Það færist í vöxt í Bretlandi að fólk sem er komið yfir sextugt láti pússa sig saman í hjónband. Sextíu og átta kynslóðin, eða Baby boomers eins og hún er kölluð í enskumælandi löndum, sem hafnaði öllum hefðum þegar hún var ung, hugsar ellina uppá nýtt og vill lengja í ævintýrum ungdómsáranna. Þetta kemur fram í grein í breska blaðinu Guardian.
Aldrei of seint að segja „já“
Fréttum um að hjónabandið hefði gengið í endurnýjun lífdaganna, einkum hjá eldra fólki, var tekið með fögnði í Bretlandi fyrir skömmu. Það slær enginn hendinni á móti klingjandi klukkum, veisluhöldum og freyðandi víni. Hjónabandið sem hefur þurft að þola talsverðar ágjafir á síðustu áratugum, svo ekki sé meira sagt, hefur verið að styrkja sig í sessi samkvæmt opinberum breskum tölum. Árið 2012 fjölgaði þeim um 5% sem gengu í hjónband og hafa ekki verið fleiri síðan árið 2004. Það vekur athygli að eldra fólk er sérlega áhugasamt um brúðkaup. Það er aldrei of seint að segja „já“. Brúðgumum á sjötugsaldri fjölgaði um 25% milli áranna 2011 og 2012, en brúðum á sama aldri fjölgaði um 21%. Um tveir þriðju þessa fólks var ýmist fráskilið eða ekkjur og ekklar áður en það gekk í hjónaband.
Hjónavígslum fækkaði og skilnuðum fjölgaði
Það var uppúr 1960 sem kvenfrelsisbaráttan fór af stað og brátt fækkaði brúðkaupum, skilnuðum fjölgaði og fólki í óvígðri sambúð fjölgaði. Í greininni í Guardian, er fjallað um þetta frá ýmsum hliðum og svo auðvitað ástæður þess að eldra fólk gengur í auknum mæli uppað altarinu. Vitnað er í breska fræðikonu Söru Arber við Háskólann í Surrey þar sem gerðar hafa verið rannsóknir á samböndum eldra fólks. „Það verður að hafa í huga að karlar giftast sér miklu yngri konum. Leikskáldið Tom Stoppard 76 ára giftist til dæmis nýlega Sabrinu Guinness 59 ára erfingja bjórverksmiðjanna. Fyrir konu sem er orðin 65 ára eru líkur á að hún giftist 10.000 á móti einum, á meðan líkurnar á að jafnaldra karlmaður gangi í hjónaband eru 1000 á móti einum“. Hún bætir því við að margar eldri konur séu hæstánægðar með þetta og hafi engan áhuga á að ganga í hjónaband aftur til að fara að annast karlmann. Þetta snýst um frelsi „Ég þarf ekki lengur að horfa á HM“, er haft eftir einni þessara kvenna.“ Ég þarf ekki lengur að þvo af honum sokkana. Ég get hitt vinkonur mínar hvenær sem mér dettur í hug“, segja konurnar.
Ástin lætur á sér kræla á öllum aldri
Það eru margvíslegar ástæður sagðar fyrir því að eldra fólk á Bretlandseyjum vill gifta sig. Fjárhagsleg hagkvæmni og erfðamál, langlífi að ógleymdri ástinni sem lætur á sér kræla á öllum aldri. „Ég léttist af því að ég hugsaði stöðugt um hana“, var haft eftir manni í rannsókn sem vitnað er til í blaðinu. „Ég var með fiðrildi í maganum. Ég hélt ég væri orðin magaveik en áttaði mig svo á því að ég var ástfangin“ sagði annar viðmælandi. Ýmislegt sem viðkemur samböndum fólks á efri árum er rakið í greininni. Karlar sækjast til dæmis eftir að eignast nýjan maka til að eiga konu til að koma heim til, á meðan konur vilja hitta nýjan mann til að fara út með. Fjárhagur karlsins skiptir konurnar máli og heilsa væntanlegs maka skiptir bæði karla og konur máli. Hugulsemi og það að eiga gott með að tala saman er sérstaklega mikilvægt í samböndum þeirra sem eldri eru. Helstu ljón í vegi sambanda eldra fólks eru uppkomin börn. Sum samgleðjast foreldri sem hittir nýjan maka en aðrir hafa áhyggjur af erfðamálum. Það má hins vegar leysa með því að gera erfðaskrá, segir í blaðinu.
Í gallabuxum á áttræðisaldrinum
Þótt ýmsum finnist kaldhæðnislegt að gömlu hipparnir hafi tekið hjónabandið uppá sína arma á efri árum, eru aðrir sem telja það jákvætt. Hjónabandsráðgjafi segir við Guardian að í þessu felist bæði kraftur og von. „Baby boomers“ eru forvitnir um lífið segir hann, „Þá vantar tækifæri til að fresta ellinni, hafa það skemmtilegt og njóta kynlífs. Karlarnir lita á sér hárið og konurnar láta setja í sig botox. Þetta fólk getur allt gengið í gallabuxum á áttræðisaldrinum“.