Hlynntari skírlífi en frjálsum ástum

Unglingar fyrir 50 árum höfðu ekki í hyggju að breyta miklu í gangverki þjóðfélagsins  þeir voru ekki byltingarsinnaðir, þeir vildu halda tryggð við arf forfeðranna. Þau hin sömu töldu að afkomumöguleikar þeirra væru ekki síðri á Íslandi en í útlöndum og voru því ekkert að láta sig dreyma um að flytja af landi brott. Það var í raun og veru fjarlægur möguleiki í hugarheimi þeirra.

BETRI MYNDBítlaæðið múgsefjun

Fyrir hálfri öld gerði Vikan könnun á viðhorfum ungs fólk  til lífsins og tilverunnar.  Í úrtakinu voru 120 unglingar, á aldrinum 16 til 20 ára, úr nokkrum mismunandi skólum fengin til að svara 30 spurningum. Spurningunum svöruðu þau skriflega. Nú eru þessir sömu unglingar orðnir 66 til 70 ára og vafalaust hafa hugmyndir þeirra um lífið og tilveruna breyst mikið. Á þeim tíma sem Vikan spurði unglingana spjörunum úr var uppgangur í íslensku atvinnulífi, Breiðholtið var að byggjast og menn voru almennt bjartsýnir á batnandi þjóðarhag. Unglingum ársins 1965 stóð stuggur af kjarnorkustríði, en þau trúðu því ekki að til þess kæmi. Þeir töldu foreldra sína skilja sig ágætlega  og þeim fannst fullorðið fólk ekki gamaldags. Bítlaæðið töldu þeir fyrst og fremst múgsefjun. Unglingarnir sögðust ekki vera einmanna og trúðu staðfastlega á guð þó ekki væru þeir kirkjuræknir. Þeir töldu menntun hafa gildi og að það borgaði sig að vera í skóla.

Skírlífi úrelt eða hvað?

Unglingarnir voru spurðir út í skírlífi. „Er hugmyndin að skírlífi þar til hinn rétti maki er fundinn, úrelt orðin?“ spyr Vikan. Miklu fleiri voru hlynntir skírlífi en frjálsum ástum. Nítján ára Kennaraskólastúlka sem er fremur fylgjandi skírlífi, skellir skuldinni á síaukin tækifæri til að hittast og vera saman og gera hvað sem er: „Unglingar sem eru búnir að „vera saman“ í kannski tvö til þrjú ár, halda nú ekki allan tímann bara í höndina á hvort á öðru.“ Haft er eftir sextán ára stúlku úr Kennaraskólanum að:  „þótt piltur og stúlka haldi að þau hafi hvort um sig fundið hinn rétta maka, þá vill oft slitna uppúr hjá þeim, er til lengri samskipta kemur. Þess vegna er skírlífi úrelt,“ fullyrðir hún.

Sælusnauð brúðkaupsnótt

„Ef reynsla væri ekki fengin, yrði lítið úr sælunni á brúðkaupsnóttinni,“ segir 16 ára verknámspiltur. Tvítugur Verzlunarskólapiltur segir að „oft sé ekki hægt að segja um, hvort sá rétti maki hafi verið fundinn, fyrr en kynmök hafa farið fram.  Aðrir eru á móti kynmökun fyrir hjónaband. Verzlunarskólasstúlka vill að ung fólk geri sig ánægt með að haldast í hendur. „Ef kærustupar í raun og sannleika hyggst ganga í hjónaband og þau bera kærleika hvort til annars, þá liggur í hlutarins eðli, að þau bíða hvort eftir öðru. Enda, ef slitar upp úr trúlofuninni og viðkomandi aðilar hafa sleppt fram af sér taumnum, þá er það stúlkan sem hefur beðið „skipbrot“.  Tvítugur piltur í sama skóla, hefur óvenju púrítanskar og einstrengislegar skoðanir. Hann segir: „Allt tal um nauðsyn þess, að fólk „reyni“ hvort annað á undan vígslu er hégilja ein og þekkingarleysi. Þau tilfelli, þar sem fólk á ekki saman, eru færri en svo að taka beri tillit til þeirra.“

Lík börn leika best

Unglingarnir voru líka spurðir hvort það væri æskilegt að hjónaefnin væru af sömu þjóðfélagsstigum, með svipað uppeldi og lífsskoðanir, ef vel ætti að fara. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra taldi vænlegra að hjónaefni væru af sömu stétt með svipuð lífviðhorf og gildi. „Lík börn leika best,“ sögðu ungmennin árið 1965. Í Vikunni kemur fram að stúlkurnar vilja yfirleitt að mennirnir hafi yfirburði í menntun, en engin mælir með því, að konurnar hafi meiri menntun. Tvítug Verzlunarskólastúlka segir:„Ég tel æskilegt, að eiginmaðurinnn sé meira menntaður en eiginkonan. Sé konan menntaðri en hann, veldur það í flestum tilfellum minnimáttarkennd hjá honum,“ segir hún. Skólasystir hennar segir „að fyrir löngu þótti einungis æskilegt að gáfaðir menn giftust heimskum konum, en það er áreiðanlega ekki blessunarríkt til lengdar, enda þótt karlmenn eigi að hafa nokkar yfirburði.“ Tvítugur menntaskólapiltur segist þó ekki  hafa nokkurn áhuga á því að makinn verði „algjör samloka af mér.“ Sextán ára piltur í verknámi segir: „Það væri ekki gott ef hún væri gáfuð og maður alltaf að heyra, að maður vissi ekki neitt.“ Annar tvítugur drengur segir að velja sér maka sé ekki eins og að fletta upp í spjaldskrá. „Maðurinn kynnist konunni, verður ástfangin og þar með gifting ef vel fellur á með þeim. Þá er ekki spurt um menntun né stétt. Það er engin stéttaskipting á Íslandi,“ segir hann.

Ritstjórn maí 29, 2015 10:28