Dr. Haukur Arnþórsson

Formannskjör í Félagi eldri borgara fer fram þriðjudaginn 16. júní og er Haukur Arnþórsson einn frambjóðenda.

„Ég legg megináherslu á virkari hagsmunabaráttu félagsins og breytingar á félagslegri aðstöðu eldri borgara. Langefst á blaði er að útrýma fátækt, að skerðingar falli niður eða verði aðeins á mjög há laun og að eldri borgarar haldi réttindum í félagsmálakerfum verkalýðsfélaganna (orlofs-, sjúkra-, endurmenntunar/tómstunda- og virknikerfi) eftir starfslok.

Virkari hagsmunabarátta felur í sér að félagið beiti sér í auknum mæli fyrir bættum kjörum eldri borgara. Það þarf að bregðast við þegar ríkisstjórnir hækka lífeyri um lægra hlutfall en launavísitölu. Þá þarf að efla virkni félagsmanna í hagsmunabaráttunni. Með þessari nýju áherslu er á engan hátt verið að gera lítið úr eða mæla með skerðingu á því starfi sem unnið er nú.

Fátækt

Samkvæmt rannsóknum gætu um 20% eldri borgara búið við fátækt. Mikilvægast af öllu er að leiðrétta þetta. Ég tel að helsta baráttumálið sé að lífeyrir Tryggingastofnunar verði sá sami og lágmarkslaun. Þau eru nú 335 þús. kr. Eignastaða tengist tekjuleysi, þó flestir eldri borgarar eigi eigið húsnæði skuldlítið eða skuldlaust, þannig að þeir hópar sem hafa minnstar tekjur og eiga ekki eigið húsnæði búa við sárafátækt.

Þá fer fólk með litlar og milliháar lífeyrisgreiðslur mjög illa út úr skerðingum, en frítekjumarkið er svo lágt að það er bara til að sýnast og skerðingahlutfallið er hátt. Þannig jafna skerðingarnar tekjurnar harkalega niður á við.

Breyttar almannatryggingar

Lögin um almannatryggingar eru villandi. Í þeim eru einkum ákvæði um félagslega aðstoð en ekki jafnar tryggingar eins og í nágrannaríkjunum. Skipta þarf kerfinu upp þannig að kveðið sé á um raunverulegar almannatryggingar í lögunum og þær í rauninni endurreistar, en félagslegu aðstoðina á að flytja í lögin um félagslega aðstoð.

Félagsleg kerfi

Mikilvægt er að eldri borgarar séu virkir í samfélaginu og vil ég berjast fyrir því að þeir hafi aðild að sjóðum og kerfum verkalýðsfélaganna eftir starfslok til að gera þeim þetta mögulegt. Sérstaklega er mikilvægt að hafa aðgang að endurmenntunar- og námskeiðssjóðum til að tryggja að eldri borgarar geti tekið þátt í leik og starfi án tillits til efnahags, einnig þurfa þeir aðild að Virk, þannig geta þeir þurft endurhæfingu án þess að það sé starfsendurhæfing. Þá er aðild að orlofssjóðum mikilvæg til að tryggja möguleika til ferðalaga, en orlofssjóðir greiða bæði fyrir ferðalög, sumarbústaðaleigu og úthluta bústöðum. Síðast en ekki síst ber að nefna sjúkrasjóðina sem greiða fjöldann allan af kostnaðartilefnum sem Sjúkratryggingar gera ekki. Má þar nefna gleraugu, aðgerðir, rannsóknir, t.d. myndatökur (röntgen) o.s.frv. Sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna eru hin nýja sjúkratrygging og fráleitt að eldri borgarar – sem lækka í launum um helming við starfslok og þurfa gjarnan meira á heilbrigðisþjónustu að halda en aðrir – njóti ekki bestu sjúkratrygginga sem í boði er í þjóðfélaginu.“

Ritstjórn júní 13, 2020 09:41