Hver ferð er ævintýri

Inga Geirsdóttir telur að margt sé líkt með Íslendingum og Skotum, enda vitað að Keltar voru stór hluti landnámsmanna hér. Hún og maður hennar, Snorri Guðmundsson hafa búið í Skotlandi í tuttugu og tvö ár og una hag sínum vel. Þau reka ferðaskrifstofuna Skotgöngu ásamt Margréti dóttur sinni og þúsundir Íslendinga hafa notið þess að ganga, fræðast, hvílast, gleðjast og njóta með þeim í gegnum árin.

Upphaf ferðaskrifstofurekstursins var löngun þeirra til að bjóða Íslendingum í hálendisgöngur í Skotlandi. Inga var sjálf heilluð af fegurð þeirra og langaði að leyfa öðrum að njóta líka.

„Ég byrjaði eiginlega til að bjóða konum eitthvað skemmtilegt að gera meðan karlarnir voru í golfi. Þá voru þær ekki eins virkar í þeirri íþrótt en þeir koma gjarnan til að spila í Skotlandi, nú eða í fótboltaferðir. Eftir að við fluttum út fór ég að vinna á hóteli til þess að læra skoskuna og kynnast Skotum. Ég fór svo að ganga West Highland Way með vinkonur mínar og kviknaði þá þessi hugmynd að bjóða upp á gönguferðir fyrir konur til Skotlands. Þar sem mér kom algjörlega á óvart var hversu vinsælt þetta var og fór ég með um hundruði kvenna fyrstu tvö árin 2006 og 2007.

Nú síðan spurðist út hversu falleg og skemmtileg þessi leið er og þá fóru karlmennirnir að spyrja hvort þeir  mættu ekki koma með. Þeir kölluðu þetta reyndar „pöbbaröltið“ höfðu heyrt af áfangastöðum okkar. Ég fór þá endurhugsa ferðirnar og hanna þær bæði fyrir karla og konur. Svo fór ég sem fararstjóri niður á Tenerife fyrir Úrval Útsýn 2015, var að leysa af og var beðin að taka gönguhóp. Eftir að því starfi lauk fór að ég bjóða upp á gönguferðir þar og svo á Alicante, næst fór ég til Austurríkis og Slóveníu, þá bættist Króatía og Ítalía við og næsta sumar fer ég til Möltu. Þetta er farið að dreifast víða um Evrópu og sumir koma aftur og aftur. Hafa farið með okkur til Slóveníu og koma svo með til Ítalíu og svo framvegis.“

Inga og Kristín Linda Jónsdóttir. Þær hafa farið með ótal konur í uppbyggjandi ferðir.

Með áhugavert samstarfsfólk

Inga hefur einnig verið mjög dugleg að tengja sig við skemmtilegt og áhugavert fólk sem hefur margt fram að færa. Hún hefur meðal annars starfað með Vilborgu Davíðsdóttur rithöfundi.

„Það kom þannig til að Guðspekifélagið bað okkur að skipuleggja ferð fyrir sig, til Lewis og Harris og þeir buðu Vilborgu með. Hún var þá nýbúin að missa Björgvin, manninn sinn. Ég var nýbúin að hlusta á viðtal við hana þar sem hún sagði að í sorginni þyrfti ekki alltaf orð. Fólk segði gjarnan, ef þig vantar eitthvað hringdu en syrgjandi hringir ekki þótt hann myndi sannarlega þiggja að einhver færi með bílinn í smurningu eða eitthvert annað viðvik. Margir forðast líka fólk í sorg en Vilborg sagði: „Þú þarft ekki að segja neitt, bara að taka utan um mann.“ Svo tek ég á móti hópnum og þegar ég sá hana gerði ég eins og hún hafði sagt að væri best, fór og tók utan um hana. Síðan hefur hún verið fjölskylduvinur.

Á einhverjum tímapunkti bað hún okkur að skipuleggja með sér ferðir til Orkneyja á slóðir Auðir djúpúðgu. Dóttir mín er farin að fara mest með þeim en hún og maðurinn minn eru nýbúin að skila af sér hópi úr slíkri ferð. Önnur ferð er fyrirhuguð í haust og það er alltaf eftirspurn eftir þeim.“

Heilsueflandi kennaraferð

Önnur samstarfkona er Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur. Þær skipuleggja saman  heilsueflandi ferðir. Ein slík stendur til í júní.

