Baldvin Jónsson markaðsmaður

 Baldvin Jónsson hefur löngum verið áberandi í íslensku samfélagi. Störf hans hafa undanfarin 20 ár snúist um að kynna íslensk sælkeramatvæli í Bandaríkjunum og þar af leiðandi hefur hann dvalið langdvölum þar í landi. Nú er Baldvin kominn hingað til lands og heldur áfram að sinna málum sem tengjast því sem hann hefur verið að gera undanfarin ár og er annars vegar markaðsmál og hins vegar sala á íslenskum matvælum.

Sjálfbært Ísland

„Ég er smám saman að gera mér skýrari mynd af því hvernig best væri að standa að því að kynna íslenskan mat og matarmenningu á Íslandi undir einu merki sem gæti verið hugtakið sjálfbært Ísland,“ segir hann. Baldvin er að vinna að slíku verkefni með Hveragerðisbæ, Garðyrkjuskólanum og Heilsustofnun og hugmyndin er að Hveragerði verði tilraunaverkefni þar sem bærinn verði sjálfbært samfélag. „Þar er hægt að gera úttekt á því hvaða skilyrði samfélag þarf að uppfylla til að geta talist sjálfbært. Í Hveragerði er 2.600 manna samfélag þar sem er orka, garðyrkjuskóli, elliheimili, velferðarstofnun NLFÍ og allir þættir sem hefðbundið samfélag þarf að hafa. Við reynum að fylgja eftir heimsmarkmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar settu um slíka vinnu. Í Hveragerði er auk þess mikill áhugi heimafólks sem gerir þessa vinnu svo ánægjulega. Við miðum að því að Hveragerðisbær verði lifandi umhverfi og fræðslumiðstöð um sjálfbæra þróun og lífræna ræktun.“

Stunda bændur rómantískan landbúnað?

Annað verkefni sem Baldvin er að vinna að og tengist Heilsustofnun beint er að vinna að auknu forvarnarstarfi á ýmsum sviðum sem tengjast matarframleiðslu. Baldvin situr í stjórn Íslandsstofu og er í stjórn verkefnis sem kallaður er Matarauður Íslands. Þar er verið að fást að kynna betur fyrir Íslendingum hvað felst í hugtakinu íslenskur matur, sögu hans og uppruna og hvar hann stendur í dag. Síðan tekur Baldvin þátt í verkefni sem kallað er Íslandsvinir. Þar er safnað saman fólki sem hefur brennandi áhuga á Íslandi og öllu sem íslenskt er og velta fram spurningunni um það hvernig svo fámenn þjóð getur náð svo miklum árangri á mörgum sviðum eins og íþróttum og menningu. „Hvað er það í tegundinni Íslendingur sem gerir þetta að verkum og  hvað ber okkur að vernda,“ spyr Baldvin. „Við eigum t.d. búfénað sem er hvergi annars staðar til í heiminum. Kýrnar í landinu eru ekki nema 70.000 talsins og þar af einungis 24,000 mjólkandi og má í raun segja að þessi eini stofn sé í útrýmingarhættu. Sama má segja um sauðféð og sannarlega er óhætt að segja að þjóðin hefði dáið úr hungri ef ekki hefðu verið þessir íslensku harðgerðu búfjárstofnar sem héldu í okkur lífinu. Nú er litið á störf bænda sem rómantískan landbúnað sem hefur sögulegan bakgrunn.“

Þjóð í útrýmingarhættu

Baldvin segir að í raun og veru sé tegundin „Íslendingur“ í útrýmingarhættu. „Og síðan má segja að íslensk tunga hafi gert okkur að þjóð og nú lítur úr fyrir að íslenskan sé á undanhaldi svo tegundin „Íslendingur“, sem samanstendur af einungis 330.000 manns, er þá líka í hættu. Áreitið á tungumálið, með auknum ferðamannastraumi, er gífurlegt. Það er auðvitað jákvætt áreiti því þjóðinni gengur vel um þessar mundir með fjölda ferðamanna og útlendingum sem koma hingað til starfa en við sjáum að á næstu 80 árum gæti verið viss hætta á að Íslendingar hverfi. Það er svo undir okkur komið hvort við viljum að svo fari eða ekki. Síðasti Íslendingurinn væri þá að fæðast um þessar mundir. Við getum ákveðið hvort við viljum að til sé þjóð sem talar þetta sérstaka tungumál. Ég álít að það sé skylda sem hvílir á okkar herðum að viðhalda þessari þjóð fyrir umheiminn. Það er svo óendanlega merkilegt að það skuli vera til þjóð sem talar þetta varðveitta tungumál og er ekki nema 330.000 talsins. Ég er að horfa á málin frá þessu sjónarhorni og sé að í því felast gríðarleg tækifæri. Á herðum okkar hvílir sú mikla ábyrgð að viðhalda þessum stofni. Við búum við heimskautsbaug þar sem við erum með árstíðir sem eru öðruvísi en annars staðar. Ísland er stærsta landbúnaðar- og matvælaframleiðsluland við heimskautsbaug þar sem er stutt sumar og bjart og langur vetur. Jarðvegurinn sem myndast hér er allt annars konar en annars staðar. Fóðrið sem dýrin eru alin á er öðruvísi en annars staðar.“

Miðlar af þekkingu sinni

Baldvin segist um þessar mundir vera að miðla af þekkingu sinni og reynslu sem hann hefur áunnið sér á undanförnum árum og hefur nóg að gera við að boða fagnaðarerindið. Baldvin segir að það sé svo skemmtilegt að vinna að þessum málum því tækifærin séu alls staðar. „Það er svo gaman að horfa björtum augum inn í framtíðina og sjá fyrir sér að Reykjavík sé hugsuð frá Reykjavík til Akraness og þaðan til Selfoss og svo til Keflavíkur. Það er Reykjavíkursvæðið eftir 50 – 80 ár og við eigum að horfa svo langt fram í tímann,“  segir Baldvin og horfir stórhuga björtum augum til framtíðar.

 

Ritstjórn desember 13, 2017 09:30