Tengdar greinar

Skógrækt í Þverárhlíð og háskólaþróun í Evrópu!

Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, kemur á óvart við nánari kynni. Eins og aðrir, sem gegna háum embættum, er viss hætta á að hún lendi á sérstökum bás i augum annarra þar sem fjarlægð einkenni samskipti. Í ljós kemur að Kristín er hlý manneskja og stutt er í kímni og galsa. Kannski er viss léttir að vera ekki lengur í ábyrgðarmiklu hlutverki rektors en því fer reyndar fjarri að Kristín hafi sest í helgan stein eða hægt á þegar hlutverki rektors sleppti. Margt af því sem hún hefur verið að gera frá 2015 eru störf í tengslum við erlenda háskóla og fer því hljótt hér heima nema í háskólasamfélaginu. En frístundum ver Kristín við allt annað en fræði.

Lyfjafræðin varð ofan á

Þegar kom að því að Kristín veldi nám eftir menntaskóla kom bókmenntafræði sterklega til greina en lyfjafræðin varð ofan á.

Fræðibækur eru því sannarlega ekki eina lesefni Kristínar. Það gerir fræðimanninn örugglega að mýkri manneskju að geta sökkt sér ofan í bókmenntir á milli fræðastarfa.

Það voru mikil tímamót í lífi Kristínar þegar hún lét af starfi rektors eftir 10 ár í embætti og hún segir að vart líði dagur að hún hugsi ekki hlýlega til stofnunarinnar og nemendanna. ,,Síðan hef ég einkum verið að vinna að menntamálum annars vegar og hins vegar að heilbrigðistengdum verkefnum. Varðandi menntamálin var ég um tveggja ára skeið gestaprófessor við MIT háskólann í Boston. Ég hafði fengið mikinn áhuga á ýmsum nýjungum í háskólastarfi gegnum rektorsstarfið, þar á meðal í nýsköpun og nýjum kennsluháttum. Þá voru nýlega komin til sögunnar námskeið sem voru í boði ókeypis fyrir fólk víða um heim. Ég starfaði í einingu innan MIT sem kallast edX og er samstarfsnet margra háskóla í fremstu röð sem bjóða námskeið í öllum mögulegum fögum. Upplýsingar um þetta nám er að finna inn á www.edX.org. Önnur slík veita er Coursera sem rekin er út frá Stanford háskólanum í Kaliforníu. Á þessum tveimur veitum er hægt að finna nám við allra hæfi, hvort heldur til stuðnings náms eða símenntunar – tónlist, sálfræði, tölvunarfræði, bókmenntir eða hvað sem er. Ég hvet fólk til að fara inn á þessar síður og sjá hvað er í boði og hvaða háskólar eru tengdir þessum veitum. Námskeiðin eru ókeypis en ef fólk vill öðlast námsgráðu þarf að borga hóflegt gjald en aðeins brot af því sem staðnám i Bandaríkjunum  kostar. Eftir veru Kristínar á MIT gerðist Háskóli Íslands aðili að edX veitunni og býður nú slík námskeið. Ég var sem sagt starfandi annars vegar í þessari einingu í MIT og hins vegar í nýsköpunarmiðstöðinni sem kölluð er Media Lab. Það var óhemju áhugavert  að sjá hvenig þeir vinna og styðja við sitt fólk og hvernig fólk kemur saman úr ólíkum áttum eins og listum og tækni, heimspeki og læknisfræði til að finna nýjar lausnir. Eftir þessi tvö ár vann ég síðan með nýsköpunarfólki hér heima, sat i stjórnum sprotafyrirtækja og var í stjórn fjárfestingarsjóðs sem sérhæfir sig í stuðningi við sprotafyrirtæki á heilbrigðissviði.“

Tengingin við Frakkland

Kristín er varaformaður háskólaráðsins í Lúxembourg og starfar jafnframt í Frakklandi fyrir hönd stjórnvalda í verkefni sem miðar að því að þróa franska háskólakerfið og örva það til sóknar og nýsköpunar. ,,Mér hefur þótt það mjög  áhugavert því gríðarlega mikið nýtt fjármagn hefur verið sett í háskólakerfið og skólarnir látnir keppa um þetta fjármagn. Til þess að eiga möguleika verða skólarnir að vera tilbúnir að vinna markvisst með öðrum háskólum, rannsóknarstofnunum, nærsamfélaginu og vera tilbúnir að breyta verklagi og sýn. Það er sláandi að sjá að það eru ekki endilega stóru háskólarnir sem standa sig best því þeir eru oft þungir þegar kemur að breytingum. Mér þykir vænt um að leitað hafi verið til mín, bæði af hálfu stjórnvalda og einstakra háskóla því þarna nýti ég reynsluna sem ég hafði af stefnumörkun Háskóla Íslands á sínum tíma þar sem við lögðum mikla áherslu á að breyta starfsháttum, auka árangur, setja árangursmælikvarða og breyta hugsunarhætti bæði í kennslu og rannsóknum. Á þeim tíma var sjaldgæft að opinber stofnun setti sér stefnu og semdi við stjórnvöld um fjármögnun. Setti svo um leið mælikvarða á árangur og skuldbatt sig til  að skila tilteknum árangri. Þetta var komið á rekspöl þegar efnahagshrunið breytti öllum forsendum um fjármögnun. Það sem eftir stóð, þótt fjármagnið kæmi ekki í þeim mæli sem ætlað var, var að breytingar á starfsháttum og viðhorfum höfðu átt sér stað. Skólinn náði í kjölfar verulega auknum árangri í alþjóðlegum samanburði.

