Fékk vinnu í Melabúðinni

María Sigurðardóttir hefur verið áberandi í íslensku samfélagi allt frá því hún fór í Leiklistarskóla Íslands. Samferða henni í náminu voru leikarar eins og Edda Heiðrún Backman, Pálmi Gestsson, Karl Ágúst Úlfsson og fleiri og vegnaði þeim misvel eftir námið eins og gengur. María hefur fengist við ýmislegt á sviði leiklistarinnar í gegnum tíðina, verið leikari, leikstjóri í báðum stóru leikhúsunum og mörgum minni og leikhússtjóri á Akureyri. Og svo einn daginn sást hún vinna á kassanum í Melabúðinni. Skyldi þetta ekki vera áhugaverð saga?

María tók við leikhússtjórastöðu á Akureyri 2008 af Magnúsi Geir Þórðarsyni.

Hættan við fjarveruna

“Ég flutti til Danmerkur í 3 ár og þegar ég kom til baka var eiginlega eins og ég hefði dáið…” segir María Sigurðardóttir leikkona með meiru. “Ég var ekki til fyrir leikhússtjórnendum í landinu, fékk bara ekkert að gera. Þá voru góð ráð dýr… og þetta varð m.a. til þess að ég sótti um starf í Melabúðinni.” María segist hafa gert sér grein fyrir því í Leiklistarskólanum að gott væri að kynna sér fleiri möguleika leiklistarinnar en að verða leikari svo hún lagði sig snemma fram um að kynna sér leiklistarkennslu og leikstjórn og það hefur verið hennar styrkur alla tíð.

Leikhússtjóratíminn endaði illa

María var búin að vera leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar á Akureyri í þrjú ár 2011 þegar kom í ljós að fjárhagsleg staða Leikfélagsins var verulega slæm. Framkvæmdastjórinn hafði reynt að fela það fyrir bókhaldara og leikhússtjóra en allt með góðum hug í þeirri von að hagur vænkaðist. Sem  leikhússtjóri stóð María sína pligt og hætti. Ekkert saknæmt átti sér stað þarna að sögn Maríu, reksturinn hafði farið fram úr áætlun… engin viðvörun kom frá framkvæmdastjóra, sem María segir að hafi þó fylgst náið með öllum framkvæmdum. “Það er út af fyrir sig ekkert skrýtið við það að leikhús fari aðeins fram úr áætlun því það er erfitt að spá fyrir um hvernig sýningar muni ganga. Ég er ekki að mæla því bót en það er óneitanlega fjárhagsleg áhætta við hverja uppfærslu.”

Vinna með Hofi, Menningarfélagi

“En það sem fór verst með fjárhag LA á þessum tíma var að við vorum að vinna með Hofi, Menningarfélagi, sem var í raun bara menningarhús, ný rándýr bygging sem þurfti svo að fara að reka. Við hjá LA þurftum að leiðrétta ýmsa vankanta á aðalsal hússins og sviði um leið og við æfðum Rocky Horror, sem var “Stór-show”. Til þess að gera okkar sýningu sem besta, í sal sem var ekki hannaður fyrir “rokksjó” urðum við að leggja út í of mikinn kostnað!” Það er erfitt  fyrir Maríu að rifja þetta upp. Hún hafði  treyst framkvæmdastjóranum, að hann væri hennar öryggisventill í fjárhagslegu tilliti. Eftir því sem tíminn líður, og hún hefur getað horfst í augu við sorgina sem þetta mál olli henni, hefur hún séð vettvanginn skýrar. “Ég veit núna að það var fólk, aðallega konur í pólitík, í góðum stöðum í menningargeiranum á Akureyri á þessum tíma,sem hafði horn í síðu minni. Þetta kom t.d. til af því að ég var alfarið á móti sameiningu LA og Hofs, Menningarhúss, eins og hún var sett fram af framkvæmdastjóra Hofs. Hugmynd framkvæmdastjórans og aðaláhersla var að framkvæmdastjóri/peningavaldið stýrði batteríinu og hefði þar með öll völd yfir listrænum stjórnendum.”

María að taka á móti Grímuverðlaunum fyrir Eddu Björgvinsdóttur þegar hún var valin besta leikkona í aðalhlutverki í myndinni  Undir trénu 2018.”

Heimtaði að ég gengi út samdægurs

“Þetta gat ég ekki sætt mig við. Ég vissi að þetta módel hafði verið reynt úti í heimi og ekki gengið upp. Þessi misklíð kostaði það að ég varð mjög óvinsæl í ákveðnum pólitískum “kredsum” og þegar konur í þessum “kredsum” komust til valda létu þær einskis ófreistað til að bola mér út úr menningarstjórninni á Akureyri. Ein þessara kvenna, Sigrún Björk, fyrrverandi bæjarstjóri og vinkona framkvæmdastjóra Hofs, kom sér í stjórn LA og gat því séð persónulega um að ég yfirgæfi völlinn. Þegar ég og bókari félagsins gerðum stjórn grein fyrir fjárhagsdæminu heimtaði hún að ég gengi út úr húsinu samdægurs. Ég tók það ekki í mál þar sem ég var að leikstýra gamanleik sem átti að fara á sviðið eftir tvær vikur. Ég vildi ekki yfirgefa mína leikara og listafólk í miðjum klíðum og fékk leyfi, allranáðarsamlegast hjá stjórn LA, til að klára mitt verk. Daginn eftir fór ég.”

