,,Breytingaskeiðið er ekki sjúkdómur,“ segir Hanna Lilja Oddgeirsdóttir læknir.

Hanna Lilja Oddgeirsdóttir læknir.

Lengi hefur verið ákveðið ,,tabú“ að eldast og litið niður á þá sem það hendir eins undarlegt og það hljómar. Samfélagsmiðlarnir sannfæra okkur um að við eigum  að líta út alla ævi eins og við séum ekki deginum eldri en fertug, sama á hverju hefur gengið, og þá er voðinn vís. Að eldast er fullkomlega eðlilegt öllum lífverum og í því felst fegurð því hinn valkosturinn er að deyja og það viljum við ekki. En af hverju streitumst við svona við og hikum ekki við að fordæma öldrun. Ljóst er að aldrei hefur verið til lyf sem kemur í veg fyrir öldrunarferlið og verður aldrei, en í dag eru til fjölmörg ráð til að lina þjáningarnar þegar líkami okkar tekur eðlilegum breytingunum og alger óþarfi að þjást í hljóði. Hanna Lilja Oddgeirsdóttir læknir er ein af þeim sem hefur haldið á lofti fræðslu fyrir konur í því markmiði að frelsa þær undan vanlíðan sem hún segir að margar konur upplifi um miðjan aldur um leið og hún vill valdefla þær til að taka ábyrgð á eigin heilsu.

Fræðsla um breytingaskeiðið af skornum skammti

Hanna Lilja útskrifaðist sem læknir frá Kaupmannahafnarháskóla 2013 og tók hluta sérnámsins í kvensjúkdóma- og fæðingarlækningum í Herning. Hún færði sig síðan heim til Íslands og tók meirihluta sérnámsins á kvennadeild Landspítalans. Hanna Lilja tók síðan eitt ár á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins þar sem hún hitti fyrir margar konur sem voru að glíma við vandamál sem við frekari athugun sýndu að tengdust breytingaskeiðinu. ,,Það var þarna sem áhugi minn vaknaði fyrir alvöru á að skoða frekar heilsufar kvenna á þessu skeiði og hvaða áhrif það getur haft á líf þeirra, bæði í einkalífi og starfi, sem og á heilsu þeirra til framtíðar,“ segir hún. ,,Heilbrigðiskerfið eins og það er byggt upp í dag snýst að miklu leiti um að laga það sem er að þegar hlutirnir eru komnir í óefni. Það er meira verið að slökkva elda þegar vandamál hafa þegar gert vart við sig í stað þess að fyrirbyggja heilsufarsvanda. Mér þótti svo ljóst að þessar konur, sem ég hitti á Heilsugæslunni, vantaði fræðslu um það sem var að gerast í líkama þeirra.“

Hanna Lilja stofnaði GynaMEDICA, lækninga- og heilsumiðstöð fyrir konur, fyrir tveimur árum en fyrirtækið leggur áherslu á að þjónusta konur á tíma breytingaskeiðsins. Hún er verðandi kvensjúkdómalæknir og er meðlimur í Newson Health Menopause Society, samfélagi fagfólks með séráherslu á breytingaskeið og tíðahvörf. Hanna Lilja hefur auk þess lokið viðurkenndri endurmenntunarþjálfun (CPD accredited) í meðferð á breytingaskeiði, Confidence in Menopause.

Umræða um konur á breytingaskeiði neikvæð

Hanna Lilja segir að þegar hún áttaði sig á því hversu hamlandi áhrif breytingaskeiðið getur haft á sumar konur hafi hún fengið þörf til að leggja sitt af mörkum með fræðslu. ,,Öll umræða um konur á breytingaskeiði hefur verið heldur neikvæð og valdið því að margar fara í afneitun og leita sér ekki hjálpar við vandamálum sem í dag eru til ráð við,“ segir Hanna Lilja. ,,Það er ekkert smart að verða gömul og hvað þá að vera sveitt og pirruð líka,“ segir Hanna Lilja og brosir. ,,Okkur þykir ekki gott að aldurinn sjáist á okkur en þar spila samfélagsmiðlarnir sterkt inn. Það viðhorf þarf að breytast sem við gerum helst með því að fræða konur“ segir Hanna Lilja ákveðin.

Breytingaskeiðið er ekki sjúkdómur

,,Það veldur auðvitað óöryggi að upplifa að það sé eitthvað öðruvísi við líkamann en það var áður, nýtilkomin einkenni, að þekkja ekki sjálfa sig og skilja ekki hvað er að gerast í líkamanum sínum,“ segir Hanna Lilja. ,,Um leið og við erum meðvitaðar um hvaða er að eiga sér stað, þá getum við miklu betur tekist á við þetta ferli. Allar konur sem ná vissum aldri ganga í gengum breytingaskeiðið. Það er um helmingur mannkyns og margar konur upplifa truflandi einkenni á þessu tímabili. Breytingaskeiðið er vissulega ekki sjúkdómur heldur lífeðlisfræðileg breyting sem verður þegar frjósemisskeiði lýkur. Fyrir sumar konur er þetta tímabil hins vegar mjög erfitt og getur haft skerðandi áhrif á lífsgæði. Það er margt sem viðkemur heilsu kvenna eins og tíðaverkir, fyrirtíðaspenna og fleira sem eingöngu leggst á konur og konur fengið litla áheyrn með. ,,Æ, þetta er nú bara hluti af því að vera kona,“ er oft sagt. En konur þurfa ekki að þjást í hljóði því það er hægt að fá viðeigandi stuðning og meðferð ef við á og margar konur vita ekki af því. Þessu þarf að breyta og fræðsla er alger forsenda þess að ná fram nauðsynlegum breytingum.“

