Kristín Jónsdóttir Njarðvík stóð á krossgötum í lífi sínu fyrir þremur árum. Hún hafði ákveðið að skipta um vinnu en jafnframt var þriðja æviskeiðið eða eftirlaunaaldurinn framundan innan fárra ára. Kristín er kennslufræðingur og kannski var það þess vegna að henni fannst sjálfsagt að undirbúa þriðja æviskeiðið með því að afla sér nýrrar þekkingar. Hún skráði sig í Magnavita-nám. Margt kom henni á óvart en kannski mest að hún hitti sjálfa sig fyrir og fann að þar var margt að finna sem þarf til að eiga ánægjuleg eftirlaunaár.
Magnavita er ársnám þar sem fólki er kennt að setja sér markmið og finna leiðir til að njóta uppskerunnar á þriðja æviskeiðinu og er kennt í Háskólanum í Reykjavík. En hvers vegna valdi Kristín það að fara í þetta nám?
„Þegar ég byrjaði var ég að verða sextíu og tveggja ára og hafði orðið vör við að í hópi jafnaldra, í kórnum og víðar var mjög mikið rætt hvenær ætlar þú að hætta að vinna og hvað ætlar þú að gera eftir að þú hættir. Þetta urðu svolítið aðkallandi spurningar ekki hvað síst vegna þess að maðurinn minn er ellefu árum eldri en ég og hætti að vinna á síðasta ári. Mér fannst þess vegna frekar krefjandi að svara þessu fyrir mig. Það tengdist hins vegar ekki neinum leiða á neinu heldur frekar að svona gerist þegar þessi tímamót fara að nálgast.
Svo gerist það að ég rakst á lýsingu á þessu nám og varð bara alveg heilluð því það passaði svo vel við það sem ég var að pæla. Ég ákvað í kjölfarið að sækja um. Mér fannst þetta svo gott tækifæri til að fá aðstoð við að sortera hvað mig langaði að gera. Námið fór síðan fram úr öllum mínum væntingum.“
Tilgangur lífsins, hagnýtur kúrs
Þá er nokkuð mikið sagt því Kristín var endurmenntunarstjóri í á þriðja áratug og þekkir því vel margvíslegar námsleiðir og hve fjölbreytta þekkingu og skemmtun má sækja sér í fullorðinsfræðslu.
„Námið byggir á að kenna manni að skipuleggja þetta þriðja æviskeið þegar maður er hættur að vinna. Þetta eru fjórar víddir, fjárhagsleg, líkamleg, andleg og félagsleg heilsa. Ég hafði bara ekkert hugsað um sumar en pælt mismikið í hinum. Það var gott að fá tækifæri til að skoða þetta markvisst. Allir kennararnir voru og eru frábærir og þetta er mjög hagnýtt nám. Fyrsti kúrsinn var um tilgang lífsins. Ég hugsaði með sjálfri mér, þetta er nú bara fyrir heimspekingana, en þetta reyndist hagnýtasti kúrsinn fyrir mig. Guðfinna Bjarnadóttir kenndi hann og eitt af verkefnunum sem voru lögð fyrir var að skoða hvern áratug lífs okkar fram að þessu fyrir sig, finna út hvað einkenndi þá. Það opnaði augu mín því á aldrinum tuttugu fimm til þrjátíu og fimm ára var ég mjög áræðin.
Á þeim tíma var ég alveg tilbúin að skipta um vinnu ef mér sýndist svo, fara í nám erlendis og var virk í minni áræðni. Það þarf hugrekki til. Ég var til dæmis búin að vera tvo mánuði í vinnu þegar ég fann að hún hentaði ekki og hætti – tvisvar í röð. Ég fór til Englands og í nám til Bandaríkjanna og ég fann að ég var mjög ánægð með hvernig ég var á þessum tíma. Það þýðir ekki að ég sé óánægð með mig eins og ég er núna en þetta var mjög einkennandi fyrir þessa ungu konu. Þannig að ég ákvað að taka sjálfa mig mér til fyrirmyndar. Nú er ég eldri og hef lífsreynsluna til að bæta við. Ég er aftur orðin áræðnari. Ég skipti um starf rétt áður en ég fór í námið og það var ábyggilega ein af áræðnari hugmyndum mínum. Þetta nám er búið að styðja mig heilmikið í að finna út hvað ég ætla og vil gera.
Ég er búin að taka nokkur skref, ekki öll sem ég ætla að taka, en þó nokkur. Ég er farin að taka námskeið til að máta mig við ýmislegt, til dæmis ritlistarnámskeið og nú er ég á leið á golfnámskeið. Bróðir minn hefur hvatt mig árum saman til að fara í golf en ég hef verið treg til en fólkið sem var með mér í náminu benti mér á að í golfinu er hægt að sameina svo margt, útivist, hreyfingu og félagskap. Maður hittir alltaf fólk á vellinum. Margir hitta fáa eftir að þeir hætta að vinna. Fyrir mér var það óhugsandi áður að fara í golf en þótt ég verði aldrei keppnismanneskja í golfi sameinar sú íþrótt nokkrar víddir og hjálpar manni að vera virkur.“
Endurskipulagði fjármálin
Margir telja að fólk eignist vini meðan það er ungt og þeir endist ævina. Hugsanlega erum við of föst í einhverju fari til að mynda ný tengsl og eignast nýja vini þegar aldurinn tekur að færast yfir. Þú talar um að ein víddin sem skoðuð er í þessu námi sé félagsleg heilsa. Er eitthvað fjallað um ræktun og myndun vináttu í þessu námi?
