Drykkjuhátíðin mikla á Laugarvatni

Hér á árum áður fóru unglingar gjarnan í útilegur um hvítasunnuna. Oft þóttu þetta miklar drykkjusamkomur og þeir sem eldri voru hneyksluðust.  Í Vísi þann 10. Júní 1965 skrifar Steingrímur Sigurðsson heilsíðugrein þar sem hann vandar ungmennunum sjöunda áratugar síðustu aldar ekki kveðjurnar.

Unglingahátið á Laugarvatni

„Unglingaskarinn leitaði austur yfir fjall um hvítasunnuna í uppsveitirnar. Nokkrir úr hópnum höfðu ákveðið þetta áður – það voru þeir, sem gefa tóninn og láta hina hlýða, eins og forustuúlfhundar, sem stjórna heilu úlfapakki í leit að æti. Tánungarnir eru að reyna að gera það að hefð að blóta hvítasunnuna með frjálslegum athöfnum úti í guðs grænni náttúrunni. Enn þá hafa öræfin ekki orðið fyrir þeim ágangi. í hitteðfyrra var Þjórsárdalur fyrir valinu, í fyrra Hreðavatn og nú í ár Laugarvatn, friðsamastur friðsamra staða á Suðurlandi,“ skrifar Steingrímur og heldur áfram.

Helltust yfir staðinn

„Var þeim fullorðnu það rétt mátulegt, að þetta vé væri notað til formlausra gleðileikja af þeim, sem eiga að erfa landið? Svo mikil leynd var yfir ráðabruggi unglinganna, sem sennilega hafa komið saman á veitingahúsi til þess að taka ákvörðunina og láta hana svo berast hljóðlega til hinna og gerjast og magnast eins og tilhlökkun í forboðinn ávöxt, að lögreglan í Reykjavík og á Selfossi, hvað þá hreppstjórinn á sjálfu Laugarvatni, höfðu ekki fengið pata af þessu fyrr en sl. fimmtudag eða jafnvel föstudag. Laganna verðir höfðu því ekki mikinn tíma til að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir „Engispretturnar“ byrjuðu að leita á staðinn þegar á föstudagskvöld — könnunarsveitin — á laugardaginn upp úr hádeginu fóru þeir að koma í hópum — þeir beinlínis helltust yfir staðinn. Þeir komu einkum tvær leiðir — ýmist um Grímsnesið eða gegnum Þingvöll og þaðan leiðina sem almennt er kölluð Lyngdalsheiði. Veðrið var hvorki vont né gott um daginn — stundum dró fyrir sólu og svört regnský birtust á himni. Um morguninn og daginn áður hafði rignt — og nú var hann farinn að blása af norðri.“

Geneverbrúsum hampað

„Upphófst fagnaðurinn að hætti aldursskeiðsins 13-18 ára. Þessir vanabundnu tilburðir: Stórum geneverbrúsum var hampað á loft — bítlatónar rufu kyrrðina — öskur og vein fylgdu í kjölfarið. Hljóðkútslaus tryllitæki spóluðu í forinni — hríslur brotnuðu eins og eldspýtur — brothljóð í gleri. Fáklæddar hnákur með trippaklippingu dilluðu sér undir bíthljómfallinu — stráhattar og svört bófagleraugu  gægðust úr leyni í frumskóginum og kannski ekkert annað á bak við — þetta var algeng sjón, þegar ekið var gegnum skógarrjóðrið. Einstaka stimpingar, en enginn slasaður enn. Þannig var umhorfs við Laugarvatn um níu leytið á laugardagskvöldið. Svo fór pínulítið að kárna í ári. Lögreglan hafði gætt staðarins frá því fyrr um daginn. Selfosslögreglan hvarf fljótlega af staðnum, og upp frá því tók Reykjavíkurlögreglan alveg við löggæzlunni. Páll Eiríksson varðstjóri var þarna við þriðja mann og þarna var Arnþór Ingólfsson í vegalögreglunni á Volvo-Amazon með tveim karbúratorum, ef ske kynni, að þyrfti að hafa hraðan á. Skátar úr Reykjavík höfðu slegið upp tjaldbúðum niðri á flöt fyrir neðan veg — þeir önnuðust sjúkrahjálp-og veittu aðra aðstoð,“ segir Steingrímur nokkuð hneykslaður í grein sinni og heldur áfram á svipuðum nótum.“

