„Starfslok? Almáttugur, nei,“

Jónínu Leósdóttur rithöfund þarf ekki að kynna. Bækur hennar hafa séð til þess að hún er öllum Íslendingum kunn. Undanfarin ár hefur Jónína sent frá sér spennusögur þar sem í aðalhlutverki eru mjög sérstæðar og heillandi persónur. Þær bætast í áhugaverðan hóp spæjara sem halda lesendum við efnið stundum heilu og hálfu næturnar.

Ný bók, Þvingun, um Adam sálfræðing og Soffíu rannsóknarlögreglukonu er nýkomin. Er alltaf eins að fylgja nýrri sögu úr hlaði eða venst þetta með árunum?

„Út í hvað ertu nú búin að koma þér, Jónína?“ Þessi hugsun helltist yfir mig þegar ég stóð fyrir framan fullan sal af bóksölum árið 1988 og átti í fyrsta sinn að segja frá bók eftir sjálfa mig,“ segir hún. „En ég dembdi mér bara út í djúpu laugina, þetta tilheyrir jú starfinu. Það hjálpaði mér þó örugglega að hafa verið í framboði hjá Bandalagi jafnaðarmanna í þingkosningum 1983 og að hafa stjórnað viðtalsþáttum á Bylgjunni fyrsta árið sem hún starfaði.

Það verður aldrei hversdagslegt að fá nýja bók í hendurnar, ekki einu sinni þótt ég hafi núna upplifað það í 21. skipti. Ég verð heldur aldrei öruggari, hvorki með sjálfa mig eða nýjustu bókina, þótt ferilinn spanni áratugi. Það er alltaf jafn spennandi en um leið örlítið ógnvekjandi að allir geti kynnt sér hvað þú hefur verið að skrifa og haft skoðun á því.

Og svo er það þetta með að fagna nýju verki. Það hættir ekki heldur þótt bækurnar losi tvo tugi. En á það að gerast þegar handritinu er skilað til ritstjóra eftir lokalagfæringar, þegar ég fæ fyrsta eintakið í hendur, þegar bókinni er dreift í búðir eða er vissara að bíða eftir dómum í fjölmiðlum? Með aldrinum hef ég áttað mig á að það er ekki hægt  að fagna of oft svo ég nota öll þessi tækifæri og fleiri til.“

Áhugavert að skrifa fyrir ungt fólk

Þú hefur skrifað fjölbreyttar bækur og ekki haldið þig við eina tegund eða eina grein bókmennta. Hvað finnst þér skemmtilegast að skrifa?

„Ég er svo heppin að mér finnst alltaf langskemmtilegast að skrifa þá bók sem ég er með í vinnslu hverju sinni. En ef ég yrði að velja ákveðna bókmenntagrein væru það ungmennabækur. Það er svo áhugavert að skrifa fyrir ungt fólk.

Ég hef skrifað fimm skáldsögur fyrir þennan aldurshóp og naut þess mjög að fylgja bókunum eftir með heimsóknum í skóla og félagsmiðstöðvar. En ég fylgist ekki nógu vel (= ekkert) með tækniþróuninni til þess að geta skrifað á trúverðugan hátt um tæknivætt líf nútíma-ungmenna. Svo ungmennabækurnar verða ekki fleiri.“

Leiddist út í glæpi

Spæjararnir sem leysa mál í þínum sögum eru sérstakir. Edda á Birkimelnum ellilífeyrisþegi og verðugur fulltrúi Íslands í hópi slíkra en Agatha Christie, Alexander McCall Smith og Richard Osman og Anna Ólafsdóttir Björnsson hafa öll skapað skarpgreinda einstaklinga sem leysa glæpi á elliárum. Soffía og Adam eru hins vegar á miðjum aldri. Glæpasögur njóta mikilla vinsælda og undanfarið hefur aukist virðing manna fyrir þessari bókmenntagrein. Hvað varð til þess að þú fórst að skrifa þannig sögur?

„Ég leiddist út á glæpabrautina fyrir átta árum af því að glæpasögur henta sérlega vel því umfjöllunarefni sem ég hef mestan áhuga á, samskiptum fólks og sálarlífi. Þegar einhver ógn steðjar að þjappar það fólki saman og styrkir sambönd … ja, eða splundrar þeim. Og þar með myndast ýmsir áhugaverðir möguleikar fyrir höfundinn.

Glæpir henta líka vel til að knýja söguþráð áfram og skapa spennu – til þess er leikurinn jú gerður. Samt eru glæpir ekkert sérstakt áhugamál mitt, þeir eru einfaldlega hentugt tæki og gera mér kleift að láta reyna hressilega á sögupersónurnar. Það er ekkert grín að lenda í glæpasögu!“

Alltaf bæði með belti og axlabönd

Hvernig vinnur þú þessar bækur? Er fléttan komin fyrirfram eða veistu ekki hver endirinn verður þegar þú ferð af stað?