Viðurkenndi sína ábyrgð fyllilega

“Auðvitað viðurkenndi ég mína ábyrgð sem leikhússtjóri LA. Ég elska þetta félag og hef alltaf og mun alltaf gefa því allt mitt. Það var bara svo sárt að þurfa að fara á þessum pólitísku/klíku forsendum. Ég var lengi að átta mig á því sem gerðist þarna og lengi að sjá að þetta var ekki allt “mér að kenna”. Ég náði mér í raun ekki fyrr en eftir um það bil þrjú ár, eftir mikla sjálfsvinnu og með hjálp góðra vina sem ég er svo heppin að eiga allmarga.”

María í hjólatúr í Malaga þegar hún prófaði að búa þar í 3 mánuði.

Valdi að græða sárin í Danmörku

María ákvað á þessum tímapunkti að flytja til Danmerkur því hún þurfti að fá fjarlægð frá atburðunum á Akureyri. Henni leið vel í Danmörku og vann við allskyns störf sem buðust og ferðaðist um á hjóli eins og innfæddir. Hún segir að nýtt umhverfi, öll útiveran og hreyfingin sem hún fékk á hjólinu hafi án efa átt stóran þátt í því að hún náði sér upp úr þyngslunum og sorginni sem hún upplifði áður en hún fór út. Hún hefði alveg getað hugsað sér að búa áfram í Kaupmannahöfn en valdi samt að koma heim. Það gerði hún ekki síst af því að yngri sonur hennar hafði komist inn í Listaháskólann í leiklist og María vildi ekki missa af því að fylgjast með honum í náminu. En hún veit alltaf af möguleikanum að fara aftur til Danmerkur. Þegar María var komin heim varð hún að finna sér vinnu, atvinnuleikhúsin höfðu ekki áhuga á hennar kröftum. Hún fékk ýmis verkefni eins og að leikstýra í skólum og áhugamannaleikfélögum en hún þurfti fastar tekjur.

Er ég of fín til að vera kassadama?

“Þá sá ég auglýsingu frá Melabúðinni, sem mér fannst svolítið spennandi. En samt… að vinna í búð, eftir að hafa verið leikstjóri, og jafnvel leikhússtjóri! Ég hugsaði málið og sagði við sjálfa mig: “Er ég virkilega svona hégómleg að ég geti ekki látið sjá mig við störf í búð? Og ég komst að þeirri niðurstöðu að ég væri ekkert of fín til að vinna á kassa í matvörubúð og sótti um og fékk starfið. Ég var fljót að komast að því að manni leiðist ekki eina mínútu í Melabúðinni. Það er alltaf mikið að gera, þetta er góður vinnustaður, frábært starfsfólk og yfirmenn. Ég þekki líka ótrúlega marga  sem skipta við Melabúðina og þó það hafi komið mörgum á óvart að sjá mig við kassann þá hefur mér liðið vel með það og ég held að flestum finnist það bara eðlilegt núorðið,” segir María og hlær.

María segir skemmtilegt að vinna á kassanum í Melabúðinni

Skemmtileg stúdía fyrir leikstjóra

María segist ekki hafa áttað sig á því fyrirfram hversu merkileg stúdía það er fyrir hana sem leikstjóra að vera “kassadama í búð”. “Þarna hittir maður fyrir alls konar fólk og það er óendanlega áhugavert og skemmtilegt að skoða mannlífið á svona stað.”  Hún segir að Melabúðin sé mjög sérstakur vinnustaður. Andinn þar sé sérlega góður og hún hafi alltaf ánægju af því að mæta í vinnuna. Hún er nú búin að vera þar í næstum fjögur ár og vinnur hálfan daginn, á morgnana. Þannig getur hún tekið að sér leikstjórn hjá skólum eða áhugafélögum nærri Reykjavík á kvöldin. Einnig hefur hún notið þess að geta fengið sig lausa smátíma yfir veturinn til að fara lengra til og leikstýra. Hún segist vera mjög þakklát stjórnendum og starfsfólki í Melabúðinni fyrir skilninginn.

