Afi og amma fá sér oftar í glas

Áfengisneysla aldraðra er falið heilbrigðisvandamál innan ört stækkandi hóps þeirra,“ segir Guðrún Jóhannsdóttir í lokaverkefni sínu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Verkefni Guðrúnar fjallar um aldraða og áfengissýki. Guðrún segir að flestum fræðimönnum beri saman um að þunglyndi, einmanaleiki og félagsleg einangrun séu áhættuþættir sem tengjast ofneyslu áfengis. Rannsóknir hafi sýnt fram á að aldraðir noti áfengi til að geta sofnað, til að lina líkamlegan sársauka og einnig sér til skemmtunar. Umhverfisþættir geti leitt til aukinnar áfengisneyslu, til dæmis ef aldraðir upplifa fjárhagsáhyggjur, dauðsföll, skilnað og heilsufarsleg vandamál.

Hafa drukkið meira en fyrri kynslóðir

Aldraðir eru skilgreindir þeir sem eru 67 ára og eldri, eða ellilífeyrisþegar. Á þessu tímaskeiði breytist oft margt í lífi fólks, bæði í innara og ytra umhverfi, fólk hverfur af vinnumarkaði og margir hafa upplifað að einhver nákominn þeim hefur fallið frá auk ýmissa annarra breytinga á högum þeirra. Aukið langlífi er ein ástæða þess að áfengisneysla aldraðara eykst, þá hafa þær kynslóðir sem eru að eldast núna neytt meira áfengis og annara vímuefna en fyrri kynslóðir og lyfjanotkun aldrarða hefur aukist undanfarin ár og áratugi.

Viðkvæmari fyrir drykkju

Guðrún segir að það hafi verið bent á að 270 einstaklingar á aldrinum 67 til 80 ára hafi þurft á þjónustu Vogs að halda árlega en spár geri ráð fyrir að tæplega 420 þurfi á hjálp Vogs að halda eftir áratug. Hún segir að rannsóknir hafi sýnt að áfengisneysla ungmenna á aldrinum 16 til 29 ára sé nánast hin sama og neysla einstaklinga á aldrinum 65 til 80 ára. Aldraðir séu hins vegar viðkvæmari fyrir afleiðingum áfengisdrykkju, en yngri einstaklingar. Áfengisstyrkurinn haldist lengur í líkama eldra fólks og áfengi brotni hægar niður. Eldra fólk á frekar á hættu að skaðast vegna drykkju en þeir sem yngri eru, bæði andlega og líkamlega.

Vantar rannsóknir

Í verkefni sínu bendir Guðrún á að það skorti mjög á rannsóknir á áfengissýki eldra fólks hér á landi. Hún segir að aldraðir skammist sín meira en yngri einstaklingar fyrir að missa tök á áfengisneyslu sinni og rannsóknir sýni að margir drekki heima og feli drykkjuna eftir megni fyrir öðrum. „Rannsóknir hafa sýnt fram á að þar sem aldraðir eru upplýstir um skaðsemi áfengis skilar það sér í minni neyslu hjá þeim. Það er mikilvægt að upplýsa alla aðila, sem koma að öldruðum, um áhættuþætti áfengissýki hjá þeim til að fagfólk verði meðvitaðra um skaðsemi hennar,“ segir í niðurstöðum verkefnisins.

Ritstjórn maí 21, 2015 13:22