Langtímaáhrif félagslífs í framhaldsskólum

Þráinn Þorvaldsson

„Við verðum víst að hætta útsendingum útvarpsstöðvarinnar,“ sagði Þórarinn Björnsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, þegar hann birtist einn dag í heimavistarherbergi okkar Jóhanns Heiðars Jóhannssonar. „Ég fékk hringingu fá Ríkisútvarpinu í Reykjavík þar sem við vorum beðin um að hætta útsendingum útvarps í heimavist MA. Ólöglegri útvarpsstöð sem starfrækt var í Reykjavík hefur verið lokað. Þeir hjá RÚV sögðust ekki geta réttlætt lengur að líta fram hjá útsendingum útvarps í heimavist MA.“

Þar með lauk afar skemmtilegum þætti í félagsstarfi mínu í MA. Mjög öflugt félagslíf var á menntaskólaárum mínum en ég stundaði nám í skólanum í 5 vetur frá og með landsprófi til stúdentsprófs. Dýrðleg ár og ótal margs að minnast. Ég var ekki áhugasamur um námið en tók fullan þátt í félagslífinu og fékk þar reynslu og félagsþroska sem nýttist mér vel á lífsleiðinni ekki síður en lærdómurinn. Ég hef hugsað um það undanfarið hve langtíma áhrif stytting framhaldsskóla í þrjá vetur úr fjórum muni hafa á nemendur. Nú heyrast kvartanir frá framhaldsskólanemendum yfir miklu álagi og að lítill tími gefist til félagsstarfa og íþróttaiðkana. Stytting skólagöngunnar hindrar greinilega virka þátttöku í félagslífi.

Í menntaskóla veljast margir til forystu sem síðar á lífsleiðinni hafa metnað til leiðtogastarfa. Þetta á ekki aðeins við í viðskiptalífinu heldur á öllum sviðum þjóðlífsins. Á lífsferli mínum hef ég kynnst mörgum einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með mannleg samskipti og hafa að mínum dómi ekki náð þeim árangri sem þeir myndu annars ná ef samskipti þeirra við aðra væru meiri og betri. Hér skiptir skapgerð fólks eðlilega miklu máli en góð samskipti má einnig þroska með sér. Ég hef trú á því að þátttaka í félagslífi á menntaskólaárum, á mikilvægu þroskaskeiði einstaklinga, geti haft mótandi áhrif á félagsfærni til frambúðar. Því ætti ekki síður að gefa einkunnir fyrir þátttöku í félagslífi skólanna en í öðru námi.

„Útvarp Orion, komið þið sæl“, hljómaði um heimavist Menntaskólans á Akureyri í upphafi klukkutíma dagskrár frá kl. 18, annað hvert sunnudagskvöld. Við bekkjarfélagarnir Gunnar Eydal heitinn (d. 2019) stóðum að þessari útvarpsstöð þegar við vorum í fjórða bekk og fram eftir þeim fimmta. Ég fékk þann virðulega titil að vera útvarpsstjóri, en Gunnar var tæknistjóri enda átti hann forláta segulband sem notað var til upptöku og útsendingar. Mikið líf hafði verið í útvarpsmálum heimavistarinnar. Í skólablaðinu Muninn segir frá því að veturinn á undan hafi tvær útvarpsstöðvar verið starfræktar í heimsvistinni. Fimmtubekkingar ráku um tíma Útvarp Rangala og fjórðu bekkingar Útvarp Andeby  stjórnað af Einari Kristinssyni. Einar var mikill tæknimaður og hafði smíðað eins lampa útvarpsstöð sem við Gunnar fengum til umráða. Við fengum töluverða gagnrýni á heiti stöðvarinnar, Útvarp Orion, og vildu sumir kalla hana íslensku heiti Útvarp Upprennandi, sem væri þýðing á Orion.

Við Gunnar notuðum laugardagana fyrir útsendingu heima hjá Gunnari til undirbúnings við gerð útvarpsefnis sem tekið var upp á segulband Gunnars. Ef ég man rétt var Gréta Sturludóttir þula stöðvarinnar og kynnti dagskrárliði og við vorum einnig með útvarpsráð. Gunnar átti gott plötusafn sem nýtt var óspart við útsendingarnar.

Margs er að minnast í rekstri stöðvarinnar.  Ég vil nefna tvennt. Jónas Jónasson, sá landsþekkti útvarpsmaður, var leikstjóri leikfélags skólans sem sýndi leikritið  „Er á meðan er.“ Hann borðaði á heimavistinni meðan á æfingum stóð. Mér datt í hug að fá hann í útvarpsviðtal. Ég færði það í tal við hann í matsalnum og tók hann því vel. Nokkrum dögum síðar kom hann að máli við mig og sagðist því miður verða að aflýsa viðtalinu. Yfirmönnum hans hjá RÚV þótti ekki viðeigandi að hann kæmi fram á ólöglegri útvarpsstöð.

Vorið 1963 var mikil flensutíð og var skólanum lokað um tíma. Stór hluti nemenda skólans var rúmliggjandi. Nú vantaði afþreyingu. Stjórnendur Útvarps Orion ákváðu að stytta rúmliggjandi nemendum stundir á meðan. Var eins lampa útvarpstækinu komið fyrir í herbergi okkar Jóhanns Heiðars. Plötum var safnað af heimvistinni og útsending tónlistar hafin. Stöðugar óskir um óskalög bárust á óformlegum bréfmiðum til okkar. Í ljós kom svo að útvarpssendingin heyrðist utan heimavistarinnar og tóku óskalagabeiðnir einnig að berast utan úr bæ. Reyndum við að bregðast við öllum þessum óskum eftir bestu getu. Ég annaðist útsendingarnar í upphafi. Svo kom að því að ég veiktist og fór í rúmið og tók þá Jóhann Heiðar, herbergisfélagi minn, við þar til hann veiktist einnig. Þá hljóp í skarðið hinn fjölhæfi bekkjarbróðir okkar Vilhjálmur Vilhjálmsson,  síðar landsþekktur söngvari. Fór ekki milli mála að hann vann sitt kynningarstarf af mestri natni.

Þetta gróskuskeið Útvarps Orion leiddi til þess að stöðin varð enn þekktari utan skólans en áður en það leiddi um leið til endaloka stöðvarinnar eins fram kemur hér í upphafi. Mér skilst þó að Útvarp Orion hafi starfað öðru hverju nokkrum árum síðar.

Ég dreg þessa frásögn af útvarpsmálum í MA fram sem dæmi til þess að sýna hvað frumkvæði og athafnafrelsi getur verið mikilvægt í félagsstarfi á skólaárum. Slíkt starf er viðkomandi einstaklingum mikilvægt á þroskaskeiði, skapar ánægju og veitir innsýn inn í ný starfssvið. Félagsstarfið getur hjálpað einstaklingum til þess að finna á hvaða sviðum styrkleiki þeirra liggur þegar ákvörðun er tekin um frekara nám og starfssvið. Félagsstarfið verður vonandi einnig öðrum til ánægju. Því tel ég mikilvægt að yfirstjórnir skólanna hvetji frekar en letji til félagsstarfs meðal nemenda, sýni því fulla virðingu og gefi því þann tíma sem þarf.

Þráinn Þorvaldsson maí 10, 2021 07:54