Bakstur, skraut og skemmtilegheit

Albert, Páll og Bergþór.

,,Okkur þykir þessi árstími alveg rosalega skemmtilegur,“ segir Albert Eiríksson en hann og maðurinn hans, Bergþór Pálsson, eru mikil jólabörn. ,,Við njótum þess í botn að verja tímanum í notalegheitum  heima við að baka og skreyta og setjum á fallega jólatónlist. Uppáhaldstónlistin af Spotify fyrir þessi jól er Isen sjunger með Kraja,“ segir Albert og brosir. Þeir félagarnir búa á tveimur stöðum, annars vegar á Ísafirði þar sem Bergþór er skólastjóri tónlistarskólans, og í Reykjavík þar sem þeirra aðalheimili er. Það er því nóg að gera við að skreyta og gera jólalegt í skólanum og heima.

Jólahefðirnar koma af æskuheimilum þeirra beggja en Albert segir að jólavenjurnar á þeirra eigin heimili hafi þróast og breyst með tímanum.  ,,Við missum okkur alveg þegar nær dregur jólum og hlökkum mikið til að fara í þetta árlega verkefni sem er jólabaksturinn.  Eitt af því sem við höfum samt breytt frá því við byrjuðum að búa er að við bökum færri sortir en áður og hellum okkur ekki í jólahreingernigu eins og þekktist á flestum heimilum hér áður. Nú erum við til dæmis farnir að eiga kökudeig í ísskápnum á aðventunni og skella því í ofninn, það er svo skemmtilegt að bera fram nýbakaðar smákökur ef gesti ber óvænt að garði. Það jafnast ekkert á við nýbakað og við erum alveg hættir að baka til að eiga til jólanna, nema sörurnar sem við frystum auðvitað.“

Ljóð sem fylgir jólakeðjunni og er eftir Pál.

Freistist þið kannski til að kaupa tilbúið deig stundum?

Albert brosir og segir að tilbúna deigið sem maður geti keypt í verslunum sé ótrúlega gott. ,,Það er alveg hægt að redda sér á því ef maður er önnum kafinn en

þá fer maður auðvitað á mis við notalegheitin við að útbúa deigið. Bergþór hefur lagt áherslu á að búa til deigið og svo rúllar hann því upp í lengjur og geymir inni í ísskáp. Ég mæli sannarlega með því en það er einfaldast í heimi að búa til svona deig og geyma. Þá tekur ekki nema nokkrar mínútu að baka kökurnar og voila!

Við búum til alls konar kökur, en eigum alltaf til rúsínukökudeig, sem er á alberteldar.is. Svo gerum við grunn að smjörkökum og leikum okkur með það. Við skerum deigið niður kalt og látum ofan á það sem hentar hverju sinni. Það geta verið möndlur eða hnetur, súkkulaði eða sulta og margt fleira. Þetta er skemmtilegt að leika sér með.“

Bessastaðakökur.

Albert segir að það sé einhver notaleg stemmning við að baka smákökur á aðventunni. ,,Við munum flest eftir dásamlegum ilminum þegar mæður okkar voru að baka. Mamma mín setti smákökurnar í ílát og faldi þau. Þetta var nokkurs konar ratleikur fyrir hver jól. Mamma bakaði og faldi og við krakkarnir fundum smákökudunkana undantekningarlaust. En ég held hún hafi líka gert ráð fyrir rýrnuninni,“ segir Albert og hlær. ,,Uppáhaldssmákökur okkar systkinanna voru kallaðar kornflekskökur sem voru blanda af súkkulaði, sírópi, palmín og kornflex. En mamma sá við okkur og bjó kornflexkökurnar til að kvöldi Þorláksmessu og þá voru þær til yfir jólin.“

Albert segir að aðfangadagur sé hefðbundinn hjá þeim en Páll, faðir Bergþórs, sem er orðinn 99 ára, sé oftast hjá þeim í mat á aðfangadag og þá miðist matargerðin við það sem hann vill borða. ,,Hann ákvað fyrir nokkru

Rúsínukökur.

að hætta að borða kjöt því honum þótti það ekki fara vel í sig. Þá höfum við hnetusteik sem aðalrétt og svo ýmislegt fleira sem okkur þykir gott. Þessi langi undirbúningstími í eldhúsinu á aðfangadag er svo dásamlegur. Þá kveikjum við á útvarpinu og hlustum á síðustu hugheilu jólakveðjurnar, setjum á fallega jólatónlist og dundum allan daginn við að matbúa. Það heitir víst að lifa í ,,núinu“,“ segir Albert og brosir við tilhugsunina.

Í fjölmörg ár hafa þeir Albert og Bergþór farið með matartengdan  glaðning til vina og ættingja á aðfangadagsmorgun í staðinn fyrir jólakort sem allir eru

Þegar jólaglaðningnum er ekið út er oft boðið inn og veitingar þegnar. Frá vinstri Bergþór, Jóhanna V. Þórhallsdóttir, Albert, Páll og Þóra Fríða Sæmundsdóttir

hættir að senda og þeir sjá mikið eftir. ,,Með þessari sendingu er kveðja í bundnu máli frá Páli, föður Bergþórs, þar sem kemur fram hvað er í pakkanum. Það er alltaf mikil tilhlökkun hjá okkur að fara í þessar heimsóknir,“ segir Albert og hlær. ,,Okkur er alls staðar boðið inn og það er svo gaman að sjá hvernig fólk er búið að skreyta fallega og okkur er alls staðar boðið upp á hressingu. Þetta er hluti af jólahefðunum okkar, skemmtileg hefð sem við munum ekki breyta,“ segir jólabarnið Albert. Hann  starfar líka við tónlistarskólann hjá manni sínum en auk þess er hann með ýmis aukaverkefni eins og veislurnar sem þeir Bergþór eru frægir fyrir og borðsiðanámskeið sem hafa verið vinsælar jólagjafir til ungmenna. Hann býður líka upp á námskeið á netinu sem hann kallar Lifum og borðum betur, fjögurra vikna námskeið þar sem áhersla er lögð á alvöru góðan og heiðarlegan mat. Fullbókað er á þau námskeið fyrir jól en fyrsta námskeiðið á nýju ári hefst 9. janúar. Hægt er að skrá sig á  á albert.eiriksson@gmail.com eða á hinni vinsælu matarbloggsíðu alberteldar.is

Og hér kemur uppskriftin að kornflexkökunum góðu:

Kornflexkökur:

300 g gott dökkt súkkulaði
6 msk síróp
100 g smjör
100 g palmín
2 msk. kókosolía
1 tsk. mjög sterkt kaffi
1/2 tsk. salt
kornflex (var með 500 g pakka og notaði u.þ.b. 2/3 úr honum)

Hitið saman í stórum potti súkkulaði, síróp, smjör, palmín, kaffi og salt. Passið að ofhitni ekki. Takið pottinn af eldavélinni, bætið saman við kornflexi. Hrærið varlega með sleikju. Setjið með skeið í (lítil) muffinsform – kælið.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 13, 2022 07:00