Ölvunarkippir hlupu í tánungana

„Dumbungur var — það hafði sín áhrif: Þreytan tók að gera vart við sig. í stað fjörs hlupu óeðlilegir ölvunarkippir í tánungana eins og hjá fiskum, sem hanga á önglum og berjast um í vatninu. Blessuð litlu börnin voru nú komin langt frá pabba og mömmu — og lítið að borða hjá sumum. Búðin — útibú Kaupfélags Ámesinga var opin en ungviðið hafði ekki rænu á að kaupa sér harðfisk og brauð þar: það fékk sér bara slikkerí og sætakex og annað rusl og svo náttúrulega blandara.“

Líkin tvö

„Nóttin seig yfir skóginn. Það var komin þoka um lágnættið. Nokkur tjöld féllu niður en seglið bærðist til og frá eins og eitthvað lifandi væri þar inni í. Skátarnir höfðu nóg að gera — einn þeirra sagðist ekki muna eftir öðru eins. Það þurfti að gera að sárum — tveir höfðu hreinlega rotazt. Annar fengið spark í höfuðið. Það voru ,,líkin tvö“, sem lögreglan talaði um að þyrfti að hirða og senda í bæinn að viðbættum veglausum og villuráfandi sauðum, 15 talsins, sem höfðu gert ýmislegt af sér eða áttu hvergi höfði sínu að að halla og voru yfir komnir af armæðu vegna ölvunar. Einhverjir höfðu stolið bát og farið út á vatn. Það kom ekki fyrir oftar þessa daga — allir bátar voru fjarlægðir og strangt eftirlit haft með vatninu eins og öðru á siðmenningarsvæðinu sem tilheyrir íbúum staðarins.“

Vínið þvarr

„Lögreglan lokaði fyrir allt ráp inn í plássið fljótlega eftir að kaupfélaginu var lokað kl. ellefu Einar útibússtjóri seldi fyrir kr. 32 þús. það kvöld. Hvítasunnudagurinn rann upp bjartur og fagur. Þá var vínið þegar tekið að minnka — þó höfðu nokkrir komið Krísuvíkur leiðina með bannvöruna. Sumir höfðu jafnvel haft önnur ráð — þeir, sem komu hættulegu leiðirnar —þeir höfðu t.d. verið svo hugkvæmnir að geyma áfengið í rúðupissbrúsanum í vélarhúsinu. Nú fór verzlun að aukast hjá K.Á. Um kvöldið hafði selzt fyrir kr. 72 þúsundir. Þann dag voru tveir fárveikir unglingar fluttir suður í skyndingu — annar þeirra þurfti súrefnisgjöf. Óskar Ólason varðstjóri var nú kominn með lið sitt, en um kvöldið var hann leystur af hólmi af Bjarka Elíassyni og hans mönnum. Þessir lögreglumenn voru alltaf á sóli um svæðið og leystu skyldustörf af hendi af einstakri lagni.“

Mikil spjöll

„Mörgum Laugarvatnsbúum varð lítt svefnsamt þessa hvítasunnu. Þetta raskaði ró þeirra: Þeir áttu ekki von á þessu fremur en skriðunni í hitteðfyrra. Og engir botnuðu í því, að þetta skyldi leyft. Spjöllin í skóginum — friðlýstu landi — voru meiri en orð fá lýst. Á mánudagskvöld voru engispretturnar flognar af staðnum. 200 tjöld voru felld — þar af sextíu í Snorrastaðalandi — 700 unglingar héldu til síns heima, niðurlútir flestir hverjir, flestir hnípnir og illa á sig komnir. Um nóttina var ekkert kvikt í skóginum, nema litlu lömbin með mæðrum sínum, sem gengu á flöskubrotum, sem lágu þarna eins og sprengjubrot á vígvelli. Eitt úrbrætt tryllitæki, fölgrátt, kúrði þarna ofan á brotnum hríslum, viðskila við eigandann, eins og fylgja við fóstur. „Þetta var hálfgert Mondo Cane,“ sagði skynugur menntlingur,“ skrifaði Steingrímur sárhneykslaður að lokum.

 

 

 

Ritstjórn maí 13, 2016 12:09