Best að fjárfesta í heilsunni

Jóna í hádegisgöngu við Sæbraut í október 2019.

Jóna Pálsdóttir, jafnréttisráðgjafi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, var búin að vera með bakverk í nokkur ár þegar hún fékk úrskurð um að hún væri með brjósklos. Þá var hún 59 ára og segir að verkurinn hafði auðvitað verið að ágerast í nokkurn tíma en hafi alltaf sloppið fyrir horn. “Þetta var ekki farið að hamla mér neitt verulega í hreyfingum,” segir hún. “Þangað til einn daginn þegar ég var að hoppa, að eitthvað brast greinilega og ég fór í keng af sársauka. Þá fór ég loksins til læknis sem sendi mig í myndatökur og brjósklos var niðurstaðan. Þá fyrst varð orðið „sjúkraþjálfari“ nefnt. Ég get hiklaust sagt að þá hafi opnast nýr heimur fyrir mig, en það þurfti brjósklos til” segir Jóna. “Ég hafði farið með börnin mín til sjúkraþjálfara af því þau glímdu við einhver meiðsl eftir skíðaæfingar o.s.frv. en datt aldrei í hug að fara sjálf þótt mér væri illt í bakinu og niður í fót. Ég hef alltaf hreyft mig mikið og brást við verkjunum með því að bæta bara við mig hreyfingu, hélt að það væri rétta leiðin.”

Sagði að ég hreyfði mig of mikið

Nú, tíu árum síðar, er Jóna í mun betra formi en þegar brjósklosið greindist. Verkirnir sem hún var búin að finna fyrir í nokkur ár höfðu valdið því að líkaminn var úr lagi genginn og sinar og taugar höfðu styst sem veldur í öllum tilfellum verkjum. Þar fyrir utan lenti Jóna í hjólaslysi í hálku þar sem hún hlaut áverka sem þurfti að vinna sig út úr. Eftir það segist hún hafa orðið verulega æst í að verða betri og hélt áfram að djöflast en þá var það  sjúkraþjálfarinn sem fór fram á  skráningu á allri daglegri hreyfingu í eina viku . Hann komst að raun um að hún hreyfði sig of mikið og rangt. “Sjúkraþjálfarinn leiðbeindi mér þá hvernig og hversu lengi í einu ég ætti að hreyfa mig til að ná árangri sem lét ekki á sér standa,” segir Jóna.

Hvíldardagarnir mikilvægir líka

Jóna á gönguskíðum á Elliðavatni 2019 þar sem hún á heima.

Þegar þarna var komið segir Jóna að sjúkraþjálfarinn hafi tekið hana í gegn og gert henni grein fyrir hversu mikilvægir hvíldardagarnir væru líka. “Það var í rauninni þá sem ég fór fyrst að lagast almennilega,” segir Jóna. “Sjúkraþjálfarar þekkja líkama okkar það vel efir að hafa meðhöndlað okkur, að þeir eiga auðvelt með að ráðleggja. Ég  treysti mínum fullkomlega. Í haust stefndi ég á Esjugöngu en hann benti mér á að lægra fjall væri líklegast heppilegra. Ég veit núna að hann hafði rétt fyrir sér! Ef ég gegni honum þá líður mér svo miklu betur. Og það er til vinnandi!” Segir Jóna og leggur áherslu á orð sín. 

Allir ættu að vera með sinn sjúkraþjálfara

“Ég hef nú komist að því að rökréttast væri að við værum öll með okkar sjúkraþjálfara sem við gætum leitað til og myndi fást við stórt og smátt sem orsakast af rangri líkamsbeitingu og of lítilli, mikilli eða rangri hreyfingu. Ég er sannfærð um að rétt hreyfing og einstaklingsmiðuð þjálfun sé undirstaða líkamlegrar og andlegrar heilsu,” segir Jóna og er mjög áköf. ”Þessi hugmynd er ekki ný og hreint ekki mín, til dæmis hefur verið talað um að læknar ættu að gefa út hreyfiseðla í stað lyfseðla en ég veit ekki hvort þeir hafi orðið almennir. Við eigum að leggja miklu meiri á herslu á að breyta viðhorfi almennings til eigin heilsu og leggja ábyrgð á einstaklingana sjálfa. Fólk þarf að vita að við getum gert svo mikið sjálf til að líða betur sem er svo nauðsynlegt, sér í lagi þegar við erum komin á miðjan aldur og yfir. Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir eigin ábyrgð þeim mun betra.”

