Bakvandamál – af mörgum talið dýrasta heilbrigðisvandamál í heimi

Vítahingur sem mjög auðvelt er að lenda í þegar verkir hrjá.

,,Ég varð fyrir upplifun þegar ég fékk tækifæri til að dvelja á Háls og bakdeild HVE í Stykkishólmi nú í vor. Bakverkur sem ég hef verið að kljást við allt frá því ég ,,rófubeinsbrotnaði” sem unglingur hefur hrjáð mig og nú þegar lífið hefur farið um þetta bak mitt, svona eins og gengur, hefur bakverkurinn ágerst. Nú er ég orðin sextug,  barnabörnunum fer fjölgandi og ástandið á mér orðið þannig að ég átti erfitt með að leika við þau litlu á gólfinu. Ég gat sætt mig við að eiga erfitt með að fara upp á háaloft í tiltektir því mér þykir sú vinna óheyrilega leiðinleg. En að geta ekki leikið við krílin mín á gólfinu sætti ég mig ekki við ef mögulega væru til ráð. Ég var reyndar búin að leita á mjög marga staði og hitta fjölda sjúkraþjálfara en fékk ekki svör sem dugðu mér. Það var ekki fyrr en markvissa þjálfunin, sem ég fékk í Stykkishólmi, skilaði sér að eitthvað fór að gerast.

Get ég kannski fengið pillu við bakverknum?

Svarið við þessari spurningu er ,,já” en í þeirri pillu felst ekki lækning, aðeins tímabundin

svíun. Svo er til sprautumeðferð sem losar okkur við verkinn en í henni felst heldur ekki lækning. Og þá fyllast margir vonleysi. En góðu fréttirnar eru þær að nú er búið að rannsaka bakverkinn svo mikið að sérfræðingar hafa sannarlega margvísleg ráð. Sprautumeðferðin gerir mikið gagn því hún gerir sjúklingnum kleift að geta byrjað að hreyfa sig eins og þarf til að bati náist. Hængurinn er samt sá að í öllum tilfellum er ábyrgðin hjá sjúklingnum sjálfum og langbesti árangur næst þegar sjúklingurinn heldur áfram að gera styrktaræfingarnar sjálfur, helst daglega. Með öðrum orðum þá er ekki til nein töfralausn eða ,,quick fix” þar sem sjúklingurinn getur treyst öðrum fyrir því að losa sig við verkinn.

Sýnd ástæða verksins

Hversu margir kannast ekki við þessa líkamsstöðu.

Bakdeildin er staðsett á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi og getur tekið við 13 sjúklingum hverju sinni. Flestir dvelja að jafnaði í 2 vikur, 2 x 5 daga, heim um helgina á milli. Eingöngu er tekið við sjúklingum á deildina eftir tilvísun læknis og öll meðhöndlun er einstaklingsmiðuð.

Í upphafi meðferðarinnar var ég sett í sónartæki eins og gert er þegar fóstur í móðurkviði eru skoðuð. Nú var verið að kanna ástand kviðvöðvanna sem styðja við hryggsúluna. Í ljós kom að vöðvarnir þrír, sem liggja í kringum miðju líkamans og styðja við mjóbakið, störfuðu ekki eins og þeir áttu að gera. Sá sem lá dýpst var orðinn svo til óvirkur en sá í miðjunni var orðinn allt of stór. Þetta hefur gerst á löngum tíma af því að ég hef verið að hlífa þessu auma svæði sem fór úr skorðum þegar ég rófubeinsbrotnaði 13 ára gömul. Síðan eru liðin 50 ár og af því að ég hef ekki náð að vinna á móti þessari þróun hefur ástandið bara versnað. Allt þar til nú að mér voru kenndar markvissar æfingar sem miðuðu að því að æfa þessa kviðvöðva þannig að þeir færu að starfa rétt. Eitt af því sem ég þurfti að skilja var að þessar æfingar byggjast ekki á átökum líkt og þegar stóru vöðvarnir í líkamanum, eins og læra- og rassvöðvar eru þjálfaðir, heldur miklu fínni og markvissari þjálfun. Og nú var ég í miklu betri stöðu til að gera æfingarnar þar sem ég vissi ástæðu verksins og hvað ég mátti bjóða bakinu mínu i hreyfingum.

Ég hef gert þessar æfingar samviskusamlega á hverjum morgni síðan ég kom úr Stykkishólmi og mér líður ótrúlega miklu betur.

Farin að hreyfa mig eins og ,,gamla fólkið”!

Þegar ég sá mynd mína speglast óvænt í glugga var ég farin að sjá að hreyfingar mínar minntu óþægilega á hreyfingar eldri konu.

