„Ég er svo mikil Lína Langsokkur“

Auður Ingibjörg Ottesen er ekki vön að fara troðnar slóðir sérstaklega ef aðrar fáfarnari bjóðast. Hún er lærður húsgagna- og húsasmiður, garðyrkjufræðingur og hefur viðað að sér ígildi meistaragráðu í umhverfisfræðum ef ekki doktorsgráðu því Auður bæði ræktar garðinn sinn og kennir öðrum leiðir til sjálfbærni og betri umgengni um plánetu okkar. Þessa dagana verkstýrir hún hópi sjálfboðaliða í Alviðru náttúrverndar- og fræðslusetri Landverndar.

Segðu okkur ofurlítið frá verkefnunum sem þú stýrir í Alviðru. „Alviðra var gefin Landvernd árið 1973“ segir Auður. „Þegar Magnús Jóhannesson bóndinn á Alviðru fer háaldraður á elliheimili, en kona hans var fallin frá, gaf hann jörðina Árnessýslu og Landvernd. Í fyrra tóku eigendur jarðanna kvörðun um að skipta landinu, Landvernd eignaðist Alviðru landið og héraðsnefnd Árnessýslu Öndverðarne II em er hinum megin við Sogið. Skipuð var nefnd til að hafa umsjón með starfinu á vegum Landverndar og Tryggvi Felixson er formaður hennar. Hann gabbaði mig til að setjast í stjórn, eða gabbaði mig, það þurfti ekki mikið til,“ segir hún og skellihlær. „Ég fékk hjartaáfall í nóvember 2022 og sjúkraþjálfarinn minn sagði við mig í hvert skipti sem ég kom: „Þú tekur ekki að þér ný verkefni.“ Svo ég var ekkert að segja honum að ég væri komin þarna í stjórn.

Á fullu við hellulagnir en Auður finnur ævinlega leið til að læra að gera hlutina.

Í fyrra leigðu alþjóðasamtökin SEED Alviðru undir sjálfboðaliða. Þeir voru að vinna víða, á Sólheimum og við að tína rusl í fjörum og okkur bauðst að njóta vinnukrafta þeirra einn dag í viku. Þar sem ég er hér á Selfossi tók ég að mér að verkstýra hópnum. Ég gerði það í fyrra og geri það í ár. Þá kom sér vel að ég er bæði smiður og garðyrkjufræðingur. Ég er búin að taka útihúsin í nefið. Við erum núna að fara að flota gólfið í fjósinu, en við erum búin að brjóta þar niður básajárnin og steypa upp í flórinn. Ég er bara helvíti góð í steypuvinnu og hef lært heilmikið á YOUTUBE, svo á ég vini sem eru múrarar og hef látið þá taka mig í kennslustund.

Flestir sjálfboðaliðarnir eru krakkar frá sautján upp í tuttugu og fimm en einnig slæðist með fólk alveg upp í áttrætt. Þau borga með sér og eru svo að vinna um það bil fimm tíma á dag. Ég er búin að kynna mér vel reglur um þetta og þau eiga að fá kennslu líka. Þau koma frá öllum heimshornum, sum mjög dugleg og vinnufær en önnur hafa aldrei snert sög eða borvél. Standa bara og horfa, hafa aldrei verið annars staðar en í tölvuheiminum. Stelpurnar eru oft uppnumdar og spyrja: „Má ég prófa.““

Auður í hópi sjálfboðaliða á vegum SEED:

Er lesblind og átti erfitt með að læra tungumál

Og stelpurnar fá að prófa. Auður nýtur þess líka að eiga samskipti við ólíkar manneskjur.

