Tengdar greinar

Karlar hrjóta frekar en konur

Það hrjóta næstum allir við og við og fólk þarf svo sem ekki að hafa miklar áhyggjur af því, segir á vefnum helpguide.org.  Eftir því sem við eldumst aukast hroturnar. Fólk sem er í yfirvigt eða í slæmu form hrýtur frekar en þeir sem hreyfa sig eða eru í kjörþyngd. Stíflaður öndunarvegur, drykkja, reykingar og notkun á róandi lyfjum geta líka leitt til þess að fólk hrjóti. Sólveig Magnúsdóttir læknir skrifaði um hrotur á vefinn Doktor.is og Lifðu núna fékk leyfi til að nota greinina. Sólveig segir

Hrotur eru algengur og hvimleiður kvilli sem getur haft áhrif á svefn ekki einungis þess sem hrýtur, heldur einnig á svefn maka eða annarra sem sofa í heyrnarfæri. Talið er að um helmingur karla og fjórðungur kvenna eldri en 50 ára hrjóti. Þegar við sofnum slaknar á vefjum í munni og koki og þegar loft streymir fram hjá þessum slöku vefjum veldur það titringi. Þegar slaknar á vefjunum geta þeir þrengt verulega að öndunarveginum. því þrengri sem loftvegurinn verður því meiri kraftur verður á loftinu, vefirnir titra meira og hroturnar verða hærri. Ýmsir þættir geta aukið þrengsli í öndunarfærum og er offita ein af algengari orsökum fyrir hrotum en einnig geta stórir háls- eða nefkirtlar, stór úfur, ofnæmi og langvarandi nefstíflur, gómur sem nær langt aftur í kok og skekkja á miðsnesi ásamt fleiru valdið auknum þrengslum í öndunarfærum. Með aldrinum slaknar á þessum vefjunum og er það ein af ástæðunum fyrir því að hrotur aukast með aldrinum.

Kæfisvefn er einnig algeng orsök fyrir hrotum, við kæfisvefn lokast öndunarvegurinn alveg í nokkrar sekúndur, þá fær líkaminn ekkert súrefni en koldíoxíð hleðst upp sem aftur vekur sjúklinginn og hann tekur andköf og hrýtur mikið. Sjúklingar verða ekki endilega varir við að vakna á nóttunni heldur er helsta einkenni kæfisvefns þreyta og dagsyfja Í þeim tilfellum sem grunur leikur á kæfisvefni er það fengið staðfest með sérhæfðri rannsókn, s.k. svefnrannsókn. Sólveig segir að þetta geti hjálpað ef fólk hrjóti.

  1. Ef þú er yfir kjörþyngd er mikilvægt að þú reynir að léttast.
  2. Reyndu að sofa á hliðinni, þegar við liggjum á bakinu rennur tungan aftur í kokið og lokaröndunarveginum.
  3. Hækkaðu undir höfðinu.
  4. Ef þú ert stífluð í nefinu reyndu nefspray í nokkra daga, ef það hjálpar hafðu þá samband við heimilislækninn þinn og fáðu viðeigandi meðferð.
  5. Forðastu róandi lyf, svefnlyf og áfengi, þau auka á slökun og auka á vandann.
Ritstjórn júlí 3, 2019 07:19