Egill Ólafsson er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. Egils sögur – á meðan ég man, er óhefðbundin ævisaga söngvarans og leikarans. Það er Páll Valsson sem skrifar bókina í samvinnu við Egil. Páll hefur sagt að þetta sé tilraun til að segja ævisögu manns í gegnum sögurnar sem hann segir og að loknum lestri sitji lesandinn uppi með mynd af manninum. En bókin er miklu meira hún segir frá þeim sem standa Agli næst, fólkinu sem hefur unnið með honum, tíðarandanum og hvernig Reykjavík hefur breyst frá því Egill var barn. „Í Egils sögum lifnar Reykjavík stillansa og nýreistra blokka í nýjum hverfum austurborgarinnar, tíðarandi hippaáranna og MH, Spilverkstíminn, ævintýri Stuðmanna og Þursa, árin í leikhúsinu og íslenska kvikmyndavorið,“ segir á bókarkápu. Bókin er ríkulega myndskreytt. Við grípum hér örstutt niður lok í bókina þar sem Egill fjallar um „come back.“
Alltaf hæpið og tvíbent
Sem fyrirbæri er „come-backið“ alltaf hæpið og tvíbent. Brigitte Bardot kom aftur, löngu síðar. Þá fór í taugarnar á mörgum hvað hún hafði haldið sér andskoti vel, en aðrir pirruðust yfir því að hún skyldi leyfa sér að eldast. Staðreyndin er að við erum að öllu leyti önnur en við vorum. Það er ekki ein fruma í mínum líkama sú sama og fyrir þrjátíu árum. Ég er fullkomlega annar maður. Fólk vill upplifa aftur hið gamla, gamla tilfinningu, sem kemur kannski en svo er undir hælinn lagt hvort það er sæla eða hrollur, unaður eða stingur. Þú ferð á vit æskuáranna en það er ekkert eftir af þeim í þér, þau eru fullkomlega horfin. Sjálfsagt vegur þetta salt. Fyrir okkur Stuðmenn var þetta sérstakt, það taka sig upp gamlir verkir og mórall, gömlum söngvum fylgja tár og tregi, örvun og ami. Kemían á milli sumra er eiginlega alveg búin. Eins og gengur, menn spila sig sundur og saman. Ég viðurkenni að ég fer alltaf sjálfur í gegnum sama fasa, sömu spurningar, þegar „come back“ ber á góma: „Af hverju má ég ekki halda áfram með mitt líf? Af hverju þarf ég að fara að bakka um þrjátíu ár? Hvað get ég dvalið lengi við þessa fortíð?“ (bls.344-346)