„Þetta veitir mér svo mikla gleði. Ég er lesblind og átti erfitt með tungumál í upphafi. Ég reyndi mikið að læra, fór í lýðháskóla í Noregi og var au pair í Englandi og svo er það bara Netflix sem er besti kennarinnn. Ég hugsa bara þetta er þeirra annað tungumál og þetta er sannarlega mitt annað tungumál, svo við erum bara með símann og gúgglum. Ef á þarf að halda nota ég hendurnar og leik verkfærin. Suða eins og borvél eða sög. Ég veð ekki yfir þeirra þægindaramma en er tilbúin að hlusta og tek gjarnan eitt og eitt og vinn með þeim. Ég þarf að lesa hópinn. Ég byrja á að spyrja er einhver hérna sem langar að brjóta, eyðileggja. Þá stökkva alltaf einhverjir upp, bæði strákar og stelpur, gjarnan Þjóðverjar, og við erum búin að brjóta upp gólf sem fór illa í jarðskjálfta og niður vegg sem var illa sprunginn eftir það sama. Kínverskur strákur sem var mjög stór og vöðvastæltur greip upp stór múrstykki og bar út meðan við klöppuðum fyrir honum. Þau sjá líka árangur af verkefnunum og þau klárast.“

Auður kennir krökkunum að mynda skóflur, hamra og sleggjur.

Auður tekur mikið af myndum og myndböndum af krökkunum að vinna og þau fá aðgang að þeim. Hún segir það auka sjálfstraust þeirra og vinnugleði til muna þegar þau sjá hversu stórkostleg þau eru að munda sleggjur, sagir og borvélar en sjálf Auður Ingibjörg er fædd og uppalin í Hveragerði. Foreldrar hennar, Oddgeir Ágúst Ottesen og Geirlaug Skaftadóttir fluttu þangað þegar hann tók við stöðu sveitarstjóra árið 1954. Þá voru börnin fjögur. Auður fæddist tveimur árum síðar en alls urðu systkinin átta áður en yfir lauk.

„Bróðir minn flúði að heiman, níu ára, þegar við bættist enn ein stelpan,“ segir hún og hlær. „Hann þoldi þetta ekki, en fannst fljótt. Hann fékk svo töluverða athygli út það að við þóttum lík og þá jafnaði þetta sig. Ég byrjaði ung að vinna, var tólf ára að vinna ein í gróðurhúsi í Hveragerði hálfan daginn. Sá um að tína tómatana, reita arfann og vökva. Við myndum ekki bjóða börnum upp á þetta núna. Eftir það vann ég þrjú sumur í gróðrastöð með pottaplöntur og afskorin blóm. Eigandinn fór í hálfsmánaðarsumarfrí og þá var ég ein með stöðina. Það lætur mér vel að vera verkstjóri en ég hef verið bæði verkstjóri yfir sjálfri mér frá því ég byrjaði að vinna þarna tólf ára og yfir öðrum í gegnum árin. Ég vann svo síðan í fleiri gróðrarstöðvum og var komin með geggjaðan grunn bara tvítug.“

Úr garðinum við Fossheiði.

Frumkvöðull á mörgum sviðum

Auður fór hins vegar í menntaskólann á Akureyri en fór síðan þá óvenjulegu leið að byrja í Iðnskólanum. „Ég lærði húsgagna- og húsasmíði, byrjaði í því árið 1978, var svona frumkvöðull. Ég er svo mikil Lína Langsokkur. Sá að mig langaði að smíða og þá var það bara gert.“

Streitan var mikil á þessum árum og lífið ekki alltaf dans á rósum. En hvenær fórstu í Garðyrkjuskólann? „Ég var orðin þrjátíu og fjögurra ára þegar ég fór þangað. Ég var einstæð móðir og jah, ég var eiginlega orðin farlama. Skrokkurinn var búinn. Ég var með veikt barn og var að vinna mikið. Það er bara eins og gerist þegar álagið er of mikið,“ segir hún. „Þess vegna flutti ég til Hveragerðis. Systir mín sem er sjúkraþjálfi kom mér til heilsu á ný og ég er að vinna í gróðrastöð og finn að þarna liggur áhugi minn og skelli mér í Garðyrkjuskólann. Ég var líka að smíða leikföng í bílskúrnum þar sem ég leigði, var svolítið stórtæk í því og seldi á leikskóla sófasett, læknisrúm, dúkkurúm og önnur leikföng. Ég hef alltaf verið garðyrkjumanneskja, ég bara er það, mamma var það og ég hef þetta frá henni. Við glímdum báðar við þessa garðyrkjufíkn, er eina systkinið sem það gerir í æsku.“

