Þegar pabbi og mamma flytja til barnanna

Uppkomin  börn flytja stundum aftur heim til pabba og mömmu þegar þau eru blönk. En dæmið getur snúist við þegar þau hin sömu börn komast á miðjan aldur og foreldranir eru orðnir lasburða. Þá er á stundum komin tími til að börnin taki foreldra sína inn á sitt heimili. Það getur verið afar gefandi að búa í húsi þar sem þrjár kynslóðir deila súru og sætu, segir í grein á vefnum aarp.org. Lifðu núna stytti og endursagði.

Sambúðin getur styrkt fjölskylduböndin og komið í veg fyrir að afi og amma upplifi sig einangruð og þunglynd eins og margir verða sem búa einir. Vandamálið er að miðaldra börn eru búin að koma sér upp sínum venjum, áhugamálum, lífið er komið í nokkuð fastar skorður. Það er því nauðsynlegt að spyrja nokkurra spurninga áður en harð fullorðna fólkið flytur til barnanna og reyna að svara þeim eins heiðarlega og unnt er.

Spurningar fyrir börnin

Hvernig tekur maki minn og börn því að foreldrar mínir eða foreldri flytji inn á heimili okkar?

Hvaða áhrif hefur návist foreldra minna/ foreldris á fjölskylduna, einkalífið og daglegar venjur?

Eru einhver óleyst vandamál á milli mín og foreldra minna eða á milli þeirra og maka míns?

Þarf að endurskipuleggja heimilið, þarf til að mynda að bæta við svefnherbergi eða baðherbergi?

Ætlast ég til að  aðrir í fjölskyldunni hjálpi til við umönnun?

Höfum við ráð á aukakostnaði sem fellur til vegna flutninganna?

Þarf ég að hætta að vinna til sjá um foreldra mína/ foreldri  eða þarf ég að breyta stundaskránni hjá mér?

Komum við til með að taka foreldra mína/foreldri með í frí eða þarf fá einhverja til að annast þau/það á meðan við erum í burtu?

Eru einhver vandamál vegna drykkju, reykinga eða gæludýra sem þarf að leysa?

Hafa foreldrar mínir tilhneigingu til að fara í taugarnar á mér eða koma mér í uppnám. Er hægt að breyta venjum þeirra?

Hvernig set ég mörk?

Hvað finnst foreldrum mínum um að flytja?

Foreldrarnir ættu að svara þessum spurningum

Fjarlægist ég vini mína, get ég haldið áfram að gera hluti sem mér þykja skemmtilegir?

Gera börnin mín einhverja hluti sem fara í taugarnar á mér eða koma mér í uppnám?

Hvernig finnst mér að þurfa að umgangast fjölskylduna öllum stundum?

Á ég að nota hluta af lífeyri mínum eða sparnaði til að borga fyrir uppihald mitt?

Ef þarf að endurskipuleggja heimilið svo ég geti verið þar, á ég þá að borga hluta af kostnaðinum við að gera nýtt baðherbergi eða herbergi fyrir mig. Hef ég ráð á slíku?

Geta aðrir í fjölskyldunni hjálpað til við að hugsa um mig?

Ef mér líkar ekki það sem börn mín og barnabörn eru að gera, get ég þá rætt það opinskátt við þau?

Hvernig leggst það í mig að verða öðrum háður?

Verið opinská

Talið opinskátt um væntingar, ótta, fjármál og önnur mál sem brenna á ykkur. Það getur valdið ykkur tímabundnum ótta að hefja máls á viðkvæmum málefnum en það borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Ef ykkur liggur eitthvað á hjarta ræðið það við fólkið ykkar það sést ekki utan á ykkur hvað er að angra ykkur. Ef hlutirnir eru ekki ræddir valda þeir spennu og leiðindum.  Íhugið að:

Ef foreldrar ykkar eða foreldri láta í ljós áhyggjur yfir einhverju, látið þá segja ykkur sama hlutinn tvisvar svo það sé á hreinu að allir séu á sömu blaðsíðu.

Takið tillit til þess að það er ekki auðvelt að missa hluta af sjálfstæði sínu.

Fullvissið foreldra ykkar um að þið ætlið ekki að skipa þeim fyrir um hvernig þeir eigi að haga lífi sínu. Standið við það.

Hafið skilning á að bæði þú og foreldrar þínir eða foreldri hafa breyst síðan þið bjugguð síðast saman og deilið kannski ekki  lengur svipuðum skoðunum og gildum og viljið haga lífi ykkar á ólíkan hátt. Ekki dæma hvert annað látið það að minsta kosti ekki í ljós.

Finnið leiðir svo að allir geti átt sitt einkasvæði og einkalíf.

Forðist að gagnrýna hvert annað.

Mikill kostnaður

Það eru margar góðar ástæður fyrir því að foreldrar flytji til barna sinns. Peningar eru hins vegar ekki ein af þeim því oft kosta flutningarnir mun meira en fólk áætlaði í upphafi.

Skoðaðu hvað það kostar við að fá foreldra þína eða foreldri inn á heimilið. Hvað kostar til að mynda að breyta húsnæðinu á þann hátt að það henti öldruðum einstaklingum sem eru orðnir eða eru að verða lasburða.

Hverskonar húsnæði hentar fólkinu mínu í dag, eftir sex mánuði eða ár.

Hvernig er heilsa foreldra minna eða foreldris. Eru einhverjir krónískir sjúkdómar að hrjá þau.

Best er að skoða málin ofan í kjölinn og vera eins hreinskilinn við sjálfan sig og unnt er. Það getur virkað sem fagur draumur að taka aldraða foreldra sína inn á heimilið en það getur auðveldlega snúist upp í martröð ef fólk gleymir að ræða saman um vonir og væntingar í sambúðinni. 

Ritstjórn október 30, 2018 10:06