Heilbrigðismálin

Kristín var í námi í Frakklandi eftir stúdentspróf og þá togaðist á í henni hvort hún ætti að leggja fyrir sig frönsku og franskar bókmenntir eða lyfjafræði. Lyfjafræðin varð ofan á en tengingin við Frakkland og bókmenntirnar hefur alltaf verið sterk.

Fyrir utan menntamálin hafa heilbrigðismálin alltaf átt sinn sess í huga Kristínar en hún  var prófessor í lyfjafræði áður en hún varð rektor.  Kristín var formaður ráðgjafanefndar Landspítalans í þrjú ár og hefur þess vegna fylgst vel með uppbyggingu nýs spítala. Kristín vinnur jafnframt að heilbrigðismálum í frönsku háskólunum og í Háskólanum í Lúxembourg er verið að koma á fót námi í læknisfræði og hjúkrunarfræði og efla samstarf við spítala. Kristín segist reyna að halda sér við í lyfjafræðinni og hefur sérstakan áhuga á nýrri þróun í lyfjagerð og nefnir þar líftæknilyfin sem dæmi. ,,Það er gríðarlega spennandi að sjá hvernig þessi nýju lyf gjörbreyta möguleikum til að meðhöndla sjúkdóma.“ Ég hef sérstakan áhuga líka á geðlyfjum og verkjalyfjum en því miður hefur ekki tekist að þróa öflug verkjastillandi lyf sem ekki geta leitt til ávana og fíknar.

Samspil matar og lyfja

Kristín segir að talsvert sé vitað um hvernig ólík lyf geta haft áhrif á virkni hvors annars þegar þau eru tekin samtímis en miklu minna sé vitað um samspil matvæla og lyfja. ,,Það er ljóst að ólíkur matur getur haft áhrif á virkni lyfja. Styrkur lyfs getur minnkað eða aukist við neyslu tiltekinna matvæla og tilfinning mín er sú að þetta geti skipt meira máli en við höldum. Dæmi sem er einna best þekkt varðandi matvæli og lyf en grapealdinsafi. Í þeim safa er efni sem getur valdið því að styrkur tiltekinna lyfja hækki í blóðinu og þá er orðin aukin hætta á aukaverkunum. Grapealdinsafi er hollur og góður svo framarlega sem við erum ekki á sama tíma að taka tiltekin lyf.“

Styrkir sem vert er að veita athygli

Kristín er formaður stjórnar Stofnunar Leifs Eiríkssonar sem býr yfir sterkum sjóði sem veitt er úr á hverju ári til íslenskra og bandarískra stúdenta í framhaldsnámi í löndunum tveimur. Hver styrkur nemur rúmlega 3,5 milljónum króna sem getur gert nemendum kleift að láta drauma rætast. Þessir styrkir eru notaðir til að styrkja íslenska nemendur til að fara til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og bandaríska nemendur til að koma hingað. Þetta hafa verið styrkir til náms á fjölmörgum sviðum, t.d. kvikmyndagerð, stærðfræði, leiklist, tónlist, tölvunarfræði. Styrkirnir eru auglýstir á hverju ári og geta nemendur úr öllum íslensku háskólunum sótt um.

Kristín er skógræktarbóndi

Myndin er tekin við skógarhögg fyrir jólin fyrir nokkrum árum. Síðan hafa tveir ömmustrákar bætst í glæsilegan hóp þeirra Kristínar og Einars.

Kristín og eiginmaður hennar, Einar Sigurðsson framkvæmdastjóri, eiga land í Þverárhlíð í Borgarfirði þar sem þau hafa verið að rækta tré í 20 ár.

,,Þessi vinna hefur nú borið árangur svo við vorum að skipuleggja ferð til að fara og höggva jólatré,“ segir Kristín og hlær. ,,Lundur er eyðijörð og er skilgreind sem skógræktarjörð. Því fylgir auðvitað sú kvöð að við eigum að gróðursetja. Þetta sveitalíf hentar mér óskaplega vel, bæði trjáræktarstússið og vísir að matjurtarækt sem við vonum að okkur takist að auka við. Svo getur maður unnið með tölvu í sveitinni með þeim frábæru tengingum sem nú er völ á. Mér þykir óskaplega gott að sinna tölvuvinnu og taka fjarfundi í sveitinni. Samstarfsfólk kætist oft yfir lifandi bakgrunni hjá mér á fjarfundum, því stundum eiga krummi, maríuerla eða jafnvel sauðkind leið fram hjá.  Mér þykir ég mikil forréttindakona að hafa svolítið af hvoru tveggja í sveitinni ræktunina og vinnuna sem ég færi með mér í tölvunni. Þau Kristin og Einar eiga tvær dætur sem báðar eru rafmagnsverkfræðingar og eiga þær fjóra stráka sem eru miklir ömmu- og afastrákar. ,,Strákarnir kunna vel að meta sveitina og þar unum við okkur vel öll saman.“

Kristín segir að hún mætti vera duglegri að huga markvisst að eigin heilsu. ,,Ég stunda ekki neina sérstaka líkamsrækt en ég safna skrefum og reyni að ganga að minnsta kosti 10.000 skref á dag,“ segir Kristín Ingólfsdóttir sem hlakkar til verkefna framtíðarinnar sem ýmist eru á sviði fræða-, heilbrigðis- eða ræktunarmála.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

 

Ritstjórn desember 9, 2022 07:00