Fyrsta plata Brunaliðsins Með eld í hjarta sló í gegn svo um munaði árið 1978. Á plötunni er eitt alvinsælsta lag lýðveldisins fyrr og síðar „Ég er á leiðinni“ sem Magnús Eiríksson samdi. Allir þeir sem eru komnir á sextugsaldurinn sungu þetta lag hástöfum sumarið 78 og langt fram á haust, sumir raula það raunar enn fyrir munni sér.
Metsöluhljómsveit verður til
Jón Ólafsson, athafnaskáld átti heiðurinn af því að koma hljómsveitinni saman. Bandið var ekki síst merkilegt fyrir að vera fyrsta hljómsveitin sem sett var saman til að verða metsöluhljómsveit, segir Pálmi Gunnarsson söngvari en auk hans voru í fyrstu gerð Brunaliðsins, Ragnhildur Gísladóttir, Magnús Eiríksson, Magnús Kjartansson, Þórhallur Sigurðsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Þórður Árnason og Sigurður Karlsson. Með tímanum bættust fleiri við.
Syngur með ágætum
Í 32 tölublaði Vikunnar þetta ár segir að Magnús Eiríksson hafi tæplega órað fyrir því að lagið „Ég er á leiðinni“ ætti eftir að slá svo hressilega í gegn þegar hann setti það saman. „En þarna hjálpast allt að til að hræra viðkvæmu taugarnar í hjörtum hlustenda. Laglínan er grípandi, útsetningin einföld og smekkleg.Textinn er einfaldur og auðvelt fyrir fólk að syngja með. Síðast en ekki síst syngur Pálmi Gunnarsson lagið með ágætum.“
Reynt að takmarka spilun
Rafn Ragnarsson stjórnaði þættinum Lög unga fólksins í Ríkisútvarpinu sumarið 1978. Í stuttu viðtali við Dagblaðið segir hann að Brunaliðið sé langvinsælasta hljómsveitin í þáttunum. Raunar segir Rafn að hann reyni eftir mætti að takmarka spilun á laginu „Ég er á leiðinni“ því það heyrist svo oft í útvarpinu. Það var ekki bara í útvarpinu sem lagið var spilað, vinsældir þess voru slíkar að að á sumum böllum varð lagið þriðja eða fjórða hvert lag sem spilað var allt kvöldið.
Úti var ævintýri
Brunaliðið starfaði á þriðja ár, þá var ævintýrið úti, á þeim tíma gaf sveitin út þrjár plötur, Úr öskunni í eldinn, Með eld í hjarta og Útkall. Af öðrum góðum lögum Brunaliðsins en Ég er leiðinni, má nefna Einakonar ást, Sandalar og Frekknótta fótstutta mær.
Komu úr fámenni
Kannski dreymdi Jón Ólafsson um að hljómsveitin myndi meika það í útlöndum, alla vega spilaði hún ytra. Veturinn 1980 spilaði Brunaliðið á tónleikum í Cannes og birtist dómur um frammistöðu sveitarinnar í breska blaðinu Cashbox. Dómnum snaraði einn blaðamanna Dagblaðsins. Í honum segir að Brunaliðið hafi verið áhugaverðasta og frumlegasta hljómsveitin sem kom fram á tónleikunum. Hún komi frá mjög fámennu landi þar sem markaðurinn sé eðlilega lítill. En þó þjóðin sé fámenn geti leynst þar hæfileikaríkir og kraftmiklir tónlistarmenn. Að lokum segir í umsögninni að framkoma Brunaliðsins á sviðinu hefði sómt hvaða rokkstjörnu sem er og að Brunaliðið virðist vera nógu góð hljómsveit til að geta brotið sér leið til vegs og virðingar á alþjóðlegum markaði.
Langaði að spila saman aftur
Nú er Brunaliðið að koma saman aftur og ætlar að halda tónleika í Hörpu 18. Apríl. Ragga Gísla á ekki heimangengt en aðrir ætla að koma og spila og syngja. Eins og áður sagði var það athafnaskáldið Jón Ólafsson sem kom Brunaliðinu á koppinn og hann ber óbeint ábyrgð á því að hljómsveitin ætlar að efna til tónleika segir Pálmi. Því í 60 ára afmæli hans í sumar tóku fyrrum meðlimir Brunaliðsins nokkur lög og þá fundu menn að þá langaði að koma saman aftur.
Bara þetta eina sinn
„Þetta var gaman á meðan á því stóð á sínum tíma,“ segir Pálmi um tímann í Brunaliðinu. „þetta var mikið at, mikil vinna, við spiluðum oft fjögur kvöld í viku en þetta var skemmtilegt. Ég held að ekkert okkar hafi órað fyrir því að hljómsveitin yrði svona gríðarlega vinsæl. Við komum úr ólíkum áttum, áttum okkar tíma, svo leystist hljómsveitin upp en það var í fullkomnu bróðerni. Tími sveitarinnar var einfaldlega liðinn,“ segir hann. Pálmi hlakkar til þegar Brunaliðið kemur saman á ný. „Þetta verður skemmtilegt en nú verður þetta bara eitt kvöld. Brunaliðið mun aldrei aftur koma saman eftir það.“
.