Of þungir, drykkfeldir og hreyfa sig ekki nóg

Átta af hverjum tíu miðaldara Bretum eru of þungir, drekka of mikið og hreyfa sig ekki nóg. Þetta kemur fram í könnun Bresku lýðheilsustofnunarinnar sem birtist fyrir skömmu á vef The Guardian.Sennilega er þetta svipað og hér á landi. En í grein sem finna má á vef Landlæknisembættisins kemur fram að fyrir tíu árum voru tæp 54 prósent karla 40 til 60  of þungir og tæp 22 prósent voru offeitir. Nokkru færri konur á sama aldri voru of þungar eða rúm 34 prósent en heldur fleiri konur töldust offeitar eða 22.5 prósent. Nýleg gögn frá OECD gefa til kynna að Íslendingar séu ein feitasta þjóð álfunnar en samkvæmt þeim eru Íslendingar í 6. sæti í Evrópu yfir feitustu þjóðirnar.

Í bresku rannsókninni kom fram að ofþyngd og offita er stærsta heilsufarsvandamál fólks á aldrinum 40 til 60 ára. Bretum sem töldust offeitir hafði fjölgað um 16 prósent undanfarna tvo áratugi. Á Íslandi fjölgaði offeitum um átta prósent á tíu árum, úr 12 prósentum árið 2000 í 20 prósent árið 2010. Í greininni í The Guardien segir að margt fólk viti ekki lengur hvernig heilbrigður líkami líti út, það sé farið að telja að fólk í ofþyngd sé í kjörþyngd.

Fólk, sem er talsvert yfir kjörþyngd, er líklegra en aðrir til fá ýmsa sjúkdóma, svo sem sykursýki af tegund 2, hjarta- og æðasjúkdóma, háan blóðþrýsting, heilablóðfall, ýmsar tegundir krabbameina, gallsteina og slitgigt. Auk þess er ýmiss konar fötlun og sálræn vandamál nátengd umframþyngd. Þrátt fyrir að erfitt sé að meta heildarkostnað af offitu og fylgikvillum hennar fyrir þjóðarbúið telur Alþjóðaheilbrigðisstofninin að hún nemi um 6% af útgjöldum ríkja til heilbrigðismála. Rannsóknir sýna að heilbrigðiskostnaður eykst með hækkandi líkamsþyngdarstuðli þjóða.

Ritstjórn mars 13, 2017 11:42