„Maður þarf kannski ekki endilega að mynda einhver ný, náin félagsleg tengsl. Það er bara mikilvægt að fara eitthvert og hitta fólk. Í þessu námi gafst einmitt tækifæri til þess og við kortlögðum svolítið hvar við erum hvað það varðar. Fjölskyldan, vinirnir, kunningjar og svo framvegis, hvar staðsetur þú það allt. Það sköpuðust mjög skemmtilegar og einlægar umræður um einmitt þetta. Svo á ég stóran systkinahóp og hann er eitt mitt stærsta ríkidæmi.
Ég endurskipulagði líka fjármálin mín eftir að ég byrjaði í fjármálakúrsinum. Til þess að undirbúa minn starfsferil, annað æviskeiðið, fór ég í dýrt nám bæði hér heima og í Bandaríkjunum og það þýddi að ég tók há námslán sem ég var lengi að greiða. Þegar kemur að þessu þriðja æviskeiði eru mörg okkar treg til að fjárfesta í undirbúningi undir það. Ég hugsaði með mér, ég á kannski þrjátíu góð ár eftir og hvers vegna ekki að leggja eitthvað í þau líka. Mér finnst það góð fjárfesting.
Ég er mjög ánægð með það og ekki síst þann hóp sem var með mér í náminu. Ég byrjaði með einum hópi en gat ekki klárað með honum vegna anna svo ég er að klára núna með öðrum hópi fólks og þau eru öll orðin hluti af mínu ríkidæmi.“
Endalaus tækifæri til að bæta sig
Líklega höfum við alltaf gott af að skoða okkur sjálf og gera okkur grein fyrir hvert við viljum stefna. Fæstir staldra hins vegar reglulega við til að taka sér tíma í að horfa inn á við og gera sér grein fyrir hvað þá langar mest að gera. Er það hugsanlega kosturinn við nám af þessu tagi?
„Það er mjög mikilvægt að átta sig á eigin styrkleikum, kostum og hæfni því að fólk hefur endalaus tækifæri til að bæta sig. Í heilbrigðishluta námsins var mældur styrkur og þol og skoðuð sú næring sem fólk valdi. Ég kom vel út úr næringarhlutanum en var sýnt fram á að ég gat sannarlega bætt styrk og þol. Þetta var mjúkt spark í rassinn.
Ég kem hins vegar alltaf aftur að spurningunni um tilgang lífsins hjá henni Guðfinnu. Hann þarf ekki að vera eitthvað háfleygt eða flókinn en það styður við allt að finna að tilvera manns hefur tilgang. Fyrir mér er það tilgangur að láta gott af mér leiða, finna að ég skipti máli. Ég hef ákveðna styrkleika, er fræðari. Ég myndi gjarnan vilja fara til framandi landa og taka þátt í sjálfboðastarfi og sinna kennslu. Þetta nefndi ég mjög fljótlega í kúrsinum að ég myndi vilja sameina áhuga minn á ferðalögum og það sem ég er góð í, að skipuleggja og kenna. Þá kom til mín kona, sem er búin að starfa um allan heim, og sagði: „Kíktu á þessar vefsíður. Þarna er óskað eftir sjálfboðaliðum, sumt er borgað og þarna getur þú valið hvað þú vilt og getur, ertu tilbúin að fræða eða viltu rækta?“ Svona er að vera í þessum hópi. Það kemur alltaf eitthvað nýtt upp og fólk hjálpast að og styður hvert annað.
Hópurinn er mjög virkur og hittist einu sinni í viku og fer út að ganga saman og til stendur að fara námskeið á Sólheimum. Ég held jafnvel að utanlandsferð og golfmót séu líka í bígerð. Málið er að ég er enn að vinna en þegar ég er hætt ætla ég að taka þátt í öllu.“
Ertu búin að ákveða hvenær þú ætlar að hætta að vinna?
„Já, ég stefni að því að hætta sextíu og fimm ára. Það ýtir líka á mig að maðurinn minn er hættur að vinna. Okkur langar að ferðast enn meira. Ég segi alltaf, ég áskil mér rétt til að skipta um skoðun.
En fyrst og síðast finnst mér þetta nám vera ævintýri og það hefur opnað augu mín fyrir mörgum nýjum hlutum og að ég get haft sjálfa mig sem fyrirmynd,“ segir Kristín og hlær. En hvort sem hún heldur áfram að vinna eða hættir eins og hún hefur ákveðið eftir tvö ár er næsta víst að hún er vel undir þriðja æviskeiðið búin.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.