„Ég undirbý mig mjög vel áður en ég byrja að skrifa. Sá hluti vinnunnar getur tekið margar vikur en þá veit ég líka nákvæmlega hvert ferðalaginu er heitið, hverjir verða með í för og hver bakgrunnur þeirra er. Höfundurinn þarf t.d. að vita mun meira um persónurnar en kemur fram í sögunni,“ segir Jónína. „Líklega er ég bara þessi týpa sem alltaf er með bæði belti og axlabönd, stíg varlega til jarðar og æði helst ekki út í neina óvissu. Ég elska gott skipulag og syrgi enn sænska búð sem var í gömlu Borgarkringlunni fyrir langa löngu, hún kallaðist Ordning & Reda eða Röð & Regla. Dásamleg verslun fyrir ferkantað fólk eins og mig.

Ég hélt samt að mér tækist ágætlega að fela þessa þörf mína fyrir röð og reglu þar til eitt barnabarnið spurði mig um daginn: „Amma, ert þú eitthvað OCD?“ Ég sprakk auðvitað úr hlátri. Bragð er að þá barn finnur.“

Hikar við að drepa einhvern

Í glæpasögum er nauðsynlegt að drepa einhvern. Hikar þú áður en þú velur fórnarlamb morðingjans, þ.e. finnst þér auðveldara að drepa illmenni en einhvern saklausan og góðan?

„Já, hvort ég hika! En ekki endilega út af því hvort einhver vondur eigi að fá makleg málagjöld eða hvort rétt sé að einstakur ljúflingur lendi í hremmingum að ósekju.

Það hefur mikið verið rætt og ritað um það á síðustu árum að of margar konur séu fórnarlömb í glæpasögum og að titlar slíkra bóka innihaldi of oft orð sem vísa til kvenna eða stúlkna. Sumsé, að það sé gert út á illa meðferð á konum. En þetta er hálfgert jarðsprengjusvæði því ekki er heldur gott að skrifa bara um konur sem gera körlum mein eða karla sem ráðast aðeins á aðra karla. Og hvað með hinsegin persónur? Fyrir ömmu sem er kannski „eitthvað OCD“ getur þetta orðið hið flóknasta mál.“

Hvernig kviknaði hugmyndin að Þvingun?

„Hugmyndin er aðallega sprottin af því að mig langaði að færa hættuna nær aðalpersónunum tveimur, fyrrverandi hjónunum Adam og Soffíu. Þess vegna hefst bókin með því að dóttir þeirra blandast í morðmál. Eflaust eru verklagsreglur lögreglunnar þannig að í raunveruleikanum hefðu þau ekki fengið að rannsaka mál sem þau tengjast á þennan hátt. En Soffía finnur smugu til að halda um taumana þrátt fyrir að dóttir hennar sé lykilvitni. Hún er jú dálítil jarðýta og þetta er litla Ísland. Já, og auðvitað skáldsaga.“

Ekki hætt að vinna

Ertu með nýja bók í smíðum þegar eða ertu farin að hugsa um starfslok og eftirlaun?

„Starfslok? Almáttugur, nei. Þótt jafnaldrar mínir séu unnvörpum að hætta á vinnumarkaðnum og dásami það mjög, þá get ég ekki hugsað mér að hætta að skrifa. Barasta alls ekki, ef ég hef líkamlega og andlega heilsu til,“ segir hún með áherslu. „Ég hef fundið enn betur núna að undanförnu hvað þessi þörf mín fyrir að vinna og skapa er sterk því í margar vikur hef ég glímt við brjósklos, vefjagigt og fleira sem hefur truflað mig talsvert. Þetta hefur verið langt og erfitt tímabil og það hefur sýnt mér það sem ég vissi reyndar fyrir – þ.e. að það forðar mér frá að verða döpur og hundleiðinleg ef ég get skrifað á hverjum degi, gengið 5-7 þúsund skref daglega og gefið út eina bók á ári.

Það er auðvitað ekkert hollt að hanga yfir tölvu í marga klukkutíma á dag, skrokkurinn lætur mig sannarlega vita af því. En hinn harðstjórinn í lífi mínu, skrefateljarinn, minnir mig reglulega á að standa á fætur og ganga. Svo á ég hitapoka sem mýkir á mér bakið og góða gönguskó með sérhönnuðu innleggi.

Annars á sjúkraþjálfarinn, sem ég hitti vikulega, mestan þátt í að halda mér gangandi … í bókstaflegri merkingu. Ég veit ekki hvar ég væri án hennar. Kannski liggjandi í kör. Og nú er ég sko ekki að grínast.

En ég er auðvitað þakklát fyrir að hafa getað unnið svona lengi við það sem mér finnst skemmtilegast af öllu. Það eru algjör forréttindi. Svo krossa ég bara fingur og tær upp á framhaldið og vona það besta.“

Þetta eru lokaorð Jónínu að þessu sinni en hún hefur auðheyranlega ekki sagt sitt síðasta orð og nú er bara að njóta þess að lesa Þvingun og bíða síðan spennt eftir næstu bók.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu  núna.

Ritstjórn október 26, 2023 10:01