Bjó til leikfimihóp

Mynd tekin upp við Stein i Esju haustið 2019.

Sjúkraþjálfari Jónu heitir Gauti Grétarsson (Hann var nýlega í viðtali hjá Lifðu núna sjá hér) og hún segir að hann hafi á þessum tíma, fyrir átta árum, ákveðið að stofna leikfimihóp kvenna, til að byrja með fyrir konur sem höfðu verið í meðferð hjá honum en nú geti allir mætt. “Gauti tímasetti leikfimina þannig að konurnar gátu komið eftir vinnu en hann hefur verið með karlatíma í 30 ár snemma á morgnana. Þessir karlar eru nú  um og yfir miðjan aldur og eru í fantaformi. Skömmu eftir þetta vildi svo til að eiginkona Gauta, Hildigunnur, hætti sem íþróttaþjálfari hjá Gróttu og tók við kvennaleikfimitímunum. Hann var alltaf nálægur og þau hjónin hafa lyft Grettistaki þegar kemur að heilsueflingu stórs hóps kvenna og karla. Þau leggja mikla áherslu á að fólk breyti lífsstíl sínum, skipuleggja útiveru leikfimihópanna um helgar og  segja allt of marga fasta í viðjum vanans. “Þau eru góð fyrirmynd og hvatning,” segir Jóna.

Þurfti að taka verkjalyf til að sofa

“Sjúkraþjálfarar eru næstum eins og galdrafólk,” segir Jóna og það er engum vafa undirorpið að hún hefur komist að því hvað þeir geta gert mikið gagn. Í Sjúkraþjálfun Reykjvíkur, þar sem Gauti og Hildigunnur starfa er tækjasalur sem þau hvetja okkur til að nota. Það sé nefnilega ekki nóg að vera sterkur á einu svæði líkamans, þjálfunin verði að vera alhliða. „Sem dæmi þá fór ég á skíði fyrir 3 árum eftir langt hlé og það kom mér á óvart að ég gat ekki risið upp með skíðin á fótunum þegar ég datt en þetta hafði aldrei vafist fyrir mér áður!  Ég kvartaði sáran við þau og fékk að vita að ástæðan væri sú að miðja líkama míns væri ekki nógu sterk. Ég fékk leiðbeiningar um æfingar sem ég stunda af kappi til að styrkja miðjuna! Það olli miklum hlátri hjá barnabörnunum þegar amman gat ekki staðið upp á skíðunum en ég ætla sko að sýna þeim í vetur að þetta sé ekki lengur vandamál,” segir Jóna og brosir.

Má ég fara í kollhnís?

Í hjólaferð við Sognsvatn í Osló, Noregi ágúst 2018.

Jóna hefur augljóslega alla tíð verið hreyfanleg og býr að því núna þegar hún er orðin 68 ára. Hún hikaði samt síðasta sumar þegar hún var úti að leika með barnabörnunum sem voru að fara kollhnís. “Mig langaði svo að fara í kollhnís en ákvað að spyrja sjúkraþjálfarann hvort það væri óhætt. Hann útskýrði fyrir mér af hverju það væri ekki ráðlegt, sem minnti mig enn og aftur á að meira er ekki alltaf betra þegar kemur að hreyfingu. Það var mjög gott að fá skýringuna á því af hverju ég ætti að láta kollhnísinn vera.

Verst þegar fólk hreyfir sig minna og minna

Verst þykir mér að sjá þegar fólk hreyfir sig minna og minna vegna verkja án þess að leita sér aðstoðar. Ég er skólabókardæmi um hvernig hæfleg hreyfing undir leiðsögn sjúkraþjálfara getur stuðlað að bættri heilsu. Það hlýtur að vera  ergilegt fyrir sjúkraþjálfara að horfa á fólk stirðna vitandi svo vel hvernig hægt er að koma í veg fyrir vítahring verkja og hreyfingarleysis. Starf sjúkraþjálfara er í raun og veru virðisaukandi og þess vegna segi ég að besta fjárfesting mín felist í að hlusta á ráðleggingar sjúkraþjálfarans,” segir þessi hressa kona sem er svo fegin að hafa komist að því hvernig hún gat sjálf losnað við verkina.

Ritstjórn nóvember 22, 2019 07:03