„Já, við erum að fara með 120 skólastarfsmenn til Spánar. Þetta er heilsueflandi ferð til að fá kennurum vopn í hendur til að geta verið ánægðir í starfi. Það er mikið um kulnun í kennarastarfinu. Við erum með námskeið og svo fer ég með fólkið í gönguferðir. Við höfum áður farið með skóla í svona ferð og skólastjórinn sagði mér að það væri besta utanlandsferð sem starfsfólkið hefur farið í. Það er alltaf verið að fara utan til að heimsækja skóla og sækja fyrirlestra misáhugaverða en þarna fer allt starfsfólkið saman og fær færi á að tala saman og kynnast á nýjan hátt.

Framundan eru svo tvær ferðir í viðbót, ein til Tenerife og önnur til meginlands Spánar. Við fáum sömu konurnar aftur og aftur í þessar ferðir og Kristín Linda breytir dagskránni og aðlagar námskeiðin að hópnum hverju sinni. Þetta er mjög góð blanda, jákvæð sálfræði og gönguferðir.“

Inga hvetur konur til að koma einar í ferðir á vegum Skotgöngu. „Þú ert aldrei ein meira en þú vilt vera ein,“ segir hún.

Hvetja konur til að koma einar

Fyrir tveimur árum greindist Inga með krabbamein en nýlega útskrifaðist hún úr þriggja mánaða eftirliti.

„Mér liggur við að segja að annar hver maður í dag hafi fengið krabbamein,“ segir hún. „Áður en ég byrjaði í lyfjameðferð fékk ég leyfi hjá lækninum að fara í tvær ferðir sem ég var búin að skipuleggja. Önnur var kvennaferð á vegum Þrautar, fyrir konur með vefjagigt. Þær voru fjörutíu og fjórtán í hópnum höfðu fengið krabbamein. Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari og Ingibjörg Eydís Ingimarsdóttir hjúkrunarfræðingur eru með mér í þessum ferðum. Fyrir mig var það frí að hafa fengið að fara í ferðina og þegar ég sá hversu margir læknast var það algjört búst fyrir mig.“

Þarna koma með þér fjórtán konur sem hafa upplifað að greinast með lífshættulegan sjúkdóm. Þær eru stór hluti hópsins. Getur verið að meðal þeirra sem hafa horfst í augu við eigin dauðleika á þennan hátt verði ákveðin vakning og löngun til að lifa lífinu á fyllri hátt, gera eitthvað fyrir sjálfan sig?

„Já, já, já, við fáum mjög oft og margar konur sem hafa tekist á við alls konar veikindapakka. Við hvetjum þær til að koma einar. Við segjum þeim: „Þú ert aldrei ein meira en þú vilt vera ein.“ Ég býð alltaf upp á samverustund seinni partinn frá fimm til sjö. Ég finn eitthvert hentugt horn og þangað koma konur með prjónana eða bara til að setjast saman og þá fara þær að kynnast. Ég sé til þess að þær hangi ekki einar uppi á herbergi og þurfi ekki að finna þetta tómarúm sem myndast þegar þú er stök í hópi sem er kannski samansettur af mæðgum eða vinkonum. Ég býð upp á þetta í öllum kvennaferðum og það er alltaf fullt í horninu og þessar konur koma aftur og aftur. En þetta snýst vissulega um að fara út fyrir þægindarammann og koma sér af stað.

Þær fá alltaf fylgd út, Kristín Linda fylgir sínum hópi, svo er ég með dekurferðir fyrir konur á öllum aldri, dætur, mæðgur og ömmur svo eitthvað sé nefnt. Þar fylgir Helga Högna Unnarsdóttir, leirkerasmiður og íþróttakennari konunum út og þar býður hún upp á allskonar föndur og sundleikfimi svo eitthvað sé nefnt og síðan förum við með þær í skemmtilegar skoðunarferðir og léttar göngur. Þær byrjuðu sem prjónaferðir en snúast í dag um að láta sér líða vel. Manninum mínum fannst þetta fráleitt til að byrja með. „Ekki segja mér að þú sért að fara selja einhverjar prjónaferðir! Sagði hann en þær voru fljótar að fyllast. Í fyrra haust voru með mér sjö systur, talandi um bókaflokkinn eftir Lucindu Riley. Þær höfðu ekki hist allar saman í mörg, mörg ár, ein bjó í Þýskalandi og önnur í Danmörku. Í annað sinn komu fjórar systur saman. Þessar ferðir snúast um að dúllast, stunda hannyrðir, mála, synda og fara í handverkshús. Þetta er ótrúlega skemmtilegt. “

Snorri með Ian McNeice sem leikur Bert í Doc Martin.