Frekar en hætta í íþróttum þegar ég rófubeinsbrotnaði fann ég badmintoníþróttina sem hentaði mér betur þá. Lífsstíll minn byggðist því fljótt á hreyfingu þrátt fyrir meiðslin og á því græði ég nú.

Ég byrjaði því að stunda badminton þegar ég þurfti að hætta í frjálsum íþróttum. Ég hef nú stundað þá íþrótt í áratugi en allt í einu hætti ég að geta náð boltum þegar ég þurfti að beygja mig langt niður til að ná. Þá var lífið ekki eins skemmtilegt og einfalt var að vinna mig þegar andstæðingurinn áttaði sig á veikleika mínum. Leikurinn á gólfinu við barnabörnin var líka orðin pína. En þá var ég svo heppin að heyra fyrir tilviljun viðtal í útvarpinu við Jósep Blöndal  lækni sem stofnaði, ásamt Lucia de Korte sjúkraþjálfara, bakdeildina í Stykkishólmi 1998. Það var engu líkara en Jósep væri að tala um mín bakveikindi í viðtalinu en hann er einn helsti sérfræðingur í bakvandamálum á Íslandi. Hann er nú hættur að vinna þar en starfsemin hefur haldið áfram að vaxa og dafna og ég var svo heppin að komast að.

Ekki allir forstjórar forsjálir

Hér sést hvernig þyngd höfuðsins margfaldast við þessa algengu líkamsstöðu við símagláp.

Þeir, sem hafa upplifað alvöru bakverk, vita að freistingin að taka verkjapillu er mikil. Aðferðirnar við að ráða við verkinn á annan hátt eru oft ekki tiltækar. Leiðsögn heilbrigðisstarfsfólks er stopul því fundir með nauðsynlegum sjúkraþjálfurum og læknum eru bæði tímafrekir og kostnaðarsamir. Nú hefur verið sannað að ef tekið er á bakverknum með markvissum hætti væri til dæmis hægt að fækka veikindadögum og auka almenna ánægju starfsfólks til muna. Framsýnir forstjórar hafa gert sér grein fyrir þessu og leggja í nauðsynlegan kostnað og allir græða. En það eru auðvitað ekki allir forstjórar forsjálir. Hreyfing skilar nefnilega svo miklum árangri á gífurlega mörgum sviðum og er í raun forsenda þess að lækning náist.

Ruslafatan ekki við skrifborðið

Nú ráðleggur fagfólk að prentarar, ruslafötur og kaffivélar séu staðsett þannig að fólk neyðist til að standa upp úr skrifstofustólnum til að nota þessar nauðsynlegu skrifstofuvörur. Allt til koma í veg fyrir að fólk sitji lengi hreyfingarlaust því öll hreyfing er góð þótt lítil sé. Það er einmitt hreyfingarleysið sem er allra verst og er ein helsta orsök verkja. Þess vegna er mjög undarlegt að við séum ekki komin lengra í að gera fólki, ungum sem öldnum, betur grein fyrir þessari staðreynd. Þess í stað hefur tilhneigingin verið sú að útbúa vinnustöðvar þannig að sem allraminnst truflun verði á vinnuflæðinu og allt sé í seilingarfjarlægð. Við keyrum á vinnustaðinn og tökum lyftu þegar hún er í boði og sitjum sem fastast.

Einstaklingsmiðuð meðferð

Þegar ég kom haltrandi inn á deildina hitti ég sjúkraþjálfara, Ann Linda Denner, sem ég átti eftir að hitta tvisvar á dag í tvær vikur. Ann skipulagði meðferðina eftir að hafa metið ástand mitt og hvers konar þjálfun og æfingar ættu við í mínu tilfelli. Rannsóknir sem ég hafði farið í áður fylgdu mér inn á deildina.

Fyrir utan badminton hef ég lengi stundað sund sem hentar bakveikum mjög vel. Ég hef hins vegar aldrei komið mér upp þörfinni fyrir að ,,fara í ræktina” eins og komst í tísku þegar líkamsræktarstöðvar opnuðu. En hreyfingin sem ég hef þó stundað hefur gert það að verkum að ég er í góðu líkamlegu ástandi. Það kom þó ekki í veg fyrir að afleiðingar bakmeiðslanna ágerðust.

Kviðvöðvarnir

Dagarnir í Stykkishólmi byrjuðu á sundleikfimi þar sem okkur voru kenndar æfingar í vatni. Allir í hópnum, sem ég lenti með, höfðu verið illa haldnir af verkjum um langan tíma af ýmsum orsökum.

