Bað Guð um skauta

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Ég var strangtrúað og bænheitt barn. Þegar ég lagðist á koddann minn á kvöldin, nýþvegin og strokin, með vel burstað hár og vel bustaðar tennur, hófst mikið bænahald. Ég fór með fjórar bænir og söng í hljóði tvö fyrstu versin af “Ó Jesú bróðir besti.”

Að sálmasögnum loknum hóf ég langa bænaþulu þar sem ég bað Guð um að blessa og vernda pabba og mömmu, systur mínar fjórar, afa mína og ömmur, frændur, frænkur og vinkonur og öll börnin í heiminum sem áttu bágt. Og svo líka Sófa og hundinn hans Skudda í sveitinni. Eftir bænaþulinni kom langur óskalisti um allt fallegt og flott sem mig langaði í og bað Guð að gefa mér: Ég bað hann til dæmis um að ég gefa mér fallegu spariskóna sem ég hafði nýlega séð í skóbúð við Laugaveginn, ég bað hann um bláa vatteraða úlpu, svartar stretsbuxur og röndótta rúllukragapeysu. En einna lengst og heitast bað ég Guð um að gefa mér skauta. Nýja, hvíta skauta með gljáandi blöðum í stað slitinna og gamalla skauta sem ég hafði erft eftir eldri systur mína. Og viti menn, ein jólin biðu mín glænýir skautar undir jólatrénu og það kvöld bað ég Guð ekki um neitt, heldur lagðist á bæn og þakkaði honum heitt og innilega fyrir að hafa bænheyrt mig og sofnaðu síðan með bros á vör.

Þegar ég var fjórtán ára fór ég á sumarskóla í Danmörku. Á þessum árum var danska enn heimsmál Íslendinga og fólst mikil forfrömun í að kunna góða dönsku. Þegar kom að því að velja sumarskóla hikaði ég ekki við að velja kristinn skóla á norðvestur Jótlandi, sem var rekinn af dönsku trúboðshreyfingunni, það var skóli við mitt hæfi að ég hélt.

En þar kynntist ég hræsninni og eftir rúma þriggja mánaða dvöl á þessum stragntrúaða skóla hafði ég lært „flydene dansk“, en glatað barnatrúnni með öllu og steinhætti að líta til himins í von um að koma auga á Guð sitjandi í hásæti sínu á skýjabólstra með stóra kíkinn sinn í vinstri hendi og syndaregstrið í þeirri hægri.

En þó guðstrúin væri fokin út í veður og vind, þá höfðu kristileg gildi og kristilegar bábiljur síast inn í merg minn og bein og mótuðu lífsviðhorf mitt og gerðir. Og þegar dóttir mín fæddist fór ég með fyrir hana uppáhalds bænirnar mínar og greip til kristilegra uppeldisaðferða þegar á þurfti að halda. Þegar dóttir mín var rétt fjögurra ára var hún orðin mikill sjónvarpssjúklingur. Ef hún hefði fengið að ráða, hefði hún setið flestum stundum fyrir framan skjáinn. Við settum henni því strangar reglur um sjónvarpsgláp, sem við fylgdum stíft eftir, en auðvitað streittist hún á móti reyndi að fá vilja sínum framgengt. Eitt sinn þegar ég gekk inn í húsið okkar eftir að hafa brugðið mér aðeins af bæ heyrði ég óminn af sjónvarpinu, en þegar ég kom inn í stofu var slökkt á því og dóttir mín sat þar, sakleysið uppmálað. Þegar ég sakaði hana um að hafa stolist til að horfa á sjónvarpið á meðan ég var í burtu, þrætti hún auðvitað fyrir það, Ég sagði henni að ég hefði heyrt í sjónvarpinu þegar ég kom inn, að það væri ljótt að skrökva og áður en vissi af, bað ég hana að reka út úr sér tunguna, og sagði henni með strangri röddu að þeir sem ekki segðu satt fengju svartan blett á tunguna. Hún hlýddi mér og rak út úr sér tunguna og sagðist ég sjá þar svartan blett…. Dóttur mína setti hljóða og málið fell niður í bili. Seinna um daginn kom hún til mín mjög hugsandi og sagði “ Mamma, hafðu þetta eftir mér: Zoe vinkona mín braut gula vasann okkar.” Ég vissi ekki hvert hún var að fara og endurtók setninguna en um leið og ég lauk henni, sagði dóttir mín, “Mamma, þetta er ekki satt, má ég sjá í þér tunguna.” Ég gat auðvitað ekki gert annað en hlýtt og þegar hún leit á tunguna á mér sagði hún sigri hrósandi, “Það er enginn svartur blettur á henni, og þú varst ekki að segja satt, þegar þú sagðir mér að þeir sem ljúga fái svartan blett á tunguna”. – Ég varð að vonum alveg mát og það rann upp fyrir mér að allt hið kristilega fólk sem hræddi mig sem barn með svarta tungublettinum, var að segja ósatt og þó ekkert þeirra, ekki frekar en ég nú, hefði fengið svartan blett á tunguna, þá höfðum við öll fengið svartan blett á sálina, þegar við hræddum börn til hlýðni með lygi.

Inga Dóra Björnsdóttir nóvember 21, 2014 09:58