„Ég get verið afar grimm við grisjun“

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, prófarkalesari með meiru, tók sig upp fyrir nokkrum vikum og flutti til Reykjavíkur eftir nærri tuttugu ára búsetu á landsbyggðinni. Á sextugasta og sjöunda aldursári er kannski ekki auðveldast í heimi að hefja nýtt líf svo við spurðum Gurrí hvernig gekk hjá henni.

„Eftir afar góðan tíma á Akranesi fékk ég líklega 18 ára-fiðringinn, en ég flutti einmitt upp á Skaga frá Reykjavík eftir 18 ára búsetu í gömlu Verkó á Hringbraut og nú voru liðin önnur 18 ár. Það hefur ýmislegt breyst í lífi mínu á síðustu misserum, sonur minn lést í bílslysi árið 2018 en hann var búsettur á Akranesi. Síðastliðið vor flutti fóstursonur minn til sjö ára á sambýli og í kringum þann tíma fann ég að það var farið að toga í mig að komast nær fólkinu mínu í bænum. Ég bjó á fjórðu hæð í lyftulausu húsi sem angraði mig nákvæmlega ekkert og er nú komin upp á sjöttu hæð í lyftuhúsi sem sjúkraþjálfarinn hún Inga vinkona er ekki svo ánægð með. Mér til heilsubótar geng ég yfirleitt niður hæðirnar sex þegar ég fer út – og reyni sem oftast að ganga upp líka. Stoppa þó á fjórðu hæð til að kasta mæðinni en stefni á að komast allar sex í einni atrennu. Ég er orðin 66 ára og finnst hreyfing mikilvæg þótt ég bókstaflega þoli ekki gönguferðir en þótt ég sé hálfgerð sófakartafla vil ég samt ekki verða stirð.

Ég lét gera upp íbúðina á Akranesi fyrir fjórum árum og fann  vel núna hvað ég bjó vel að því að hafa grisjað vel þá. Ég stefndi að því núna að velja hreinlega það sem ég vildi taka með og losa mig við rest en það tókst ekki alveg. Ég fékk nefnilega „leikskólaflensu“ eða síendurteknar pestir nokkrum vikum áður en ég flutti sem gerði mig mjög orkulausa. Það má segja að fjölmenningin hafi bjargað mér. Önnur sýrlenska vinafjölskylda mín aðstoðaði mig við að pakka niður og fara með  heillega muni í Búkollu nytjamarkað og einnig var úkraínsk nágrannakona mín hjálpleg við að leysa fráflæðivanda heimilisins. Systurdóttir mín kom einn daginn ásamt manni sínum og þau náðu að pakka í marga, marga bókakassa. Hin sýrlenska fjölskyldan mín dældi í mig elduðum, gómsætum mat sem var mikil hjálp. Inga vinkona mætti líka oft og aðstoðaði á allan máta. Án þessa góða fólks væri ég sennilega enn að pakka.“

Mælir með að gefa hlutum framhaldslíf

„Ég mæli með því að fólk taki sig til annað slagið og losi sig við hluti sem það þarf ekki á að halda, gefi þeim helst framhaldslíf,“ heldur Gurrí áfram. „Íbúðin mín í Reykjavík er nokkuð minni en sú á Skaganum svo ég varð að velja og hafna. Ég get verið afar grimm við grisjun en þegar kemur að bókum versnar í því, enda eru margar bækur eins og vinir manns. Núna losaði ég mig nánast eingöngu við reyfara og léttmeti sem er auðvelt að finna á Storytel.

Flutningarnir gengu ótrúlega vel. Daginn áður hafði Hilda systir mætt og ásamt tveimur vinkonum og fóstursyni mínum „fluttum“ við eldhúsið og tókum fleira brothætt með. Það var frábært að eldhúsið hafi verið nánast tilbúið, allt komið í skápa og skúffur þegar flutningarnir sjálfir fóru fram. Mæli með þessari aðferð. Um kvöldið þegar ég var komin upp á Skaga ætlaði ég að gefa fóstursyninum ljómandi fínan skyndirétt sem ég hitaði í örbylgjuofninum en því miður fannst ekkert nema gráðubogi til að borða matinn með … „eldhúsið“ komið í bæinn,“ segir Gurrí og hlær. 

Komin í bæinn

Þrátt fyrir að hafa þurft að borða kvöldmatinn með gráðuboga náði Gurrí góðri hvíld þessa síðustu nótt á Skaganum.

„Elskan hún Hjördís í Mömmur.is á Akranesi mætti svo næsta morgun með eiginmann sinn, son og móður í för og þau hlupu upp og niður stigana með kassa og húsgögn og flutningabíllinn fylltist hratt. Úkraínska grannkonan var líka á útopnu og hafði beðið tvo kraftalega landa sína um að hjálpa. Vinahjón mín frá Litháen komu líka, og svo skutlaði annar sýrlenski vinur minn mér í bæinn með gömlu kisurnar mínar tvær. Fjölmenningin lengi lifi!“ segir Gurrí.

„Erlendu burðarmennirnir komu með í bæinn og lentu í því að þrír þungir og stórir hlutir, tvær antíkmublur og rúmið mitt, komust ekki í pínulitlu lyftuna í húsinu mínu, svo þeir urðu að bera þá alla leið upp á sjöttu … Þeir blésu varla úr nös. Það bættist aðeins við hjálparmannafjöldann hér í bænum, en flutningarnir tóku bara rétt um fimm tíma og þá er aksturinn frá Akranesi til Reykjavíkur talinn með.

Ég hef einnig fengið góða aðstoð við að koma mér fyrir, ég flutti í byrjun október og núna í lok mánaðar er ég búin að hreiðra vel um mig. Það munaði virkilega miklu að hafa náð að grisja sæmilega vel fyrir flutningana. Ég mun alltaf sakna Akraness; vinanna, Einarsbúðar, bókasafnsins, antíkskúrsins, bókabúðarinnar og Galito, svo bara fátt sé talið. Auðvitað líka fínu íbúðarinnar sem ég bjó í og geggjaða útsýnisins sem var óheft út á Faxaflóa … Reykjavík til vinstri, stundum eldgos til hægri og Keilir mitt á milli. Ég hef ágætt útsýni úr nýju íbúðinni, fína fjallasýn í suður og í norðurátt blasir Esjan við og sjálf Viðey.

Það er vissulega erfitt að taka sig upp eftir langan tíma á sama stað og mig grunar að „leikskólaflensan“ mín hafði stafað af flutningsstressi sem veikti ónæmiskerfið, allskonar pestir líka að ganga í haust. Nú finn ég orkuna aukast dag frá degi og gleðina með, starf mitt er fjölbreytt og skemmtilegt og svo hlakka ég til ýmissa viðburða fram undan, eins og tónleika með Skálmöld 1. nóvember í Hörpu, jólatónleika með Vitringunum í desember og svo ætla ég að njóta jólabókaflóðsins. Uppáhaldsárstíminn minn er einmitt núna og til áramóta.“

Ritstjórn október 27, 2024 07:00