Elín Ósk, ein af okkar fremstu söngkonum fyrr og síðar, var aldrei í vafa hvað hún ætlaði að verða. Þriggja ára gömul sagðist hún ætla að verða söngkona og stóð við það. Elín Ósk er þekkt fyrir mikið raddsvið og blæbrigðaríka og glæsilega rödd. Um árabil hefur hún ekki komið mikið fram opinberlega en hún glímdi við veikindi. Hún gafst ekki upp og fékk þá hjálp sem hún þurfti. Elín Ósk segist þakklát lækninum sínum og kærleik sem sem umvafði hana á erfiðum tíma og heldur endurkomutónleika 22. feb. í Langholtskirkju.
„Það er búið að vera ýmislegt í gangi,“ segir Elín Ósk þegar ég hitti hana. „Ég hef hugað að heilsunni og ætla að hafa árin fram undan mjög góð. Ég verð með endurkomutónleika því ég hef ekki sungið að neinu marki opinberlega síðan 2015. Þá var mér kippt út vegna veikinda. Árið 2013 var ég farin að finna fyrir einkennum sem ég áttaði mig ekki á hvað var. Ég hafði verið með Óperukór Hafnarfjarðar í 13 ár og fann að ég gat það varla lengur og kórinn lognaðist út af 2013. Tveimur árum síðar fór ég til læknis, öll verkjuð og búin að missa röddina. Ég var skoðuð hátt og lágt, var send upp á Reykjalund, úrskurðuð vefjagigtarsjúklingur og sagt að ég yrði að læra að lifa með þessu. Það var alls konar gigtarlyfjum dælt í mig sem fóru illa í mig og ég var ósátt.“
![](https://lifdununa.is/wp-content/uploads/2025/02/b3a878ed9d-465x679_o-212x310.png)
Elín Ósk í stúdíói sínu, Studio tecnica vocale.
Ekki lengur skugginn af sjálfri sér
Tókstu til þinna ráða? „Það endaði með því, ég var að brasa til 2020. Ég fitnaði mikið, ég sem þyngdist aldrei. Einn daginn fékk ég nóg, ég hafði ekki einu sinni löngun til að hlusta á tónlist. Þetta var ömurlegt og söngurinn, líf mitt og yndi, var tekinn frá mér. Ég reyndi að þrauka og vera maður með mönnum sem var bara mjög erfitt. Ég fór til heimilislæknisins mín og hreinlega barði í borðið og sagði: „Þú verður að hjálpa mér, ég á ekki að vera svona af vefjagigt.“ Ég sagði að síðasta hálmstráið væri að fara til kvensjúkdómalæknis. Ég fór til Óskar Ingvarsdóttur og hún bjargaði lífi mínu: „Ég veit nákvæmlega hvað er að þér,“ sagði hún. „Þetta reynum við að laga en þitt tilfelli er mjög slæmt, þú er búin að burðast með þetta í allt of mörg ár. Estrógenið var nánast horfið úr líkamanum.“ Þegar það fer, þá fer allt á hvolf í líkamanum, þetta var ástæðan fyrir öllu. Ég var sett á estrógel en það tók nánast eitt og hálft ár að fá þetta í lag. Þá fór ég að kannast við sjálfa mig, lífsgleðina og kætina, og ég var ekki lengur skugginn af sjálfri mér. Ég fór að syngja aðeins um 2021-2022 hlutirnir fóru að breytast til batnaðar og síðan hefur allt verið á uppleið.
Árið 2021 ákváðum við Kjartan, maðurinn minn, að kíkja í Boðunarkirkjuna í Hafnarfirði þar sem við búum. Við höfðum aðeins kynnst söfnuðinum, því Kjartan var beðinn að spila á samkomum 2000-2001, en römbuðum þarna inn einn laugardag á samkomu. Þarna gerðist eitthvað sem breytti minni andlegu líðan. Það var tekið á móti okkur af svo miklum kærleik, fólkið var yndislegt og athöfnin svo falleg, það kom einhver lausn yfir mig. Við fórum að mæta á samkomur af og til sem endaði með að við fundum okkur mjög vel í þessari kirkju og söfnuði. Vegurinn með Jesú Kristi varð minn og við hjónin tókum skírn í kirkjuna og í dag er ég listrænn stjórnandi í kirkjunni og Kjartan tónlistarstjóri.“
![](https://lifdununa.is/wp-content/uploads/2025/02/56a5d27a24-2048x1365_o-310x207.jpg)
Elín Ósk ásamt syni þeirra hjóna, Heimi Þór, þegar hún hlaut riddarakrossinn.
