
Viðar Eggertsson
Viðar Eggertsson, leikstjóri og öldungur, skrifar:
„Það vantar svo fleiri bekki í Reykjavík“, var setning sem vinir Unu Collins búningahöfundar mundu öll sterklega eftir að hún hafði oft sagt.
Þau höfðu komið saman til að minnast hennar að henni látinni og voru að ráða ráðum sínum hvernig best væri að minnast hennar og þess mikla framlags sem hún lagði sviðslistum á Íslandi. Það þurfti því ekki að bollaleggja mikið lengur. Þau afráðu að koma upp bekk í almannarýminu til minningar um hana og staðsetningin skyldi vera í miðborginni enda var starfsvettvangur hennar löngum þar.
Una
Una Collins fæddist í London 1935. Hún átti langan og merkan feril sem búninga- og leikmyndahöfundur í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum víða í Evrópu. Hún tók sérstöku ástfóstri við Ísland. Una kom fyrst hingað til lands árið 1966 og var um tíma fastráðin hjá Þjóðleikhúsinu. Hún hélt tryggð við íslenskt leikhús upp frá því og vann við tugi leiksýninga hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur og Leikfélagi Akureyrar. Þá vann hún við á annan tug sýninga hjá Íslensku óperunni auk þess að gera búninga fyrir íslenskar sjónvarpsmyndir og kvikmyndir. Una var afkastamesti búningahöfundur sem starfað hefur í íslensku leikhúsi. Hún lést 68 ára að aldri árið 2004.
Rangalar kerfisins
Þegar vinahópur Unu fór að vinna að því að koma upp minningabekk um hana komust þau fljótt að því að slíkt væri ekki auðvelt mál. Engar reglur eða ferlar eru til hjá borginni um minningabekki, því það hefur aldrei verið tekin ákvörðun um hvort slíkir bekkir eigi að vera í borginni og þá heldur ekki hvernig almennir borgarar geta sótt um að setja niður minningabekki. Þar sem engar samþykktar reglur eru til þá er erfitt að vita hvar hugsanlega megi gera það, hvar eigi að sækja um og að ekki sé talað um hvaða kostnað umsækjendur þurfa að bera fyrir bekkinn sjálfan og tilheyrandi kostnað við jarðvegsbreytingar og undirstöður.
Vinahópur Unu þurfti því að fara um ýmsa rangala kerfisins. Þau fundu að lokum starfsmann borgarinnar sem gat látið langþráðan draum ræstast eftir að hafa haft öll spjót úti um að minningabekkurinn yrði að veruleika. Þau söfnuðu fyrir kostnaðinum og eftir nokkur ár reis bekkurinn við Skúlagötu, í námunda við þau leikhús sem Una starfaði mest við.
Í skjóli Sólfarsins
Bekkurinn hennar Unu stendur nú við göngustíginn meðfram Sæbraut, milli Hörpu og Sólfarsins eftir Jón Gunnar Árnason, þó nær Sólfarinu. Þetta er eini almenningsbekkurinn á þessum hluta gönguleiðarinnar. Einstök staðsetning og væri tilvalið að hafa fleiri minningabekki á göngustígnum meðfram strandlengjunni með einstöku útsýni til hafs, Esju og Viðeyjar. Fleiri bekkir myndu eflaust ýta undir að fleiri færu þessa fallegu gönguleið sér til gleði og heilsubótar. Því fleiri almenningsbekkir við gönguleiðir myndu auðvelda mörgum að stunda heilsusamlegar gönguferðir – ekki síst eftirlaunafólk.
Á síðustu árum hafa æ fleiri viljað minnast látinna félaga og ættingja með því að gefa minningarbekki sem um leið myndu þjóna gangandi vegfarendum, en hafa rekið sig á veggi; óþarfa veggi sem kerfið hefur ekki enn brotið niður með því að taka af skarið með pólitískri ákvörðun um að minningarbekkir verði hluti af almenningsbekkjakerfi borgarinnar. Eftir að formleg ákvörðun hefur verið tekin þá ætti að gera umsóknarferli auðvelt og aðgengilegt.
Öldungar leggja til breytingar
Vegna þessa lögðu fulltrúar U3A Reykjavík og Samtaka aldraðra í öldungaráði Reykjavíkurborgar, sem fundar með mannréttindaráði borgarinnar, fram bókun og tillögu um að borgarstjórn setti sér reglur og markmið með almennri almenningsbekkjavæðinu í borginni þar sem reglur og ferlar um minningarbekki yrðu jafnframt að veruleika og minningarbekkirnir yrðu hluti af skipulaginu.
Tillagan hafði verið kynnt á sameiginlegum fundi ráðanna á mánaðarlegum fundi í júní sl., síðan lögð formlega fram á októberfundinum og borin síðan upp formlega á nóvemberfundinum þar sem einróma var samþykkt af öllum viðstöddum nefndarmönnum, bæði frá stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum, að vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs og fylgdi með eftirfarandi bókun:
„Mannréttindaráð styður tillöguna og leggur áherslu á að hún hljóti vandaða meðferð í umhverfis- og skipulagsráði. Mikilvægt er að mótuð sé skýr og samræmd stefna um staðsetningu og hönnun almenningsbekkja í borgarlandinu, sér í lagi minningabekkja.“
Minningarbekkir eru einstök leið til að gefa af sér til samfélagsins til minningar um látinn ættingja og ástvin. Gjöf sem gleður göngumóða á heilsusamlegri göngu um borgarlandið.
Höfundur er fulltrúi U3A Reykjavík í öldungaráði Reykjavíkurborgar.







