Framboð til formanns – Ingibjörg H Sverrisdóttir

Ingibjörg H Sverrisdóttir er ein þriggja frambjóðenda til formanns í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, en formannskjörinu hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna kórónuveirunnar. Við hér á Lifðu núna birtum á mánudag grein frá Borgþóri V. Kjærnested og á miðvikudag grein eftir Hauk Arnþórsson sem báðir eru í framboði og nú er röðin komin að Ingibjörgu og fer grein hennar hér á eftir.

Það eru mikil tímamót í lífi hvers manns þegar lífeyrisaldri er náð. Við 67 ára aldur hefur maður náð fullum réttindum í almannatryggingakerfinu sem lífeyrisþegi og við það að fara á lífeyri breytist margt er varðar lífsafkomu. Mikilvægt er því að undirbúa sig vel og kynna sér það umhverfi sem bíður manns á þessu aldursskeiði.

Skipta má lífeyrisþegum í raun í þrjá hópa hvað greiðslur varðar við starfslok. Í fyrsta hópnum eru þeir sem eiga engan lífeyrissjóð og þurfa að reiða sig alfarið á tekjur frá Tryggingastofnun. Í öðrum hópnum eru þeir sem eiga einhver lífeyrissjóðsréttindi og eru því með blandaðar tekjur og skerðingar vegna lífeyrissjóðstekna. Þetta er nokkuð fjölmennur hópur sem er á þessum kjörum. Í báðum tilfellum er hópunum gert erfitt með að bæta hag sinn vegna hárra jaðarskatta sem eyðir hvatanum til vinnu. Mikil óánægja hefur ríkt meðal þeirra sem eiga lífeyrissjóðsréttindi því það eru tekjur, eða síðbúnar tekjur, sem ætlaðar voru sem viðbót við almannatryggingar við starfslok. Að lokum er þriðji  hópurinn, þ.e. þeir sem hafa tekjur umfram 600 þúsund úr lífeyrissjóðskerfinu, en þeir fá engar tekjur frá TR og eru því lausir við allt eftirlit og geta bætt hag sinn að vild óheft.

Margt hefur verið reynt til að ná skilningi ráðamanna gagnvart skerðingunum en ekki tekist að ná eyrum þeirra og ýmsum ómöguleika borið við. Þegar Grái herinn fór af stað fyrir nokkrum árum til að vekja frekari athygli á stöðu eldri borgara í samfélaginu þá var það helsta áherslan að losa um skerðingarnar. Í umræðunni þá var ekki að sjá neina aðra leið en að fara í mál við ríkið til að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort skerðingarákvæði almannatrygginga stæðust stjórnarskrá.

Ég er liðsmaður Gráa hersins og ásamt félögum mínum höfum við verið að undirbúa þessa málshöfðun. Málsóknarsjóður var stofnaður með aðkomu 33ja félaga eldri borgara og er sjóðnum ætlað að standa straum af kostnaði við málaferlin með frjálsum framlögum. Það er fyrirséð að þessi leið mun kosta talsvert, en með sameinuðu átaki ætti okkur að takast að fjármagna það.

Undirbúningurinn hefur tekið talsverðan tíma og okkar vinna, sem tókum verkefnið að okkur, hefur öll og verður áfram, unnin í sjálfboðavinnu. Á allra næstu dögum má búast við því að stefnan líti dagsins ljós og verður það mikil gleði að vera komin á þann stað og þá er stórum áfanga á langri leið náð. Þetta er auðvitað réttlætismál þeirra sem hafa safnað lífeyrissjóðsréttindum jafnvel alla starfsævina, en þeir eru í raun að skerða ráðstöfunartekjur sínar meðan þeir eru að safna í lífeyrissjóðinn, vegna þess að þegar upp er staðið skerða lífeyristekjurnar greiðslurnar frá TR.  En þó þetta mál taki talsvert rými þá eru svo mörg önnur mál sem ekki falla undir skerðingarnar sem bæði þarf að skerpa á og finna lausnir og nýjar hugmyndir til að bæta kjör eldri borgara. Þetta er hópur sem samfélagið þarf að bera meiri virðingu fyrir eins og ég upplifði sjálf í mínum uppvexti.

En eldri borgurum hefur fjölgað mikið á sl. árum og á eftir að fjölga enn meir. Í svo stórum hópi rúmast margar ólíkar skoðanir, mismunandi þarfir og áhugamálin óteljandi sem nauðsynlegt er að mæta eftir bestu getu. Ég tel því mikilvægt að í stjórn hjá svo stóru félagi sem Félagi eldri borgara í Reykjavík, sem telur nokkuð yfir 12 þúsund félaga, veljist fjölbreytt lið úr ýmsum áttum með mismunandi reynslu og sjónarmið svo hópurinn verði ekki einsleitur í skoðunum og hugsun. Vel blandaður hópur af báðum kynjum væri æskilegast en þannig raðast samsetningin ekki alltaf í lýðræðislegum kosningum. Nú hefur aðalfundi félagsins verið frestað um óákveðinn tíma svo einhver bið verður á kosningu til stjórnar.

 

Ritstjórn mars 13, 2020 16:40