Guð er kærleikur
„Ég á þessu fólki ásamt Ósk Ingvarsdóttur mikið að þakka. Ég er bara eins og ég var, andlega og líkamlega. Þannig að ég ákvað að halda endurkomutónleika, ég er komin í hörkuform, raddlega og að öðru leyti, og allur ágóði af tónleikunum fer til Boðunarkirkjunnar í Hafnarfirði sem þakklætisvottur fyrir það þau hafa gert fyrir mig. Mitt hjarta liggur þarna og þarna vil ég vera. Þetta er kærleiksrík kirkja sem umvefur alla enda er yfirskriftin á tónleikunum Guð er kærleikur.“
Tónleikarnir verða í Langholtskirkju, þar sem Elín Ósk hefur sungið ótal tónleika. „Það er gott að syngja þar og kirkjan tekur nægan fjölda í sæti og mikil hefð fyrir tónlistarflutningi þar. Þarna er orgel, flygill og næg bílastæði. Mig langaði að hafa Kór Langholtskirkju með, en sonur minn Heimir Þór syngur í honum og stundum einsöng með kórnum. Ég fæ Jónas Þóri með mér, hann er orgelleikari og píanisti og spilar svo flott af fingrum fram, af því ég er með þannig tónlist líka. Ég er með trúarlega tónlist frá ýmsum tímabilum og helstu tónskáldum. Það verða verk eftir Gounod, Sanctus úr messunni Saint Cecilia, sem ég veit ekki til að hafi verið flutt hér áður, og ég lét útsetja fyrir hljóðfæri sem ég verð með. Amen eftir Donald Fraiser sem hefur aldrei verið flutt hér, og ótrúlega fallegt. Ég syng Faðir vor eftir Malotte og gospeltónlist og afríska sálma,“ segir Elín Ósk sem hefur mikla dýpt í röddinni sem fær að njóta sín þar. „Ég fékk að nota dýptina og raddskalann í Macbeth og Galdra-Lofti eftir Jón Ásgeirsson, mér finnst það mjög gaman. Systurdóttir mín Maríanna Másdóttir ætlar að syngja með mér. Hún er yndisleg söngkona, lærði hjá mér, fór svo heim á Hvolsvöll að kenna söng og á þverflautu ásamt því sem hún syngur víða. Við syngjum dúettinn fallega Pie Jesu. Elsa Waage, söngkona og vinkona mín, syngur með mér fallegt lag ásamt því að vera kynnir og hljóðfæraleikararnir Gunnar Kvaran, Guðný Guðmundsdóttir, Monika Abendroth spila. Allt fólk sem ég hef unnið með í gegnum árin.“
![](https://lifdununa.is/wp-content/uploads/2025/02/5b0530ffb7-395x395_o-310x310.jpg)
Elín Ósk á Þingvöllum.
Byrjaði að syngja opinberlega 13 ára
Elín Ósk ólst upp á Hvolsvelli og Rangárþingi en tónlistin er í báðum ættum. „Pabbi var mikill söngmaður og eftirsóttur í öllum kórum, og hafði mikið raddsvið. Við vorum með hesta og lifðum og hrærðumst í því. Mamma var óskaplega músíkölsk og öll hennar ætt. Pabbi átti heilmikið plötusafn og Pavarotti var mikið spilaður, hann varð áhrifavaldur í mínu lífi. Ég hlustaði á hann syngja Nessun Dorma 10-11 ára og tárin trilluðu niður kinnarnar, ég varð harðákveðin í að verða söngkona. Ég fór 11 ára í Tónlistarskóla Rangæinga, hjá Sigríði og Friðriki Guðna, lærði á gítar og orgel og fann mig svo í píanónáminu, en söng í Tónlistarskólakór Rangæinga og jafnframt einsöng. Þannig fékk ég þjálfun en Sigríður og Friðrik rifu upp tónlistarlífið þarna. 13 ára var ég komin á fullt í píanónámi og að syngja á skemmtunum, ég var með gítarinn og vinkonur mínar og prógramm. Ég raddaði yfirleitt, mamma samdi oft ljóðin við þekkt lög í tilefni af viðburðum eftir því sem við átti. Þetta var skemmtilegur tími.“
![](https://lifdununa.is/wp-content/uploads/2025/02/e2e35cafeb-1365x2048_o-207x310.jpg)
Elín Ósk sem Tosca.
