Borgar sig að kaupa lægsta fargjaldið í fluginu?

Allir sem ferðast með flugi vita að það er töluvert mál að finna lægsta fargjaldið til staðarins sem halda skal til og þegar upp er staðið er lægsta fargjaldið sem auglýst var, kannski ekki lægsta fargjaldið. Það er vegna þess að það bætist ýmislegt við, en það er mismunandi eftir flugfélögum hversu mikið. Sem dæmi um hvað til að mynda bandarísk lággjalda flugfélög rukka fyrir, er gjald fyrir að bóka sæti, bóka tösku, gjald fyrir að prenta út „boarding“ passann að ógleymdu gjaldi fyrir handfarangur sem sumir rukka fyrir. Síðan þarf að kaupa vatnið í flugvélinni og mat ef menn vilja borða. Þegar upp er staðið hefur lægsta fargjaldið hækkað töluvert.

Hér fyrir neðan er grein sem birtist á bandarísku vefsíðunni aarp.org og fjallar því að mestu um bandaríska flugfarþega. Hún er hér stytt og endursögð, en það má vel heimfæra hana uppá íslenska flugfarþega. Flugfarþegi sem tjáði sig um greinina á vefnum sagði að ef menn vildu ferðast á lægsta fargjaldi þyrftu þeir að vera í öllum ferðafötunum, mættu ekki tékka inn eina einustu tösku og ekki hafa handfarangur. Þeir gætu ekki leyft sér að borða í fluginu, þyrftu að vera lágvaxnir og þvengmjóir og í þeirri stöðu að vilja alls ekki fara í rútu með engri loftkælingu á áfangastað.

Vissulega getur staðið þannig á að menn séu tilbúnir að leggja þetta á sig, fyrir að greiða lægri fargjöld, ekki síst fólk sem hefur lítil auraráð, og stundum getur það hentað fólki alveg prýðilega að fljúga á undarlegum tímum með lítinn sem engan farangur á lægsta fargjaldi. En í greininni er fólki ráðlagt að velta fyrir sér nokkrum atriðum, áður en þeir fjárfesta í flugi á lægsta fargjaldi.

Hversu hátt er fargjaldið þegar upp er staðið?

Þau tíu flugfélög í Bandaríkjunum sem árið 2015 höfðu mestar tekjur af aukagjöldum ýmiss konar á farþega, fengu 26 milljarða bandaríkjadala í gegnum þau. Lággjaldaflugfélaginu Spirit tókst að leggja 52 dollara aukagreiðslur ofan á hvern farseðil sem það seldi þetta ár.

Skipta þægindin þig máli?

Það ætti ekki að vera hrein kvöl að sitja í flugvél á milli áfangastaða, en stundum er engu líkara en svo sé. Það er ef til vill það þröngt á milli sæta að menn sitja í skrúfstykki í sætinu sínu og eiga erfitt með að hreyfa sig. Ef þeir þurfa á salerni, er fyrirtæki að komast úr sætinu og þegar komið er út á ganginn milli sætaraðanna, eru vagnar flugliðanna á ferðinni þannig að salernisferð í flugvélinni útheimtir heilmikla útsjónarsemi. Það er þess virði að kynna sér, hversu langt er milli sæta í flugvélunum sem ætlunin er að fljúga með og hvort hægt er að fá kodda og teppi í vélinni – eða hvort það þarf að kaupa þessa hluti.

Hvað kostar að hafa ofan af fyrir sér í vélinni?

Þægindi og afþreying geta gert flugið mun ánægjulegra. Það drepur tímann í löngu flugi að geta horft á kvikmyndir á leiðinni, eða notið tónlistar, en það eru ekki öll flugfélög sem bjóða uppá slíkt jafnvel ekki gegn greiðslu. Sum flugfélög, þar á meðal Delta, hafa að vísu hætt að láta menn borga fyrir afþreyinguna um borð. Önnur félög hafa lýst því yfir að þau ætli að láta fjarlægja sjónvarpstækin í sætum véla sinna og halda einungis nettengingunni eftir. Þannig geti farþegarnir notað sín eigin tæki í fluginu. En hvað haldið þið, það færist í vöxt að flugfélög láti farþegana borga fyrir netið! Flugfélagið United Airlines lætur til dæmis sína farþega borga 40 dollara, fyrir netið í nokkrar klukkustundir í langflugi.

Fer sparnaðurinn í mat og drykk á leiðinni?

Dagar ókeypis máltíða í flugi eru að mestu liðnir. Mörg alþjóðaflugfélög bjóða enn upp á máltíðir, en það er að breytast. British Airways, tilkynnti nýlega að félagið væri hætt að bjóða uppá mat á flugleiðum sem eru styttri en 8 og hálf klukkustund. Nokkur flugfélög eru enn þeirrar skoðunar að vel nærður viðskiptavinur sé ánægður viðskiptavinur. Þeirra á meðal eru Lufthansa og Tyrkneska flugfélagið. Þessi félög bjóða jafnvel uppá ókeypis drykki í fluginu. Þannig að ef menn ætla að ferðast til fjarlægra landa, er ástæða til að tékka á flugfélögum, sem við þekkjum kannski ekkert mjög vel.

Hvers virði er tíminn? 

Vanir ferðamenn taka stundum á sig krókaleiðir til að geta tekið ódýrasta flugið. Það er þá stundum lent á flugvöllum sem eru fjær stórum borgum, en aðalvellirnir.  Stundum velja menn líka að taka flugið í tveimur áföngum, vegna þess að þá geta þeir nýtt sér allra lægstu fargjöld. En það er ástæða til að skoða það vandlega, hvort af því hlýst einhver sparnaður. Það getur tekið óheyrilegan tíma að aka inn í stórborg, frá litlum flugvelli sem er utan borgarinnar. Og ef það þarf að millilenda og dúsa á flugvelli í marga klukkutíma og jafnvel gista, meðan beðið er eftir tengifluginu, er ekki víst að lægstu fargjöldin séu að spara mönnum jafn mikið fé og útlit var fyrir í fyrstu.

Hversu miklu máli skiptir geðheilsan?

Þegar það eru langar biðraðir í öryggisgæslunni, ítrekaðar seinkanir og farþegar og starfsmenn á stöðugum hlaupum, getur það farið að reyna á þolinmæði flugfarþega og geðheilsu þeirra. Hvers vegna að leggja þetta á sig? Þó flug klukkan 7 að morgni sé 20% ódýrara en flugið klukkan 10:15, er það þess virði að draga fjölskylduna grútsyfjaða fram úr rúmi klukkan þrjú að nóttu, til að spara peninga, sem svara til einnar fjölskyldumáltíðar á veitingastað?

Svo mörg voru þau orð. Góða ferð!

Þessi grein birtist fyrst á Lifðu núna í janúar 2018.

Ritstjórn mars 15, 2023 07:00