Konur fengu bara að leikstýra barnaleikritum

María byrjaði að leikstýra 1987 og fyrsta verkefnið hennar var á Húsavík. Hún var líka aðstoðarleikstjóri í fjölmörgum bíómyndum, og tók þá sérstaklega að sér að velja og leikstýra börnum.  “Svo þegar Þórhildur Þorleifsdóttir varð leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu bauð hún mér vinnu. Fyrsta leikverkið mitt í atvinnuleikhúsi var leikritið “Sex í sveit” sem heppnaðist svo vel að leikritið gekk í fjögur leikár,” segir María og er ánægð á svipinn. “Ég verð þakklát Þórhildi alla mína ævi. Þarna uppgötvaði ég hvað mér þykir skemmtilegt og gefandi að leikstýra gamanleikjum.  Eftir þetta, og í tíð Þórhildar, leikstýrði ég mörgum og ólíkum leiksýningum í Borgarleikhúsinu. Þetta voru verk eins og Fegurðardrottningin frá Línakri, Pétur Pan, Bláa herbergið og fleiri. En þegar leikhússtjóraskipti urðu í Borgarleikhúsinu og karlmaður tók við varð erfiðara fyrir mig að fá verkefni. Á þessum tíma fengu konur yfirleitt bara að leikstýra barnaleikritum, karlstjórnendur leikhúsanna þorðu ekki að taka sjensinn á okkur, en það gerði Þórhildur bæði með mig og Kristínu Jóhannesdóttur og fleiri konur, og við stóðum okkur bara fjandi vel.”

María sækir kraft í náttúruna og nýtur útiveru.

Honk! Ljóti andarunginn

„Ég reyndi og reyndi en fékk ekkert að gera í Borgarleikhúsinu eftir að Guðjón Pedersen tók við. Það var ekki fyrr en ég kom með verk, sem ég fann sjálf, mjög flottur barnasöngleikur sem heitir “Honk! Ljóti andarunginn” að Gíó samþykkti að ég mætti setja hann upp. Þessi sýning varð frábær, Edda Heiðrún  og Felix Bergsson léku aðalhlutverkin, Ólafur Darri lék m.a. kalkún og villigæsaforingja, Edda Björg var þarna og Jóhann G. Jóhannsson og fleiri frábærir leikarar. Yndisleg vinkona mín Helga I. Stefánsdóttir gerði leikmyndina.  Þetta hefur sem betur fer aðeins breyst í seinni tíð því nú fá kvenleikstjórar fjölbreyttari tækifæri en bara barnasýningar,” segir María og hlær.

“Sigrún Pálína bjargaði mér”

Þegar María var sest að í Kaupmannahöfn 2012 segist hún hafi byrjað að vinna við ýmis störf, en ekki leiklist, og auðvitað hugsað fjandi margt. “Þegar hlutir ganga ekki upp verður kona bara að halda sínu striki, vinna fyrir mat sínum og reyna að finna hamingjuna,” segir hún einbeitt. Það var svo hennar gæfa að eigin sögn að finna á netinu konu, ráðgjafa sem bauð upp á viðtöl. Sigrún Pálína Ingvarsdóttir hét hún og var með stofu í Kaupmannahöfn á þessum tíma og stafaði sem ráðgjafi. “Ég pantaði tíma hjá þessari konu og það var þvílík guðs gjöf fyrir mig að hitta Pálu því fyrir utan að vera yndisleg manneskja var hún gífurlega mögnuð fagmanneskja. Hún hjálpaði mér að skilja hvernig kona getur unnið sig út úr áföllum og nú get ég talað um þetta Akureyrarmál vitandi það að þetta var ekki allt mín ábyrgð hvernig fór þótt ég skorist sannarlega ekki undan því sem er mitt í því máli. Ég er í öllu falli sterkari manneskja eftir,” og frá Maríu stafar öryggi og staðfesta. “Við Pála urðum mjög góðar vinkonur og ég var svo heppin að njóta hlýju og vináttu hennar. Við nutum þess að fíflast og hlæja saman. Pála mín varð að lúta í lægra haldi fyrir krabbameini í apríl á þessu ári. Ég sakna hennar mikið.”

Síðan hefur lífið verið jákvæðara

“Eftir á að hyggja var kannski gott að ég lenti í þessum hremmingum því eftir að ég náði mér upp hefur allt mitt líf verið miklu jákvæðara. Ég er búin að fá krabbamein þrisvar en hef sem betur fer læknast og þegar upp er staðið kennir lífið manni bara að forgangsraða. Ég reyni að gera bara það sem er skemmtilegt og viti menn, það er allt skemmtilegt ef maður ákveður það!” segir þessi glæsilega og hæfileikaríka kona sem, fyrir utan að leikstýra og kenna, fékk sér vinnu á kassanum í Melabúðinni og þykir það frábær vinna! María er um þessar mundir að vinna við leikaraval með leikstjóranum Marteini Þórssyni í kvikmyndinni UNU sem verður tekin á næsta ári. Fyrir utan það er hún að undirbúa veturinn fyrir leikstjórn úti á landi svo hún er sannarlega ekki af baki dottin.

Ritstjórn ágúst 30, 2019 07:36