Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur er listavel skrifuð og heillandi skáldsaga. Hér er verið að fjalla um ástina, sorgina, söknuðinn og missinn. Mannfólkið hefur þörf fyrir að tengjast, flétta sína taugaþræði saman við annarra og halda fast. Þegar einhver deyr frá manni sitja þessar taugar eftir og frá þeim berast stöðugir verkir eins og draugaverkir frá lim sem hefur verið skorinn af.
LínLín, aðalsöguhetja Steinunnar, er þýðandi, orðasmiður og unnandi tungumála. Hún vill vanda til verka og leggur sig þess vegna alla fram við hvert verk. Þarna skín áreiðanlega í gegn ást höfundarins sjálfs á byggingarefninu dásamlega orðum en um leið kallast það á við þörf okkar til að setja allt í orð, kalla það einhverjum nöfnum og ná þannig að höndla og það skilgreina.
LínLín er ein á báti. Vissulega á hún vini, nána og góða, en foreldrar hennar eru dánir, barnið hennar og eiginmanninn skildi hún við. Hann var ekki stóra ástin í lífi hennar en það þýðir ekki að hún geti ekki fundið til saknaðar gagnvart því sem ekki varð eða var. Sá sem hún elskaði heitast vildi hana ekki og höfnun af því tagi skilur eftir sig langan skugga. Söng ekki Cat Stevens, „the first cut is the deepest“. En fleira leitar á huga LínLínar á þeim tímapunkti í lífi hennar þegar lesendur BÓL hitta hana. Hún er veik og ógn vofir yfir upphaldsstaðnum hennar, Sælubóli. Sumarbústað fjölskyldunnar þar sem hún upplifði margar sínar bestu stundir.
Ástin á landinu
Þar er komið annað lag í þessa margræðu og ótrúlega spennandi og athyglisverðu sögu, nefnilega ástin á landinu, einhverjum stað þar sem maður hefur notið fegurðar, gjafa náttúrunnar og yndislegra stunda með sínum nánustu. Nú þegar ógn vofir yfir heilu bæjarfélagi á Íslandi í annað sinn á rétt fimmtíu ára tímabili þá er einhvern veginn svo nærtækt og auðvelt að skilja hversu hræðilegt það er að missa það sem búið er að leggja ótrúlega alúð og ást í að byggja upp. Steinunn nær að fanga það svo einstaklega vel.
Allar persónur þessarar sögu eru líka svo geðþekkar, svo venjulegar og svo mannlegar að það er ekki hægt annað en að elska þær. BÓL er dásamleg bók, ein af þeim sem kemur sér fyrir í hugskotinu, býr með manni lengi og endurnýjar gleði manns yfir tilverunni með öllum sínum undarlegu sveigjum og beygjum.
Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistamaður skrifar fyrir Lifðu núna.