Skoðaði alla garða á Suðurnesjum

Á þessum árum skrifuðu nemendur stórar og miklar ritgerðir, lokaverkefni frá Garðyrkjuskólanum og Auður fór ekki hefðbundna leið þar fremur en áður.

„Ég skrifaði um gróður við sjávarsíðuna og gerði það með þeim hætti að ég fór og skrifaði um alla garða í þorpunum hérna, Grindavík, Keflavík, Þorlákshöfn og Stokkseyri. Ég fór bara í garðana og skráði allt sem óx þar. Ég gerði þetta svona einhverra hluta vegna. Það var enginn sem leiðbeindi mér með þetta. Ég hitti á að gera þetta faglega og vísindalega og þetta hafði aldrei verið gert áður við sjávarsíðuna. g fór út í þetta vegna þess að viðkvæðið var þar sem ég var að selja plöntur að ekkert þrifist svo nálægt sjó. En ég fór að skoða garðana og sá að það var fullt af flottum görðum svo þetta passaði ekki. Ég var þarna frumkvöðull og ég byggði ferilinn minn til að byrja með á þessu. Ég gaf út bækling með þessum upplýsingum og þetta hitti í mark. Ég er svo ráðin á garðyrkjustöðina á Mógilsá eftir að mér hafði verið falið verkefni, Gróður fyrir fólk í landnámi Íslands og Mógilsár hét það og bandaríski herinn fjármagnaði. Ég sem er svo mikill herstöðvarandstæðingur.

Ég fer aftur að labba um Suðurnes og skoða hvern einasta garð. Ég skrifaði svo skýrslu sem barst til bandaríska hersins. Það sauð á mér að vera að leggja á mig alla þessa vinnu fyrir herinn svo við Palli gáfum út rit, Gróður við sjávarsíðuna. Ég dreifði þessu í hvert einasta hús á Suðurnesjum og fékk engan styrk til þess, fjármagnaði útgáfuna með auglýsingum ogúr eigin vasa. Þetta var mjög merkilegt rit því það voru fagmenn á Mógilsá sem skrifuðu greinar um allt sem varðaði gróður á þessu svæði. Með þvví að fá þetta inn á borð hjá þér ásamt mér svaraði það öllum þínum spurningum um garðyrkju. Ég vann svo næstu þrjú árin á Mógilsá.“

Lóðréttur veggur þakinn gróðri. Auður hefur sérhæft sig í garðyrkju af þessu tagi og kennir hana á námskeiðum.

Sumarhúsið og garðurinn

Eftir þann tíma hafði Auður afgreitt þau verkefni sem voru á hennar borði. Hún sagði þess vegna upp árið 2000 og helgaði sig tímaritinu Sumarhúsið og garðurinn, sem hafði verið gefið út undir heitinu Sumarhúsið í nokkur ár. Hún ritstýrði því næstu tuttugu og þrjú árin og að auki hélt hún árlega sýningar með dyggri aðstoð manns síns, Páls Jökuls Péturssonar ljósmyndara og þær skiluðu gríðarlegum árangri.

„Við byrjuðum í Mosfellsbæ árið 2002 og vorum bara „hit“,“ segir hún. „Það voru strax yfir hundrað sýnendur því við vorum orðin vel kynnt og ég man að það komu 400 áskrifendur á fyrstu tveimur sýningunum. Við lögðum grunninn að velsæld blaðsins þar. Við fórum næst í Laugardalshöllina en svo varð hún of lítil og við enduðum í 10.000 fm húsnæði árið 2008. Mest vorum við með sex manns í vinnu og höfðum talsvert umleikis. Við vorum að vinna frá átta á morgnana til átta og níu á kvöldin. Þá fórum við í bíó til að fá eitthvað út úr lífinu. Við fórum einnig gjarnan á skrifstofuna um helgar því þá var þar ekkert starfsfólk og vinnufriður.

