„Ég hef alveg afleit gen“

Út er komin bókin Jóna – atkvæði og ambögur eftir Jón Ingvar Jónsson í samantekt og ritstjórn Símonar Jóns Jóhannssonar.

Jón Ingvar var fæddur á Akureyri árið 1957 og ólst þar upp en lést langt fyrir aldur fram árið 2022. Hann var sonur Jóns Hafsteins Jónssonar stærðfræðikennari og Soffíu Guðmundsdóttur tónlistarkennari. Vorið 1977 lauk Jón Ingvar stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri en hélt þá til náms í Austur-Þýskalandi. Hann starfaði um skeið sem forritari en lengst af og sér í lagi hin síðari ár starfaði hann við helsta áhugamál sitt, leiðsögn ferðamanna.

Snemma fékk Jón Ingvar mikinn áhuga á bragfræði, náði strax á menntaskólaárunum góðum tökum á þeirri list og síðar varð hann einn af þekktustu og bestu hagyrðingum þjóðarinnar. Hann var einkar glöggur maður og fróðleiksþyrstur og kunnur fyrir skemmtilegheit, spaugsemi og galgopahátt. Hann lék sér alla tíð með orð, var hnyttinn og hafði gaman af að fara hárfínt yfir strikið. Vísur eftir hann birtust í ýmsum vísnaþáttum í blöðum og tímaritum og á vettvangi veraldarvefsins. Jón Ingvar kom víða við í vísnagerð sinni. Hann orti á einlægan hátt um fjölskyldu sína, fjallaði um land og þjóð, menn og málefni, stjórnmál, trúmál og íþróttir. Hann lét sér fátt óviðkomandi og alls staðar er stutt í dillandi húmor og galgopahátt.

Um sjálfan sig orti Jón:

 

Ég hef alveg afleit gen,

enda fól og glanni,

rætinn, þver og illgjarn en

annars gull af manni.

 

Fólk er nafn sem fær að vara

fáein ár og deyr.

Ég er sjálfur jafnvel bara

Jón og ekkert meir.

 

Útleggingar af boðorðunum tíu

afhendingar

 

  1. Jafnvel þó að þú sért oft í þrusu stuði,

ekki hafa aðra guði.

 

  1. Aldrei máttu, utan jafnt sem innan veggja,

Herrans nafn við hégóm leggja.

 

  1. Hvíldardaginn, dilla þér þó dátt þú vildir,

heilagan samt halda skyldir.

 

  1. Foreldrarnir bjóða og banna, blessuð grjónin,

ætíð skaltu heiðra hjónin.

 

  1. Þótt um afbrot ýmsir vilji aðra saka,

annars líf má aldrei taka.

 

  1. Vertu ætíð vænn og góður við þinn maka,

fráleitt máttu framhjá taka.

 

  1. Ýmist glingur eignast fólk, það er á hreinu,

ekki hnupla af því neinu.

 

  1. Ekki rægja eða skrökva upp á grannann

og líka heldur engan annan.

 

  1. Ekki girnast grannans hús né glæsivillu

þó að kosti meira en millu.

 

  1. Ekki girnast ambátt grannans eða þræla,

í frú hans áttu ekki að pæla.

Um aðrar grannans eignir skaltu ekki hugsa.

Það gildir jafnt um asna og uxa.

Niðurlag:

Elskurík þið yfir börnum ykkar vakið

og heilum vagni heim nú akið.