Pílagrímagöngur njóta mikilla vinsælda

Séra Axel Árnason Njarðvík

Séra Axel Árnason Njarðvík héraðsprestur Suðurprófastsdæmis er áhugamaður um pílagrímagöngur og hefur tekið þátt í að finna góðar gönguleiðir á milli Strandakirkju og Skálholts. Upphaflega hugmyndin var að marka pílagrímagöngu sem hæfist í Skálholti og endaði í Niðarósi í Noregi. Þá yrði gengið frá Skálholti til Eyrabakka, stigið um borð í skip og siglt til Þrándheims og gengið þaðan til Niðarósdómkirkjunnar.  „En siglingar frá Eyararbakka eru aflagðar svo það hefði þurft að finna önnur fley til að komast yfir hafið.“ En hugmyndin kviknaði þannig. Síðar tók verkið á sig þá mynd að ganga frá Strandarkirkju heim í Skálholt. „Það var fyrir margt löngu eða sumrin 1999 og 2000 var ég með fjallræðugöngur til að minnast kristnitökuafmælisins. Þá gengum við á sex fjöll hvort sumar og á göngunni var staldrað við og lesið úr Fjallræðunni í Nýja testamenntinu. Þetta var upphafið að mínum pílagrímagöngum,“ segir Axel.

Hann segir að stef pílagrímsins sé eilífa lagið sem sungið er í sálminum Fögur er foldin. Þetta eilífa lag fær þig til að dýpka vitund þína og ganga með dýpri vitund um þá vitund sem maður þó hefur. Það kristallast í því að fólk gengur lengra með sig, fer  inn í sjálft sig og notar til þess hugleiðslu og bænir. „Þetta eru trúarlegar göngur en ekki trúarbragðagöngur og þar með fara menn að gera greinarmun á trúarbragðinu og trúnni. Trúarbrögð er þýðing á orðinu „religion“ sem útleggst á íslensku það sem bindur. Það er ýmislegt sem bindur okkur í klafa sem við verðum að losna úr með einum og öðrum hætti,“ segir Axel. Hann segir að þegar fólk sé komið á miðjan aldur fari það að vinna í sjálfu sér, raunar byrji margir miklu fyrr. Fólki finnist pílagrímagöngur bæði uppbyggjandi og umbreytandi. „Kannski er það vegna þess sem fær að komast að“ Þetta er allt öðruvísi lag og annar konar göngur en aðrar gönguferðir, enda gangi fólk í íhugun og kyrrð á köflum, nú eða syngjandi. Pílagrímagöngur hafi notið mikilla vinsælda og velgengni í hinum vestræna heimi og í þeim feti menn götur og slóða sem ferðamenn sæki ekki mikið í. Og yfirleitt er göngustígurinn manneskjan sjálf.

„Við reynum aðgreina pílagrímagöngurnar með ýmsum hætti frá öðrum göngum. Við kjósum að ganga í kyrrð og það skiptir máli hvaða orð við notum útfrá hugrenningartengslum. Það að segja fólki að þegja er ekki það sama og að segja því að að vera í kyrrð svo dæmi sé tekið úr daglega lífinu. Þegar kyrrist innra með þér þá fara ýmsar myndir að spretta fram og fólk þarf að gefa bæði myndum og sjálfu sér rými til að átta sig á merkingunni.  Merkingin er alltaf lykillinn að öllu. Það er reynt að staldra við á klukkustundarfresti til að leggja eitthvað inn enda erum við búin að undirbúa okkur fyrir innlögnina en svo er hún stundum sjálfsprottin, náttúran talar til fólks-  nú eða andinn. Þetta eru ekki fyrirlestrar heldur hugleiðingar sem spretta um líf mannsins og tilveruna,“ segir Axel.

Því má svo bæta við að næstkomandi sunnudag þann 9. júlí verður fjórði leggur pílagrímagöngunnar milli Strandakirkju og Skálholts genginn. Þá verður gengið frá Hraungerðiskirkju upp með Hvítaá að Ólafsvallakirkju. Sjá nánar á síðu Ferðafélags Íslands og á FB undir pílagrímaleið. Sjá einnig Að njóta kyrrðar í náttúrunni.

Ritstjórn júlí 7, 2017 10:29