Þetta voru öðruvísi sýningar og flippið í mér, af því að Lína Langsokkur hefur alltaf fylgt mér, ef það væri til doppóttur hestur myndi ég eiga einn slíkan, var afþreyingin var allt öðruvísi. Ég fór jafnan inn í listaháskólann og spurði hverjir væru flippaðistir þar og fékk þá í vinnu. Ég lagði aldrei áherslu á að þetta væri fjölskyldusýning, því þetta var ekki söluvara fyrir börn. Ég vildi fá þá á sýningarnar mínar sem áttu erindi. Sýningarnar snerust um sumarhúsið, garðinn og ferðalög. Svo kom október 2008 og þá dó allt. Guðný systirlánaði mér fyrir jólablaðinu svo ég kæmi því út. Það var enginn að auglýsa. Ég gaf út eitt blað árið eftir en það tókst vegna þess að landinn var svo áhugasamur um moldina. Menn voru komnir aftur í gömlu gildin og vildu fara að rækta. Þeir föttuðu að þetta hafði verið svo mikil bóla, ekkert nema gervipeningar, svik og svínarí.

Ég og Jón Guðmundsson sem er með ávaxtaræktina, fórum af stað saman og héldum námskeið. Ég átti von á að þetta yrðu eitt eða tvö námskeið en þá hafði ég hreinlega ekkert verið að rækta matjurtir frá því ég var ung kona í Hveragerði. Þetta voru námskeið um kryddjurtir, grænmeti, berjarunna og ávaxtatré. Ég las mér bara til og það voru fjörutíu manns í salnum, aftur og aftur og ítrekað. Ég er ennþá að kenna. Þannig komum við undir okkur fótunum aftur. Þetta var svo geggjað, fyrst var gefið, svo tekið og svo gefið aftur en allt annar hópur.“

Úr garðinum við Fossheiði. Hann er skipulagður með vellíðan í huga.

Með visthrauk í garðinum

Nú búa Auður og Páll Jökull á Selfossi og eiga þar glæsilegan kennslu- og skrúðgarð. Þótt undarlegt megi teljast er þetta fyrsti garðurinn sem hún á ein og sjálf og hefur skipulagt frá grunni. Hún er með hrauk í garðinum þar sem ánamaðkar brjóta niður lífrænan úrgang og skila henni áburði. Þar er líka tjörn og lóðréttur veggur með þaki úr jurtum og hliðarnar eru einnig þaktar plöntum. Þetta er ein sérgreina Auðar en garðurinn er skipulagður út frá umhverfisálfræði.

„Ég stofnaði samtök árið 2009 em heita, Umhverfi og vellíðan. Ég er formaður ennþá,“ segir hún og hlær við. „Það varð úr vegna þess að það voru tveir Íslendingar í doktorsnámi í umhverfissálfræði og ég vildi kappkosta að þeir fengju vinnu þegar þeir kæmu heim. Ég og Anna María Pálsdóttir höfðum unnið saman lengi og ég þekkti hana svo vel og hafði fylgst með öllu hennar námi í Svíþjóð og var alveg heilluð af þessu. Svo var það Páll Líndal, hann lærði í Sidney, og ég kynntist honum. Hann fékk áhuga á þessu fagi af því að hann kom á ráðstefnu sem við Anna María héldum árið 2007 og ákvað að fara í þetta nám eftir að hafa hlýtt á þrjá fyrirlestra frá mismunandi löndum, alveg súper fólk.“

Ef gesti ber að garði þegar Auður er ekki heima setjast þeir oft niður í garðinum og njóta.

