sagði í samtali við Lifðu núna að sér fyndist eldra fólk svolítið eins og annar hópur í samfélaginu og að það ríktu ákveðnir fordómar gagnvart því. „Mér finnst ekki sýndur fatnaður fyrir okkur eldri konur“, segir hún og bætir við að þetta sé einfaldara með karlana og jakkafötin. „Mér finnst til dæmis erfitt að kaupa á mig kjól hérna í bænum. Ef hann er með ermum og ekki fleginn, er hann uppá miðjum lærum. Dætur mínar segja við mig „Þú ert í svo góðu formi að þú getur vel verið í leggings“, en sjálf fíla ég það ekki“.
Þetta er enginn peningur
Ásdís segir að sér finnist áberandi þegar miðaldra fólk sé í hópi ásamt eldra fólki, að ekki sé hlustað á elsta fólkið. Það séu frekar börnin sem hafi áhuga á því, yngsta kynslóðin. „Svo eru margir af elstu kynslóðinni svo illa settir fjárhagslega. Ég er heppin því ég fæ hálfan lífeyri eftir manninn minn. Ég var með sex börn og það var enginn leikskóli, nema bara fyrir yngsta barnið, þannig að ég ávann mér ekki nema hálfan lífeyri. Konur á mínum aldri voru yfirleitt heimavinnandi. Þær eru að fá eftirlaun frá Tryggingastofnun sem mér skilst að séu um 200 þúsund krónur á mánuði. Þetta er enginn peningur“.
Ekki komnar alveg á grafarbakkann
Ásdís segist elska fötin frá 66 gráðum Norður. „Ég eignaðist þá bestu yfirhöfn sem ég hef átt, eftir að ég lenti í því að verða módel“, segir hún. „Ég keyri ekki og fer allt fótgangandi. Mér finnst neyðarúrræði að þurfa að taka leigðubíl“. Hún segir að sér finnist eins og mörgum vinkonum sínum finnist upplyfting í því að hún hafi setið fyrir á auglýsingu. „Við erum ekki komnar alveg á grafarbakkann“, segir hún og hlær. Þær skjóti hins vegar á hana, vegna þess að þær hafi ekki efni á að kaupa þennan fatnað. En hún segir að þetta sé ákveðin forgangsröðun. Hún reki ekki bíl og það spari mikla peninga.
Ásdís flottur fulltrúi
Fannar Páll segir að auglýsingarnar með Ásdísi hafi vakið mikla athygli.“ Það hefur meðal annars verið haft samband við okkur frá breskum miðlum“, segir hann. Ásdís sé fyrst og fremst flottur fulltrúi sinnar kynslóðar, heilbrigð og hraust og hafi gaman af lífinu. Hann segir að hún hafi átt allt frumkvæði að þessu og fyrirtækið ákveðið að stökkva á hugmyndina. Fannar sagði að fyrirtækið legði uppúr að sýna venjulegt fólk í sínum fatnaði, en Ásdísi hefði ekki fundist það rétt að gamalt fólk sæist ekki í auglýsingum og hún hefði viljað taka þátt í að breyta því.