Brúðkaup í kyrrþey?  

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Það sem kom fyrst upp í hugann þegar ég vaknaði í morgun var að það gæti ekki verið satt að heimsfaraldur væri brostinn á. Ég snéri mér á hina hliðina og reyndi að halda áfram að sofa. Það tókst ekki. Sameiginleg útsending Rásar 1, Rásar 2 og sjónvarps þurrkaði burt allan vafa svefnrofans og ekki hjálpaði Fréttablaðið. Blaðið var undirlagt af fréttum af öllum mögulegum og ómögulegum hliðum Covid-19. Hótel hafna endurgreiðslukröfum, vöruflutningar, hamstur, veiran komin út á land, raskað skólahald, fordæmalaus frestun íþróttaviðburða og  jarðarfarir auglýstar í kyrrþey vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Ég varð sífellt þunglyndari yfir morgunkaffinu. Aftar í blaðinu voru góð ráð um hvernig hægt væri að styrkja ónæmiskerfið og einnig var þar að finna skemmtilegar staðreyndir sem snúa að heilsu. Þar fékk ég til dæmis að vita að moskítóflugunni væri illa við teknótónlist og að minni líkur væru á að maður keypti dýra hluti þegar verslað væri á hælaskóm. Brúnin á mér lyftist mjög takmarkað við meðtöku á þessum staðreyndum. Eiginlega gerðu þær bara illt verra. Á næstu síðu var heilsíðuauglýsing á legsteinum. Nú veit ég að allt er innifalið og steinarnir komnir á útsölu. Legsteinn með lukt sem kostaði áður 420 þúsund er nú á tilboði fyrir 353 þúsund, svo dæmi sé tekið. Svo var það önnur heilsíðuauglýsing sem vakti athygli mína á næst öftustu síðu blaðsins. Þar voru kynntar vandaðar brúðargjafir með 15% kaupauka til brúðhjóna sem stofna brúðargjafalista. Og þá er það spurningin hvort  brúðkaup á næstunni fari ekki líka fram í kyrrþey eins og jarðarfarirnar.

Þegar ég var alveg að hverfa undir morgunverðarborðið af þunglyndi spurði sambýlingurinn hvort við ættum ekki að drífa okkur í göngutúr. Það varð úr. Við keyrðum upp fyrir bæinn og fórum í langa göngu í Hlíðarfjalli sem glitraði eins gimsteinn, alhvítt og yndislegt í morgunsólinni. Við erum búin að ákveða hvaða leið við ætlum að fara á morgun. Og trúið mér. Gönguferð gerir kraftaverk. Ég hef áður skrifað um gildi hreyfingar og þá ekki síst göngu. Að mínu mati er besta vopnið gegn heimsfaraldrinum það að fara út og hreyfa sig, því sálartetrið er ekki síður viðkvæmt en líkaminn fyrir veirunni illskeyttu.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir mars 22, 2020 12:35