Austurlandahraðlestin – meira en vettvangur morðs

Yfir nafninu Austurlandahraðlestin er einhver ævintýraljómi. Flestir sjá fyrir sér glæsivagna með flauelsáklæði á bekkjum, svefnvagna með notalegum kojum og matarvagn þar sem þjónar með hvíta hanska bera fram kampavín. Og þannig var það á fyrsta farrými lestarinnar. Líklega væri fegurð og glæsileiki hennar þó löngu gleymdur ef ekki væri fyrir  Agöthu Christie.

Ein frægasta bók spennusagnadrottningarinnar er Morðið í Austurlandahraðlestinni. Hercule Poirot leysir þar flókna gátu með því að nota litlu, gráu frumurnar eins og hans er von og vísa. Síðar var gerð kvikmynd eftir sögunni og var hún tekin upp í nokkrum vögnum upphaflegu lestarinnar. Bandarískur auðkýfingur, eigandi Belmond-hótelkeðjunnar, hafði keypt hluta lestarinnar gömlu sem fram að því hafði ekki mikið verið hirt um. Hann leitaði síðan uppi fleiri vagna og lét gera þá upp og enn brunar Austurlandahraðlestin frá Feneyjum til Simplon í Sviss. Þessar ferðir eru ekki gefnar en margir telja að þess virði að stíga upp í vagna skreytta í art deco-stíl, anda að sér andrúmslofti þriðja áratugs síðustu aldar og leyfa sér allan þann lúxus sem þá bauðst velstæðu millistéttarfólki.

Agatha Christie elskaði lestar og taldi það skemmtilegasta ferðamáta sem hugsast gat að fara með lest milli staða. Austurlandahraðlestin var sannarlega glæsilegasta lest allra tíma. Lestarvagnarnir voru klæddir mahóní og í matarvögnunum voru viðarþiljurnar skreyttar innlögðum myndum úr ljósari viði og silki með kínversku mynstri prýddi sætin. Gluggatjöldin voru sömuleiðis vönduð og falleg.

„Í farteskinu hafði kóngur svo sjaldgæf frímerki, skartgripi og aðra dýrgripi sem hann náði að grípa með sér á hlaupum auk þess sem hann hafði með sér þrjár ferðatöskur fullar af peningum.“

Athvarf hinna ríku og frægu

Austurlandahraðlestin var í tísku meðal fyrirfólks í Evrópu frá árinu 1883, þegar hún fór sína fyrst ferð, og fram til ársins 1939 að síðari heimsstyrjöldin braust út. Fyrir utan Agöthu eru Harry Houdini, Mata Hari, Wallis Simpson og Graham Greene meðal þeirra sem ferðuðust með lestinni og snæddu sælkeramáltíðir í matarvögnunum. Bók Graham Greene, Stamboul Train, gerist um borð í lestinni. Upphaflega nefndi Greene bókina The Orient Express en varð að falla frá þeim titli þar sem bók Agöthu kom fyrr út. Lestin var einnig sviðsmynd kvikmyndarinnar The Lady Vanishes eftir Alfred Hitchcock sem gerð var árið 1938. Atvik í bók Eric Ambler, A Mask for Dimitrios, gerist um borð í lestinni og sena úr Lady Chatterly’s Lover eftir D.H. Lawrence á sér stað þar.

Evrópskt kóngafólk elskaði þessa lest ekkert síður en listamenn. Leópold II Belgakonungur leyfði járnbrautarfyrirtækinu sem rak lestina að nota belgíska ljónið í skjaldarmerki konungsættarinnar sem lógó og fékk í staðinn að ferðast ókeypis með henni í hvert sinn sem hann ákvað heimsækja Austurlönd. Á þeim ferðum fylgdi hjákona hans honum en hún var dansari. Boris konungur Búlgaríu naut þess sömuleiðis að ferðast í þessum dásamlega þægilegu vögnum en hann heimtaði að fá að stýra henni í hvert sinn og það var látið eftir honum.

Þegar Hitler svo lyfti sverði sínu gegn Austur-Evrópu flúði Rúmeníukonungur undan honum til Sviss um borð í lestinni. Það er lágmark að menn fái að ferðast á þægilegan máta jafnvel þótt þeir séu tæknilega séð á flótta. Í farteskinu hafði kóngur svo sjaldgæf frímerki, skartgripi og aðra dýrgripi sem hann náði að grípa með sér á hlaupum auk þess sem hann hafði með sér þrjár ferðatöskur fullar af peningum. Góssið fyllti þrjá farangursvagna og verðmæti þess hefði fleytt þjóð hans langt í átt til þess að reisa efnahag landsins úr rústum eftir hildarleik stríðsins. Karol hafði auðvitað hjákonu sína með sér á flóttanum en hún var dulbúin sem kokkur.

Austurlandahraðlestin gegndi einnig lykilhlutverki í mörgum sögulegum atburðum í Evrópu. Vopnahléssamningurinn milli Þýskalands og Bandamanna var undirritaður í lestarvagni nr. 2419 á brautarstöðinni í Compiégne í Frakklandi. Árið 1940 tók Hitler sig til og sótti vagn 2419 á safnið þar sem hann var geymdur og lét draga hann alla leið til Compiégne. Þar voru Frakkar svo neyddir til að viðurkenna uppgjöf sína gagnvart þýska innrásarliðinu. Stormsveitir Hitlers sprengdu síðan vagninn í loft upp í lok stríðsins til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar þyrftu að þola þá niðurlægingu að vera neyddir til að skrifa undir aðra uppgjafaryfirlýsingu í vagninum.

