Áhyggjulaust matarboð

Það er gaman að bjóða fólki heim í mat. Margir hafa hins vegar áhyggjur af því að kunna ekki nóg til verka í eldhúsinu þrátt fyrir að hafa eldað ofan í fjölskylduna í áratugi eða þá þeir halda að það þurfi að slá upp stórri veislu með flamberuðu nauti og flóknum eftirrétti. Þessar áhyggjur geta sem best eyðilagt ánægjuna af heimboðinu og valdið gestgjafanum miklu hugarangri. Hér eru sex atriði sem fólk ætti að hafa í huga ef það langar að bjóða vinum og ættingjum áhyggjulaust heim í mat.

  1. Áður en þú býður fólki í mat skaltu hafa í huga að enginn heldur að þú sér Michelinstjörnukokkur. Fólk kemur í mat til þín vegna þess að það langar til að hitta þig og fjölskyldu þína. Þegar þú skipuleggur hvað á að bera á borð hafðu þá eftirfarandi í huga. Ekki elda nema í mestalagi tvo rétti. Forðastu að elda eitthvað sem þú hefur ekki prófað áður eða borðað annars staðar. Aldrei að hafa eitthvað í matinn sem krefst mikillar athygli eða undirbúnings eftir að gestirnir eru komnir. Gestirnir vilja frekar tala við þig en að þurfa að horfa á þig meðan þú svitnar við eldavélina, að djúpsteikja eitthvað eða að reyna að steikja kjöt svo öllum líki.
  2. Bjóddu upp á súpu í forrétt. Flestum þykir súpa góð. Á netinu er finna þúsundir uppskrifta af góðum súpum. Það besta er hins vegar að það er hægt að elda súpu, frysta hana og geyma í nokkrar vikur án þess að hún tapi bragði. Svo er hægt að afþíða súpuna í rólegheitum og hita hana þegar gestirnir koma. Það er líka ekkert að því að elda súpuna deginum áður og leyfa henni að standa, súpur batna oft mikið við það. Svo er bara að kaupa gott brauð og bera fram með súpunni og málið er dautt.
  3. Gott salat er frábært í öll boð. Það er bara að vera nógu og hugmyndaríkur þegar kemur að því að setja saman salatið. Hvaða grænmeti er gott, hvaða ávextir, svo er hægt að bæta kjúklingi, kjöti eða osti saman við salatið til að gera það matarmeira og búa til góða dressingu. Á netinu er líka að finna allskonar uppskriftir að góðum salötum. Til að vinna sér inn tíma er hægt að skera allt sem þarf í salatið með góðum fyrirvara og setja svo salatið saman rétt áður en gestirnir koma.
  4. Góðir pottréttir eru frábærir þegar fólk langar að bjóða heim í mat. Þá er hægt að gera deginum áður og hita svo þegar gestirnir koma. Hvað með að elda nautakjöts-, lambakjötspottrétt eða hvern þann rétt sem gestgjafanum þykir góður. Pottréttir eru yfirleitt miklu betri deginum eftir að þeir eru gerðir en að borða þá samdægurs. Pottrétti er hægt að bera fram með, kúskús, grjónum, spaghetti, kartöflumús, eða salati svo eitthvað sé nefnt.
  5. Þá er það desertinn. Það er hægt að kaupa köku í bakaríinu, eða ís út í búð. Það er hægt að skera niður ferska ávexti og bera fram með rjóma eða ís. Möguleikarnir eru margir og alveg ástæðulaust að vera að svitna yfir því að gera eftirrétt.
  6. Þá hefur fólk það. Gerðu tvo rétti fyrir fram og svo má sjóða grjón, pasta eða kartöflur og gera salat rétt áður en gestirnir koma. Þá er hægt að taka á móti þeim áhyggjulaus og njóta þess að eiga skemmtilega stund með þeim.
Ritstjórn febrúar 28, 2022 07:00