Vilja komast úr kuldanum og myrkrinu

Það var þétt setinn bekkurinn.

„Okkur finnst þetta spennandi og erum mikið búin að hugsa um að kaupa okkur íbúð eða hús annað hvort á Spáni eða Tenerife,“ sagði kona  sem sótti kynningarfund Spánarheimila um helgina.

Það er greinilega mikill áhugi meðal Íslendinga á að kaupa sér hús eða íbúð á Spáni. Á fundinn sem haldinn var á laugardag mættu nokkur hundruð manns til að kynna sér farsteignamarkaðinn á Costablanca svæðinu. Þeir yngstu um þrítugt og þeir elstu nokkuð við aldur.

Boðið er upp á sérstakar skoðunarferðir fyrir þá sem eru í kauphugleiðingum. Fjögurra til fimm daga skoðunarferð kostar 59.900 hundruð krónur, flug og gisting innifalið, en næstu vikurnar verður boðið upp á ferðir á völdum dagsetningum sem kosta tíu þúsund krónum minna eða 49.900 á mann. Bjarni Sigurðsson hjá Spánarheimilum sagði að það væri lykilatriði fyrir fólk að vera búið að ákveða hvar það hefði hug á að kaupa og hvernig eign áður en það færi af stað út. Þegar þangað er komið er reynt að bjóða fólki að gista í eign svipaðri þeirri og það langar að kaupa.  Starfsmenn Spánarheimila sjá  um að sýna fólki svæðið og eignir sem eru í boði. „Það er okkar reynsla að oft breytast hugmyndir fólks um svæðið  þegar út er komið. Það er annað að sjá umhverfið með eigin augum heldur en skoða myndir á netinu,“ sagði Bjarni.

Fasteignaviðskipti á Spáni eru með nokkrum öðrum hætti en fólk á að venjast hér á landi. Þegar fólk hefur fundið eign sem það hefur hug á að kaupa er gerður svokallaður frátektarsamningur og staðfestingargjald greitt, yfirleitt 3000 til 6000 evrur. Það næsta sem kaupandinn þarf að gera er að verða sér úti um spænska kennitölu og ganga frá fjármögnun á eigninni. Þetta ferli getur tekið frá tveimur og upp á átta vikur. Ef fólk er að kaupa hús sem er í smíðum þarf það að greiða 30 til 50 prósent kaupverðs í áföngum á byggingartímanum. Á móti á það rétt á bankatryggingu frá viðskiptabanka byggingarfyrirtækisins.

Kaupferlinu lýkur svo hjá sýslumanni. Þar gerist allt á sama tíma, samningar eru undirritaðir, greitt er fyrir eignina og hún er afhent. Ábyrgð sýslumannsins er mun meiri en hér en honum ber að ganga úr skugga um að allt sé í lagi sem viðkemur eigninni áður en samningar eru undirritaðir. Verð fasteignanna er á mjög breiðu bili, ræðst af staðstetningu og því hvort verið er að kaupa eldri eign eða nýbyggt.

Af samtölum Lifðu núna við þá sem komu á fundinn töluðu flestir um að þá langaði til að komast úr vetrarríkinu á Íslandi. „Maður er orðin hundleiður á þessu myrkri og kulda sem er á Íslandi,“ sagði konan sem vitnað var til upphafi greinarinnar.

 

 

 

Ritstjórn september 11, 2017 10:26