Á flótta með sitt sparifé

Ef þú ert eldri borgi sem færð lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, þá skerðast þær ef þú hefur vaxtatekjur. Lifðu núna ræddi við hjón sem ákváðu að geyma allar stærri peningaupphæðir sem þau eiga  í bankahólfi. Þau vildu ekki tala undir nafni, en maðurinn erfði til dæmis peninga eftir foreldra sína, greiddi af þeim erfðafjárskatt og setti þá síðan í bankahólfið.

Okkar peningar eru allir löglega fengnir og það er búið að greiða skatt af þeim öllum. Við þekkjum marga sem hafa valið þessa leið, fremur en að setja peningana inná bankareikning og greiða af þeim fjármagnstekjuskatt. Við fáum enga ávöxtun af þessum peningum  í hólfinu en finnst það allt í lagi, enda myndu lífeyrisgreiðslur skerðast ef þetta væri á bankareikningi. Við erum með hluta af okkar fé inni á bankareikningum, en höfum þessa háu upphæð í hólfi og notum fyrir okkur og fjölskylduna. Það er ekki ástæða til að margborga skatta af þessum peningum“.

Ingibjörg Sverrisdóttir

Ingibjörg Sverrisdóttir er áhugamaður um kjör eldra fólks og hefur skoðað tekjuskerðingarnar í lífeyriskerfinu, en boðað hefur verið að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður í 22%   Hún starfaði í ferðaþjónustu áður en hún fór á eftirlaun. „Það er ekki óalgengt að eldra fólk hafi safnað sér varasjóði til að nota þegar það er komið á eftirlaun, kannski nokkrum milljónum króna, enda er illmögulegt að leggja fyrir af þeim 280 þúsundum sem menn eru kannski að fá frá Tryggingastofnun. Þó þú verðir eldri borgari hættir húsnæðið þitt ekki að veðrast, það þarf viðhald og eitthvað kostar líka að reka bíl“, segir hún og finnst ósanngjarnt að ekki hafi verið sett mörk á það hvenær hversu miklar fjármagnstekjur fólk megi hafa, áður en það fer að skerða lífeyrinn.

Aðrir lækka ekki launum þó þeir eigi sparifé

Ingibjörg bendir á að sumir eigi tugi og jafnvel hundruð milljóna króna. „En það er óþarfi að níðast á fólki sem á nokkrar krónur í banka. Fólk er að taka þetta út og geyma í bankahólfum. Það tapar einhverju, en vill vera með launin sín frá TR í friði. Sá sem er á vinnumarkaðinum, fær að hafa sitt sparifé í friði og lækkar ekki í launum á sínum vinnustað þó hann fái einhverja vexti af því.  Það er ekki hægt að skilja hugsunrhátt þeirra sem búa þetta til“., segir hún og bætir við að fyrir breytinguna á almannatrygginglögunum um síðustu áramót, hafi eldra fólk mátt hafa 98.000 krónur í vexti yfir árið, án þess að það skerti lífeyrisgreiðslurnar frá TR, en hjá vinnandi fólki hafi þetta frítekjumark verið 125.000 krónur. Um síðustu áramót hafi frítekjumark vaxtatekna hjá eldra fólki verið breytt í núll.

Borga hæstu „tekjuskatta“ á landinu

Eitt sameiginlegt frítekjumark var tekið upp um áramótin, 25.000, en það gildir fyrir allar tekjur, þ.e. atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur og vaxtatekjur. „Eins og staðan er núna eru eldri borgarar að greiða jaðarskatt, sem jafngildir því að þeir borgi hærri skatt af sínum tekjum, en allir aðrir í samfélaginu. Það er hræðilegt að nokkur ráðherra skuli láta sér detta þetta í hug“, segir Ingibjörg og gagnrýnir hversu lítill munur sé á tekjum þeirra sem fái greiðslur úr lífeyrissjóði og þeirra sem aldrei hafi greitt í lífeyrissjóð og fái eingöngu lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. „Við sem erum að koma af vinnumarkaðinum og höfum borgað alla tíð, fáum lítið út úr þessu og hefðum getað sleppt því að borga í lífeyrissjóð. En það er of seint að tala um þetta núna, við vissum þetta ekki þá“.

Ástæðulaust að margborga skatta af peningunum

Ingibjörg segir að margir átti sig ekki á því að vextir af sparifé, hafi áhrif á greiðslur þeirra frá Tryggingstofnun. En þeir sem geri það, taki peningana sína sem sagt út af bankareikningum og setji þá í bankahólf. „ Það er ástæðurlaust að margborga skatta af þessu fé“, segir hún, rétt eins og hjónin sem rætt var við hér fyrr í greininni „Þú ert búin að borga skatt af þeim peningum sem þú leggur fyrir til að eiga fyrir viðgerð á bílnum, eða viðgerð á þakinu ef svo ber undir“.  Ingibjörg bendir á að sumir hafi farið þá leið að láta sína nánustu geyma fyrir sig spariféð á bankareikningum. „Eldri borgarar eru á flótta með sitt sparifé svo þeir fái að njóta þess í friði frá TR“, segir hún.

 

Ritstjórn desember 21, 2017 09:39