Stjórn samtakanna myndaði fjölbreyttur hópur, iðjuþjálfi, arkitekt, garðyrkjufræðingur og umhverfissálfræðingur. Það var til þess að þau fengu inni á Landsspítalanum og gerðu áhugaverða tilraun.

„Við fengum afhenta biðstofu og gang sem við breyttum og könnuðum hvernig fólki liði, fyrir og eftir breytingu. Rut Káradóttir var í stjórninni og hún hannaði breytingarnar. Þetta var allt saman einstakt fagfólk. Páll Líndal vann svo úr gögnunum en ég var á staðnum þegar gerð var rannsókn á skjólstæðingum. Það kom út úr þessu að breytingin hafði meiri áhrif á konur en karlmenn. Raunar sögðu margir gamlir karlmenn; mér líður bara vel þegar þú ert hjá mér, við starfskonur sjúkrahússins sem sátu hjá þeim og spurðu þá af spurningalista. Ég fylgdist með og heyrði þetta svo sá aldurshópur var kannski ekki alveg marktækur. Við gáfum þetta út.“

Alviðra

Vantar stundum heildarsýn

En í ljósi alls þess sem þú lærðir af þessu um samspil umhverfis og vellíðunar hvað finnst þér um stefnu borgarinnar í skipulagsmálum, sem gengur út á þéttingu byggðar?

„Ég er ekki ósátt við þéttingu byggðar,“ segir hún, „en ég er ósátt við að verið sé að taka græn svæði sem veita endurheimt eða gefa fólki lífsfyllingu, eins þegar byggingar stinga í augu. Við Íslendingar erum vön því að geta horft vítt í kringum okkur. Til að mynda þegar menn standa á Kambabrún geta þeir horft yfir nánast allt Suðurland og þetta er í okkar genatiska minni. Munurinn á miðbænum á Selfossi og miðbæ Reykjavíkur er einnig sláandi. Hér er verið að taka gömul hús og endurgera og umhverfið veitir vellíðan. Allar borgir í heimi með svona gömlum götumyndum eru túristaborgir en svo ferðu í miðbæ Reykjavíkur og þér mæta stórhýsi og vindgötur og menn drífa sig sem fyrst út úr þessu. Þetta veitir ekki vellíðan. Arkitektúrinn er ljótur. Stundum þarf ekki nema eitthvað pínupons af skrauti til að brjóta upp til að manni líði vel í návist hússins. Mér hugnast betur miðbærinn á Selfossi því ég veit hversu jákvæð áhrif hann hefur. Hann var mjög gagnrýndur en enginn gagnrýnir hann í dag. Þétting á hins vegar oft vel við en heildarsýn verður að vera til staðar. Fegurðarskynið er svo mikilvægt og til er mikið af rannsóknum sem sýna skýrt hvað það er sem veitir vellíðan. Því miður er stundum farið of geyst, að mínu mati.“

Hún gerir ekki bara þessar kröfur á aðra heldur líka sjálfa sig.  „Ég var alveg með það í huga þegar ég skipulagði garðinn minn að skapa vellíðan. Ég var búin að læra það mikið um umhverfissálfræði að ég gat beitt þeim aðferðum. Ég naut þeirra forréttinda að fá að hlusta á og taka viðtal við svo marga sem hafa þekkingu á þessu sviði að ég var alltaf í einhverju  námi. Upplýsingarnar setjast allar að í höfðinu og útkoman verður smátt og smátt þannig að þekkingin safnast upp. Þegar ég var enn með blaðið og áskrifendur komu við og ég var ekki heima tylltu margir sér hér niður bara til að horfa. Mér þótti mjög vænt um það. Ég er að verða sjötug og ég er mjög glöð. Ég á mjög gott líf og fer hér út á hverjum morgni og finn bara vellíðan. Það skiptir öllu máli,“ segir hún að lokum en eftir að hafa kynnst þessari konu kæmi það ekkert á óvart þótt að í næstu heimsókn biði doppóttur hestur á veröndinni.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 16, 2024 07:00