Ungir og aldnir njóti náttúrunnar saman

Ósk Vilhjálmsdóttir er meðal mestu reynslubolta íslenskrar fjallaferðamennsku. Undir merkjum Wanderlust.is hefur hún, í félagi við Margréti H. Blöndal, skipulagt ferðir og námskeið á hálendi Íslands síðan árið 2006. Þær stöllur voru frumkvöðlar í því að bjóða upp á hálendisgöngunámskeið fyrir börn. Í reynd voru þau námskeið reyndar bæði fyrir unga og aldna – fyrir afa og ömmur og barnabörnin.

Ósk Vilhjálmsdóttir á fjöllum.

„Þessi námskeið voru alltaf hugsuð þannig,“ segir Ósk í samtali við Lifðu núna. Fókusinn í þessum námskeiðum væri á að upplifa náttúruna í rólegheitum, án alls asa. Farið hægar yfir. Áherslan á að skynja og njóta. Hún minnist þess til dæmis hve eftirminnilegt það hafi verið að fá Thor Vilhjálmsson rithöfund í slíka ferð þegar hann var 86 ára. Þar hafi hann sagt börnunum, átta áratugum yngri, frá ýmsu skemmtilegu, t.d. tjaldi Jóhannesar Kjarvals og hve frábrugðið það hafi verið tjöldunum sem börnin svæfu í nú. Slíkar tengingar milli elstu og yngstu kynslóðarinnar væri einmitt svo magnað að upplifa í nándinni við villta íslenska hálendisnáttúru. Enda hefðu námskeiðin ávallt verið vinsæl.

Ósk bendir á að þegar þær Margrét hafi byrjað á þessum barna-/fjölskyldunámskeiðum á fjöllum hafi þær verið einar um það. Svo sé þó sannarlega ekki lengur. Nú bjóði bæði Ferðafélagið og Útivist uppá ferðir sérsniðnar fyrir elstu og yngstu kynslóðirnar saman.

Thor Vilhjálmsson rithöfundur á góðri stund í fjallgöngu.                                                   Mynd Ósk Vilhjálmsdóttir/Wanderlust.is

Hvað ungur nemur, gamall temur

Aðalatriðið segir Ósk þó vera að fólk læri ungt að njóta náttúrunnar, og geri það svo alla ævi.

„Staðreyndin er sú að fólk eldist, en er sprækt miklu lengur. Að vera sjötíu og eitthvað ára er enginn aldur nú orðið,“ segir hún. Það sé fátt eins vel til þess fallið að halda fólki ungu og að stunda fjallgöngur og njóta náttúrunnar. „Ganga er manneskjunni eðlislæg, hún fer vel með skrokkinn og er á færi allra aldurshópa,“ segir hún. Það að ganga úti í náttúrunni sé eins og forsögulegt minni, prentað inn í undirmeðvitund hvers einstaklings. Þetta skýri hve sterk upplifun það geti verið að fara í fjallgöngu, sérstaklega fyrir fólk sem annars eyðir ævidögum sínum í asa borgarlífsins.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn janúar 25, 2022 07:00