Valdi að vera á Íslandi
Leið Elínar Óskar lá svo í Söngskólann í Reykjavík. „Ég byrjaði 17 ára og var í fimm ár hjá Þuríði Pálsdóttur, hún var dásamleg; góður kennari og ofboðslega góð við mig. Passaði vel upp á röddina sem var mjög stór, en ég fór á brjósttónum upp eftir öllu valdi, og hún lagði röddina mjög vel. Við vorum miklar vinkonur og hún fræddi mig mikið. Ég tók einsöngvarapróf og hafði þá kynnst Kjartani, manninum mínum, hann tók söngkennarapróf og við fórum til Ítalíu 1984 í vöggu söngsins. Það var dásamlegur tími. Ég lærði hjá Pier Miranda Ferraro, oft kallaður „fljúgandi tenórinn“, en hann söng Otello út um allan heim. Hann þjálfaði mig í óperuhlutverkum m.a. Desdemonu í Otello og söng allt hlutverkið á móti mér, það var ekkert leiðinlegt að læra það þannig,“ segir Elín Ósk og hlær. „Hann sendi mig að syngja um allt en ég fékk svo boð um að syngja Toscu heima þá 25 ára. Ferraro sagði: Mundu bara eitt, að syngja Toscu sem unga Toscu.“
Elín Ósk ætlaði út aftur en það fór á annan veg. „Röddin gaf mér margvísleg tækifæri í söng, hún var þroskuð, auðveld í meðferð og móttækileg fyrir tækni. Ég ætlaði út aftur því kennarinn minn vildi senda mig að syngja fyrir út um allt. Boltinn fór að rúlla og ég fór hvergi. Mér fannst gott að vera heima og söng hvert hlutverkið á fætur öðru, í Á valdi örlaganna, í Didó og Aeneas o.fl. Það var mikið að gera og svo komu tækifæri að utan, ég fór t.d. til Óslóar og söng í Messías, söng Tora í Fredkulla eftir Martin Udbye sem er byggð á Snorra-Eddu og var frumflutningur. Þetta varð til þess að ég var fengin til að syngja Aidu á listahátíð í Noregi. Þetta var alþjóðleg sýning og mjög skemmtilegt allt. Ég fékk svo boð um að syngja Normu í forföllum Danielu Dessi í Veróna en þá var ég að syngja Toscu í annað sinn við Íslensku óperuna.“
Elín Ósk hefði án nokkurs vafa geta átt farsælan feril erlendis en hún kaus að vera heima. „Ég sé ekki eftir því, þessi heimur úti er ekki fyrir alla. Maður þarf að setja sig niður á einum stað með fjölskyldunni, er þá ekki alveg eins gott að vera á Íslandi, eða vera á flakki og einn á hótelum. Raddir eru oft keyrðar út, ef þú ert ekki lausráðinn en þá geturðu frekar hafnað hlutverkum.“
![](https://lifdununa.is/wp-content/uploads/2025/02/8c8894da82-1000x667_o-310x207.jpg)
Elín Ósk sem Santuzza í Cavalleria rusticana.
Skammarlegt að þjóðfélagið sé ekki með óperu
Hvað finnst þér um tónlistarlífið á Íslandi í dag? „Mér finnst dapurt að það skuli ekki vera til íslensk ópera og hálfgerð skömm, ef ég segi eins og er. Að einstaklingur skyldi geta haft frumkvæði og stofnað heila óperu upp á sitt einsdæmi fyrir áratugum en heilt þjóðfélag geti ekki komið sér saman um að halda Óperunni áfram eða að komið sé upp góðri þjóðaróperu. Framámenn, stjórnmálamenn o.fl. í menningarlífinu verða að taka sig saman í andlitinu því við verðum að hafa óperu. Það er mikið af glæsilegum söngvurum sem neyðast til að vera erlendis til að fá eitthvað að gera. Þetta gengur ekki, það þarf að rísa upp og mótmæla þessu, öðru eins hefur verið mótmælt. Það er farið illa með íslenska söngvara. Þetta er mikil afturför og hefur mjög mikil neikvæð áhrif, t.d. á þá sem langar að hefja klassískt söngnám, það er að engu að hverfa hér á landi. Það er samt aðdáunarvert hve margir hópar eru að koma fram með alls konar uppákomur, óperuflutning o.fl., allt einstaklingsframtök. Þessu verður að breyta og ég er tilbúin að ýta undir ef hægt er.“
Elín starfar sem söngkennari og er með stúdíó á neðri hæð heimilis síns, Studio tecnica vocale, sem hefur verið starfrækt til margra ára. „Ég tek á móti fólki á öllum stigum og ég hjálpa ræðufólki. Ég lifi fyrir sönginn og er aftur bara eins og ég var. Það er allt á sínum stað.“
Tónleikar Elínar Óskar verða 22. feb. nk., kl.16 í Langholtskirkju. Miðar seldir á tix.is og við innganginn.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.