Á slóðum Jane Austen

Í vor fór Inga stórskemmtilega kvennaferð á slóðir Jane Austen í Hampshire á Englandi og fleiri slíkar ferðir eru fyrirhugaðar. Aðdáendur bóka Austen flykktust í ferðina og sú næsta er fyrirhuguð næsta vor og konur strax byrjaðar að skrá sig.

„Ég var með Jane Austen í maí og við ætlum að fara aftur í maí á næsta ári. Þetta er dásamlegur tími, allur gróður að lifna við og svo ætlum við að fara strax í kjölfarið í ferð í fótspor Agöthu Christie. Sú ferð er í ferli núna og ég er að fara af stað til að kynna mér allt í kringum hana. Hún bjó í Greenway House rétt hjá London og þar er hún grafin. Agatha var hins vegar fædd í Torquay í Cornwall og átti hús á Burgh-eyju og næst þegar tími gefst til þá mun ég fara í að setja upp þá ferð.

Ég er líka að fara með Kvenfélagið í Biskuptungum niður til Cornwall eftir nokkra daga, þær ætla á slóðir Doc Martins í Port Isaac. Við erum með gönguferðir þarna niður frá og þekkjum skagann mjög vel. Ég fer með þær líka út í eyju sem heitir St. Michaels Mount þar gerast bækur Jenny Colgan um litla bakaríið við Strandgötuna. Jane Austen átti líka sumarleyfisstað í Lime Regis sem er á ensku ríverunni og við ætlum líka að kíkja þangað fyrir þær sem hafa áhuga á. Það er svo margt að gerast og alltaf svo gaman.“

Stutt að skreppa heim

Inga og Snorri fluttu út til Skotlands árið 2005 vegna vinnu hans og bjuggu fyrst í Glasgow í níu ár. Þau ákváðu síðan að kaupa sér hús í litlum bæ rétt fyrir utan Edinborg. Er ferðaskrifstofureksturinn full vinna fyrir þau bæði?

„Maðurinn minn er í fullri vinnu annars staðar en fer í launalaust leyfi eða nýtir sumarfríið sitt þegar hann fer í Orkneyjaferðir. Dóttir okkar er búin að búa í Skotlandi í tólf ár og hún er potturinn og pannan á skrifstofunni. Margir átta sig ekki á hversu mikil vinna liggur að baki hverri ferð. Það er mikið mál að skipuleggja þannig að allt gangi upp, rútuferðir, máltíðir, gisting og miðar inn á hitt á þetta. Ég held að við séum með þrjátíu ferðir þetta árið og ég er dekurdúkka því Magga réttir mér bara þéttskrifuð blöð með dagskránni og þarf svo bara að fara eftir henni, fæ það skemmtilega að njóta samvista við fólkið. En svo verður hún að komast af skrifstofunni af og til og fór núna til Orkneyja með Vilborgu og Snorra, og fer einnig inn á milli í hinar ýmsu ferðir.

En við erum skrifstofan sem aldrei sefur. Mjög margir tala um að við svörum alltaf, fólk þarf aldrei að bíða eftir svari, við svörum á laugardagskvöldum, sunnudögum og frídögum. Við höfum það fram yfir aðrar ferðaskrifstofur. En þetta er ótrúlega skemmtilegt starf og hver ferð er ævintýri.“

Það er sannarlega óhætt að taka undir það því Inga, Snorri og Magga sérsníða ótal ferðir að aðskiljanlegum hópum og má til að mynda nefna að framundan er bændaferð í skosku hálöndin að skoða hreindýr og smalahunda en að lokum er vert að spyrja eruð þið á leið heim?

„Nei nei, við bjuggum níu ár í Glasgow meðan Snorri vann þar í tölvugeiranum. Síðan fluttum við í lítinn sveitabæ rétt fyrir utan Edinborg. Af því ég er dreifbýlistútta, fædd og uppalin á Eskifirði þá setti maðurinn puttann á kort og benti. Þá var Winchburgh, 3000 manna bær og verið að byggja ný hverfi og nú eru að verða tíu þúsund manns þarna. Þetta er algjör paradís og bara eins og að búa úti á landi. Ég er hálftíma til Edinborgar og tíu mínútur að keyra út á Edinborgarflugvöll. Auðvitað kalla ég Ísland alltaf heim, en ég á foreldra fyrir austan og ég get verið komið austur á Reyðafjörð um miðjan dag ef ég flýg að morgni frá Edinborg og keyri svo beint austur. Maður er sem sagt alltaf rétt hjá Íslandi.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Frekari upplýsingar um Skotgöngu má finna á: www.skotganga.co.uk

Ritstjórn maí 20, 2024 07:00