
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.
Bókaskápurinn hennar mömmu var okkur systrunum mikil upplifun þegar við vorum börn. Þar leyndust listaverkabækur og sumar myndirnar voru svo ógnvekjandi að við opnuðum síðurnar varlega og skelltum þeim aftur eins og fljótt og við gátum, þar var til dæmis Þorgeirsboli Jóns Stefánssonar framarlega í flokki og Satúrnus gleypir son sinn eftir Francisco Goya. Þar voru líka ljóðabækur, skáldsögur og bækur um blóm.
Strax og við lærðum að lesa var lagst í allt það sem við töldum að hentaði okkur og smátt og smátt höfðum við lesið hverja einustu bók. Margt af því sem ég las þá kom mér síðar meir til góða því ég þurfti sjaldnast að lesa þær bækur sem settar voru fyrir í íslensku í menntaskóla. En þegar litið er til baka hafa mér orðið minnistæðastar þær bækur sem nú eru flestum gleymdar.
Ljóðabókin Svanhvít átti heiðurssess í efstu hillunni í bókaskápnum. Mamma las mörg af ljóðunum í bókinni upphátt fyrir sjálfa sig þegar hún þarfnaðist hvíldar og ég var vön að skríða undir borðstofuborðið, láta dúkinn hylja mig og hlusta því þetta voru heilagar stundir og hún vildi enga truflun. Enn þann dag í dag man ég sögu Sveins dúfu sem var vitgrannur með afbrigðum en reyndist á örlagastundu hin mesta hetja. Kvæðið um Svein dúfu kemur úr kvæðabálknum Sögur Gamla Stáls eftir Johan Ludvig Runeberg. Þau kvæði lýsa stríðinu milli Finna og Rússa árið 1808-1809. Gamli Stál var húsvörður í háskólanum þar sem Runeberg stundaði nám. Enginn veit hvort Gamli Stál var raunverulegur eða hvort Runeberg skapaði þessa persónu til að geta komið boðskap sínum á framfæri.
Þarna var líka tölusett eintak af Kvæðinu um fangann í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar í fallegu leðurbandi. Mamma valdi að kaupa þessa bók eitt haustið fremur en að fjárfesta í vetrarkápu. Vinkonur hennar tóku það sem merki um andlega vanheilsu en mamma gekk í sumarkápunni sinni allan veturinn og naut þess að lesa ljóðið.
Annar ljóðabálkur ekki síðri sem leyndist í hillum bókaskápsins hennar mömmu var Friðþjófssaga frækna eftir Esaias Tegnér. Kvæðið er ort upp úr sögu í gömlu íslensku handriti en í Friðþjófssögu segir frá ástum Ingibjargar og Friðþjófs en þau fá ekki að njótast. Friðþjófur gengur í berhögg við bræður Ingibjargar og neitar að veita þeim lið gegn Hringi konungi í Svíþjóð. Í brýnu slær og bræðurnir neyðast til að semja við Hring um sættir en í sáttinni fólst að Hringur fengi Ingibjörgu. Friðþjófur fer til að heimta skatt fyrir bræðurna án þess að vita að þeir hafi þegar lofað systur sína. Þegar hann kemur til baka er það orðið of seint.
Hurð er upp hrundið
hetjan inn gengur
dögling er fölur
en drottning hans rjóð.
Þegar þessi orð voru lesin vissum við að til tíðinda tæki að draga. Hetjan var komin heim. Sagan endar á því að Hringur konungur deyr og sæmir Friðþjóf jarlstign. Hann kvænist síðan Ingibjörgu sinni og þau eignuðust börn og buru.
Þriðja bókin sem vert er að nefna heitir Undir gunnfána lífsins en það er samantekt um nokkrar af stærstu uppgötvunum læknavísindanna sett upp þannig að bókin er nánast eins og spennandi reyfari. Ég veit hver fann upp morfínið, hvernig kínin barst til Evrópu og margt fleira sem aldrei hefur komið mér að sérstökum notum. Um þetta er ekki einu sinni spurt í Gettu betur en bókin var bráðskemmtileg lesning. Þarna voru svo auðvitað bækur Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar og fjölmargra annarra íslenskra höfunda og seinna bættust við bækur um blómarækt, íslenskar jurtir og fleiri spennandi viðfangsefni.
Þegar ég var að alast upp voru bækur verðmæti og okkur fannst sjálfsagt að safna bókum. Öll heimili þurftu og áttu að eiga bókasöfn og það að lesa var ekki bara afþreying og tómstundagaman heldur eðlilegur hluti lífsins. Ef við flýttum okkur að klára heimanámið og þær skyldur sem við höfðum á heimilinu var nægur tími eftir til að liggja og lesa. Ég veit ekki hvers vegna ég taldi mér skylt að lesa allar bækurnar í bókaskápnum hennar mömmu en þannig var það. Sumar þurfti ég að gera margar atrennur að áður en ég náði að klára en aðeins eina hef ég aldrei getað lesið til enda og það er Madame Bovary eftir Gustave Flaubert. Mér tókst aldrei að ná neinu sambandi við þá konu en kannski væri annað upp á teningnum í dag en nú er bókaskápurinn hennar mömmu seldur og bækurnar farnar hingað og þangað. Sumar enduðu í Góða hirðinum. Vonandi hafa þær endað hjá góðu fólki sem kann að meta bækur.