 „Lestin fræga hafði þó enn yfir sér ljóma sem kveikti þrá og vakti ímyndunaraflið af dvala. Sögur af ferðalögunum um borð, gleðinni, glæsileikanum og hinum ótrúlegu ævintýrum Austurlanda sem biðu farþeganna voru frjór jarðvegur fyrir listamenn að sækja í.“

Vagnarnir fengu nýtt hlutverk

En þótt Austurlandahraðlestin hafi hætt að ganga meðan á stríðinu stóð voru þó tveir af vögnunum notaðir mjög mikið allan stríðstímann. Þeir voru það húsnæði sem hýsti lúxushóruhús í Limoges í Frakklandi. Árið 1945 hófu lestir Evrópu reglulegar áætlunarferðir að nýju, allar nema Austurlandahraðlestin. Yfirbragð Evrópu hafði breyst. Aðallinn og aðrar forréttindastéttir voru hreinlega horfnar í mörgum löndum. Konungdæmi hafði verið lagt af víða og u.þ.b. helmingur álfunnar var undir stjórn kommúnista. Fáir hefðu haft efni á að leyfa sér að ferðast í jafnmiklum munaði og hafið verið viðhafður um borð í Austurlandahraðlestinni og því hóf járnbrautarfyrirtækið ekki rekstur hennar að nýju. Sennilega hafa þeir einnig álitið að það myndi ekki vænlegt til vinsælda að bjóða upp á annað eins óhóf meðan hálf Evrópa svalt. Hver getur hugsað sér að sitja í glæsivagni, skála í kampavíni og horfa út um lestargluggann á sviðna jörð, sprengigíga og sveltandi börn.

Lestin fræga hafði þó enn yfir sér ljóma sem kveikti þrá og vakti ímyndunaraflið af dvala. Sögur af ferðalögunum um borð, gleðinni, glæsileikanum og hinum ótrúlegu ævintýrum Austurlanda sem biðu farþeganna voru frjór jarðvegur fyrir listamenn að sækja í. James Bond lendir í æsilegum eltingaleik um borð í Austurlandahraðlestinni í myndinni From Russia With Love. Það skipti áhorfendur engu máli að þeir lestarvagnar sem enn voru til stóðu kyrrir á ýmsum söfnum. En svo sannað lestin mikla að ævintýrin gerast enn þegar bandarískur auðkýfingur, James B. Sherwood að nafni, ákvað á uppboði hjá Sotheby’s að bjóða í þá vagna lestarinnar sem þar voru til sölu.

James Sherwood hafði alls ekki ætlað sér þetta þegar uppboðið hófst en fékk þessa hugdettu þegar vögnunum var lýst. (Þeir tveir vagnar sem hann eignaðist þarna voru síðar notaðir við upptökur á myndinni Morðið í Austurlandahraðlestinni þar sem Peter Ustinov leikur Poirot snilldarlega.) En þegar James hafði eignast þessa tvo datt honum í hug að gaman gæti verið að endurgera þessa glæsilegustu lest allra tíma og senda hana af stað til Austurlanda að nýju. Flestir hefðu haldið að hugmyndin væri fáránleg fífldirfska og dæmd til að mistakast en svo var aldeilis ekki. Fjórum árum síðar hafði Sherwood tekist að finna og kaupa nægilega marga vagna úr lestinni frægu til að geta sett saman meðalstóra lest. Hann lét gera vagnana upp og færa þá til fyrra horfs og nú er hægt að kaupa sér farmiða með lestinni Venice-Simplon-Orient-Express sem fór sína fyrstu ferð í maí 1982.

Ferðast um sex lönd

Nú á dögum heimsækir lestin sex lönd. Frá Istanbúl er haldið gegnum Búlgaríu, yfir Karpatafjöllin og Dóná til Búkarest. Þaðan er farið til Búdapest og síðan áfram til Vínar og að lokum endað í Feneyjum. Agatha Christie gat farið alla leið til Bagdad og gerði það reyndar. Sú ferð var henni örlagarík því þar hitti hún síðari mann sinn. Sir Max Mallowan fornleifafræðing. Christie var að ná sér eftir erfiðan skilnað frá Archibald Christie og ákvað að taka sér far með Austurlandahraðlestinni. Þegar hún kom til Bagdad bauðst henni að heimsækja breska fornleifauppgröftinn í borginni Ur og þar var Max. Hann var 14 árum yngri en hún en hjónaband þeirra var mjög hamingjusamt og entist í 45 ár. Þau voru alla tíð mjög náin en fyrra hjónaband hennar skildi eftir ör því hún skrifaði oft um það í bókum sínum að ungum stúlkum væri sérlega hætt við að falla fyrir óáreiðanlegum mönnum.

Það er hins vegar stjórnmálaástandið í Sýrlandi, Íran og Írak sem gerir það að verkum að nútímaferðalangurinn getur ekki fetað í fótspor spennusagnahöfundarins fræga. En þessi sex lönd sem heimsótt eru nú eru ákaflega falleg og Istanbúl hefur mjög austurlenskt yfirbragð. Um Búkarest er einnig sagt að þar andi austrænir vindar og sennilega er mikið ævintýri að koma þangað. Ekki skemmir að um borð í lestinni er fyrsta flokks þjónusta, sælkeramatur og lúxussvefnklefar. Við höfum því miður ekki upplýsingar um hvað herlegheitin kosta en það má auðveldlega gera sér í hugarlund að karl vilji fá eitthvað fyrir snúð sinn. James Sherwood er fyrst og fremst kaupsýslumaður og lestin er enn í rekstri á ýmsum leiðum um Evrópu.

 „Austurlandahraðlestin var sannarlega glæsilegasta lest allra tíma. Lestarvagnarnir voru klæddir mahóní og í matarvögnunum voru viðarþiljurnar skreyttar innlögðum myndum úr ljósari viði og silki með kínversku mynstri prýddi sætin.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 29, 2025 07:00