Trúir þú á fyrirboða?

Sumir trúa á fyrirboða. Að alheimurinn sendi þeim ýmis tákn um hvort þeir séu á réttri leið eða ekki, að þeim sé beinlínis beint inn á ákveðnar brautir og yfir þeim vaki verndarengill. Aðrir telja að fyrirboðar séu einfaldlega innsæi okkar, að frumstæði heilinn kunni að lesa í hættumerki í umhverfinu og sendi okkur skilaboð. Við þurfum þá að vera móttækileg og hlusta á þessa óljósu tilfinningu eða nagandi kvíða í maganum. Hugsanlega ert þú lesandi góður, meðal þeirra hópi sem hlusta á innsæið eða sannfærður um að tákn verði sífellt á vegi þínum eða einn af þeim sem sannarlega trúa ekki fyrirboða. Hvernig svo sem því er háttað fara hér á eftir nokkrar vangaveltur um fyrirboða.

Ýmiss konar hjátrú snýst um fyrirboða og þá helst hvað beri að gera svo taka megi auðnuspor fremur en feta ólánsvegi. Símon Jón Jóhannsson hefur sérhæft sig í að skoða það sem margir kalla hjátrú og hindurvitni. Íslendingar hafa lengi haft trú á draumum og hann tók saman draumráðningabók. Þar er hægt að fletta upp stikkorðum, skoða táknrænað fletta upp stikkorðum, skoða tæna merkingu þeirra og reyna síðan að ráða í draum sinn. Oft flækjast málin hratt þegar mörg tákn koma fyrir sama draumnum og boða kannski þveröfuga hluti. Þá reynir á túlkunarhæfni draumráðandans. Margir telja að táknin geti þar að auki haft mismunandi merkingu fyrir hvern einstakling. Þannig getur for eða skítur þýtt auknar tekjur eða peninga í sumum tilfellum en útgjöld í öðrum.

En að lesa í draumtákn kemur með æfingunni og hið sama gildir um þau tákn sem daglega birtast allt í kringum okkur. Oft er auðveldara að túlka þau eftir á enda verður augljóst að hverju þau beinast þegar allt er komið fram. Hið sama gildir um drauma. Hins vegar er það staðreynd að menn hafa frá aldaöðli lesið í umhverfi sitt og fundið tákn til að tjá tilfinningar, veita vernd, hjálpa mönnum að ná fram vilja sínum eða auka velgengni. Ótal tákn hafa fyrir löngu fengið fasta merkingu sem er sú sama í mörgum menningarheimum. Sumir telja að það sýni að menn hugsi víðast hvar á svipuðum nótum en aðrir að hér sjáist að samskipti hafi átt sér stað yfir lönd og höf lengur en elstu menn muna.

Í flestum fjölskyldum á Íslandi er að finna draumspakt fólk, berdreyma einstaklinga sem dreymir fyrir daglátum. Allir sem lásu Gísla sögu Súrssonar í skóla muna að Gísla dreymdi fyrir örlögum sínum og Guðrúnu Ósvífursdóttur í Laxdælu fyrir því hve marga eiginmenn hún myndi eignast. Í báðum tilfellum voru draumarnir ráðnir af draumspökum mönnum en táknin í þeim voru sannarlega ekki skýr. Í Biblíunni er líka fræg sagan af draumum faraós sem Jósef réði. Í heimildamynd um Vestmannaeyjagosið kom fram að nokkra Vestmannaeyjinga hafði dreymt fyrir gosinu. Ein kona hafði meira að segja séð eldvegginn birtast í draumi. Enn eru dæmi um að fólki dreymi fyrir dauða sínum og fresti þess vegna ferðalögum og farartækið sem það ætlaði að fara með farist í kjölfarið. Það væri áreiðanlega áhugavert að kanna innan eigin fjölskyldu hve margir eru berdreymnir og halda til haga sögum af því sem þá hefur dreymt fyrir. Stundum eru táknin skýr og stundum óskýr og hugsanlega spretta draumarnir úr undirmeðvitund okkar sem skynjar eitthvað sem almennt er hulið.

Fyrirboðar og tákn

Fyrirboða er ekki eins auðvelt að útskýra, enda eru þeir ekki eins efnislegir. Stundum byggja þeir ekki á öðru en óljósir tilfinningu sem grípur einstaklinginn þegar hann mætir til dæmis svörtum ketti. Taki þeir mark á þessu getur það komið í veg fyrir stórslys. Margir hafa sagt frá hvernig þeir hafa á leið á einhvern áfangastað orðið að snúa við eða víkja af leið og iðulega hefur sá krókur forðað þeim frá bráðum bana eða alvarlegum óhöppum. Óvæntar tafir eða undarlegar tilviljanir grípa einnig stundum inn í atburðarrásina svo viðkomandi verður of seinn í flug og vélin ferst nú eða fólkið sem svaf yfir sig eða tafðist á leið í vinnuna þann 11. september 2001 og stóðu því utan tvíburaturnanna í New York þegar hryðjuverkaárásirnar áttu sér stað. Kannski voru einhverjir fyrirboðar til að halda aftur af þeim eða gripu verndarenglar í taumana.

En ekki eru allir fyrirboðar svo dramatískir. Allir vita svo sem að klæji þá í nefið muni þeir reiðast, klæji þá í hægra eyrað verði logið að þeim en það getur líka borgað sig að hlusta á hundinn sinn. Garnagaul í blessaðri skepnunni veit nefnilega á illviðri, spangóli hann boðar það gott sjóveður og liggi þeir fram á lappir sér á hlaðinu og horfi á mót heimreið er von góðra gesta en leiðindapakks snúi þeir baki í aðkomuleiðina. Bók Símonar Jóns Jóhannssonar Fyrirboðar og tákn er full af skemmtilegum fróðleik um þessa hlið tilverunnar.

Hins vegar eru til mörg dæmi um að menn finni á sér feigð. Til dæmis var sagt að Einar, sá yngsti Reynistaðabræðra, hafi grátbeðið móður sína um að neyða sig ekki fara í ferðina því hann hafi vitað að hann kæmi ekki til baka. Eins er sú saga til að einn róðrarmanna bátsins sem Hannes Hafstein reri á út í enskan botnvörpun á Dýrafirði til að reyna að stöðva rányrkju þeirra, hafi vitað að hann kæmi ekki til baka. Sagt var að maðurinn hafi verið náfölur og titrandi þegar hann settist undir árar. Sumir telja raunar að svona sögur verði gjarnan til eftir á en þetta eru áhugaverðar upplifanir og meðal þess sem virkilega athyglisvert er að taka saman.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 16, 2024 07:00