Formannskjör í Félagi eldri borgara í Reykjavík á þriðjudag

Aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík, sem halda átti  12. mars síðast liðinn, var frestað vegna kórónuveirufaraldursins, en nú er hann kominn aftur á dagskrá þremur mánuðum síðar og verður haldinn þriðjudaginn 16.júní klukkan 14 í Súlnasalnum á Hótel Sögu. Félagar eru hvattir til að hafa mér sér félagsskírteini á fundinn.

Nýr formaður verður kjörinn á fundinum og er þetta í fyrsta sinn sem kosið er milli manna í formannskjöri hjá FEB, eftir því sem Lifðu núna kemst næst. Þeir sem bjóða sig fram eru; Borgþór Kjærnested, Haukur Arnþórsson og Ingibjörg H. Sverrisdóttir.

Sextán bjóða sig fram til setu í stjórn félagsins, og hafa aldrei verið jafn margir í framboði til stjórnar.

Fólk þarf að hafa skráð sig í FEB Reykjavík fyrir kl. 14.00 mánudaginn 15. júní til að geta haft atkvæðisrétt á aðalfundinum.

Áður en aðalfundinum í mars var frestað, var kosningabaráttan hafin, en botninn datt  úr henni, þegar fundinum var frestað vegna COVID og alger óvissa ríkti um hvenær hægt yrði að halda hann. En hvernig var það fyrir frambjóðendur að upplifa svona sérkennilegan aðdraganda að formannskjörinu. Við náðum tali af tveimur þeirra.

Haukur Arnþórsson

„Við þessa löngu töf dettur óneitanlega niður baráttuandinn, hugsunin fer annað og maður íhugar jafnvel að draga sig í hlé. En það er í sjálfu sér ágætt að stíga eitt skref til baka ef maður vill síðan taka tvö áfram.

Ég verð sífellt ákveðnari í að félagið þarf að heyja hagsmunabaráttu í auknum mæli og legg megináherslu á baráttuna gegn fátækt, gegn skerðingum og fyrir því að eldri borgarar haldi sínum réttindum hjá sjóðum verkalýðsfélaganna, orlofs-, sjúkra-, endurmenntunar/tómstunda- og virknisjóðum, eftir starfslok“.

Ingibjörg H Sverrisdóttir

„Það er óþægilegt að vera komin af stað í kosningabaráttu miðað við kosningu ákveðinn dag, þegar það er bara slökkt á öllu saman og langur tími líður í óvissu og bið.  En hugur minn var hjá þjóðinni og hvernig við kæmumst út úr þessu. Ég hafði áhyggjur af því hvernig tækist að vernda eldri kynslóðina gegn kórónaveirunni. Þetta fólk er svo mikilvægt fyrir þjóðfélagið því það að eiga gott bakland í öfum og ömmum, frænkum og frændum sem eru tilbúin að hlaupa í skarðið fyrir útivinnandi foreldra og atvinnulífið, er mikilvægt til að hægt sé að halda öllu gangandi. Síðan er kveikt aftur á kosningabaráttunni og þá hendir maður öllu aftur fyrir sig og tekur þráðinn upp að nýju. Það er gaman að taka þátt í þessu og svo vinnur maður annað hvort eða tapar, það er bara þetta tvennt í stöðunni“.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn júní 11, 2020 08:07