Ástæðan getur verið áverki eins og í mínu tilfelli en líka slit. En í ljós hefur komið að slitbreytingar eru ekki alltaf ávísun á verki. Litlar slitbreytingar geta orsakað mikla verki á meðan miklar slitbreytingar valda engum verkjum. Allir, eða 100% þeirra sem náð hafa 65 ára aldri, mælast með einhverjar slitbreytingar og 77% þeirra sem hafa náð 45 ára aldri sömuleiðis. Aðeins hluti þessa stóra hóps finnur hins vegar fyrir alvarlegum verkjum. Góðu fréttirnar eru þær að til eru ráð sem endast.

Viðgerðarpillan eða ,,quick fix,, ekki til

Einungis sex sjúklingar voru á bakdeildinni þann tíma sem ég var þar en þetta var á covid tíma. Sumir voru að fást við hálsmeiðsli eftir aftanákeyrslu, einn hafði fengið sýkingu í bein eftir brjósklosaðgerð, einn hafði dottið niður stiga og annar var með óútskýrða verki. Allir fengu verkfæri til að vinna með en okkur var gerð grein fyrir því að batinn byggðist á að við tækjum ferlið í okkar eigin hendur og fylgdum leiðbeiningum sjúkraþjálfaranna í hvívetna.

Mjóbaksverkir

35% fullorðinna (20 – 60 ára) finna fyrir mjóbaksverk og hann eykst hlutfallslega með aldri.

50% upplifa mjóbaksverk árlega og 80% finna fyrir mjóbaksverk einhvern tímann á lífsleiðinni.

Venjulegast eru verkirnir bráðir og lagast af sjálfu sér.

Um 15 – 20% verða þrálátir eða langvinnir.

Minna ern 1% þarfnast skurðaðgerðar.

 

Bakverkur getur átt uppruna í streitu.

—–

Álit fólks sem hefur upplifað meðferðina í Stykkishólmi:

Lilja Karlsdóttir.

Lilja Karlsdóttir

,,Í Stykkishólmi er landsliðið í sjúkraþjálfun sem veitir hverjum og einum aðhald og þá kennslu sem þörf er á hverju sinni. Maður finnur mjög vel að hver og einn skiptir máli og það er raunverulegur áhugi á að hjálpa og finna lausnir. Þar fyrir utan er mjög gaman að vera á svona fallegum stað eins og Stykkishólmur er. Og síðan er mannbætandi að umgangast aðra sjúklinga sem allir eiga sameiginlegt að vera þangað komnir til að fá aðstoð við háls- og/eða bakvandamálum og fá bót vegna þess að í því felst svo mikil gleði,” sagði Lilja.

 

 

 

Gunnhildur Guðnadóttir

Gunnhildur Guðnadóttir.

,,Það besta við að vera á bakdeildinni í Stykkishólmi var sjúkraþjálfarinn minn sem fylgdi mér vel eftir og setti sig vel inn í mín mál. Það var auk þess mjög gott og hvetjandi að fá að fylgjast með öðrum sem voru að fást við viðlíka vandamál, skiptast á sögum og sjá þá ná bata,” sagði Gunnhildur.

 

 

 

 

 

Hjördís Klara

Hjördís Klara.

,,Á bakdeildinni í Stykkishólmi mætti mér einstaklega gott og hýtt viðmót allra starfsmanna ásamt gríðarlegri þekkingu framúrskarandi sjúkraþjálfara. Mjög góð eftirfylgni var í gegnum alla dagana og þeir vel nýttir. Við tókum með okkur heim ómetanlega kunnáttu sem öll miðar að því að okkur eigi að líða betur í framtíðinni. Dvölin einkenndist af visku og kærleika og hlátri með nýjum vinum,” sagði Hjördís Klara.

 

 

 

 

Skaði Þórðardóttir

Skaði Þórðardóttir.

Skaði Þórðardóttir fékk vissu fyrir því í Stykkishólmi að bakvandamál hennar væru yfirstíganleg eftir langvarandi kvalir. Henni voru kenndar æfingar sem virkuðu vel fyrir hana. Þess fyrir utan voru haldnir fyrirlestrar sem fjölluðu m.a. um það hversu miklu máli hugarfarið skiptir í öllum bata.

,,Ég fór að trúa því að bakvandamál mín væru yfirstígaleg með því að nota æfingarnar og breyta hugarfari mínu,” sagði Skaði hæstánægð með dvölina í Stykkishólmi.

 

 

 

 

Hluti batans var án efa dýrlegt umhverfið í Stykkishólmi þar sem orkan í náttúrunni gaf okkur sinn kraft.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn maí 4, 2022 07:00