PCOS – fjölkerfasjúkdómur sem konur verða að þekkja 

Hanna Lilja segir að eitt af vandamálunum sem lítið hefur verið rætt er PCOS heilkennið sem hefur valdið miklum óþægindum meðal fjölda kvenna, mun stærri hópi en talið var. ,,PCOS er fjölkerfasjúkdómur sem hefur áhrif á efnaskiptin og hefur fjölmörg einkenni í för með sér, til dæmis óreglulegar blæðingar, frjósemisvanda, aukinn hárvöxt, erfiðleika með þyngdarstjórnun ofl. Konur með PCOS eru í aukinni hættu en aðrar konur að þróa með sér sjúkdóma á borð við sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum og háþrýstingi. Þær geta hjálpað sér mikið sjálfar ef þær skilja hvaða áhrif þessi greining getur haft, en ef læknir segir við þær: ,,Talaðu svo bara við mig þegar þú ætlar að fara að eignast börn því það getur orðið erfitt fyrir þig að erða ófrísk,“ þá eru þær ekki rétt upplýstar um heildarmyndina. Þess vegna er mjög mikilvægt að það sé sett í orð um leið og konur greinast með þennan sjúkdóm, því með því að styrkja grunnstoðir almennrar heilsu geta þær unnið sér í haginn og minnkað líkurnar á því að fá aðra sjúkdóma síðar á ævinni. Við þetta bætist að eftir tíðahvörf, þegar estrogen framleiðsla minnkar, aukast líkur kvenna almennt á hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki enn frekar því estrógen hefur verndandi áhrif hvað þetta varðar. Það viðheldur heilbrigði æðaveggja, hefur jákvæð áhrif á blóðsykur og blóðfitugildi ofl. Ef kona er með PCOS eru hennar líkur auknar í grunninn og aukast enn frekar þegar hún gengur í gegnum breytingaskeið og tíðahvörf. Ef við skoðum konur og karla um 30 – 40 ára aldurinn eru karlar í miklu meiri hættu en konur á að fá hjarta- og æðasjúkdóma en eftir tíðahvörfin, þegar verndandi áhrif estrogens dvína, ná konur körlunum í áhættu og fara jafnvel fram úr þeim.“

Einkenni breytingaskeiðsins

Einkenni sem konur geta fundið fyrir á breytingaskeiði geta verið af ýmsum toga og komið frá nánast öllum líffærakerfum sem gerir það að verkum að erfitt getur reynst að greina hvort þau eru af völdum  breytingaskeiðsins eða að um aðra kvilla sé að ræða, segir Hanna Lilja. „ Fyrstu einkennin eru oft svefntruflanir, smávægilegar breytingar á tíðahring, auknar eða minnkaðar blæðingar, aukin fyrirtíðaspenna en meðan kona er enn þá með nokkuð reglulegan tíðahring áttar hún og fagfólk sig ekki á því að einikennin geti tengst breytingaskeiðinu. Lengi vel hafa einkenni breytingaskeiðs verið talin hefjast þegar blæðingar stöðvast, þ.e. eftir tíðahvörf. En staðreyndin er sú að starfsemi eggjastokkanna breytist löngu áður en blæðingar stöðvast.  Meðalaldur við tíðahvörf, þegar ár er liðið frá síðustu blæðingum, er um 51 árs. Hormónaframleiðslan getur breyst allt að 7-10 árum áður og það tímabil er hið eiginlega breytingaskeið, þó svo að kona sé enn með tíðablæðingar. Sumar konur finna einkenni strax þarna. Svo þegar hormónagildin fara að lækka meira koma gjarnan einkenni eins og hitakóf, vöðva- og liðverkir, hjartsláttarónot, augnþurrkur, leggangaþurrkur, breytingar á húð, andleg vanlíðan, depurð, áhugaleysi, svefnleysi og margar tala um heilaþoku,“ segir Hanna Lilja.

Ég er bara ekki ég sjálf núna

,,Ég fæ oft þessa setningu hjá konum: ,,Ég er bara ekki ég sjálf núna,“ segir Hanna Lilja. ,,Þá eru konur gjarnan búnar að ganga á milli lækna, fara í alls konar rannsóknir sem allar hafa komið eðlilega út. Almennar blóðprufur innan marka, skjaldkirtill er í jafnvægi, vítamínstaða góð og allt virðist vera í lagi. Þá fá þær að heyra að það sé ekkert að þeim, þær séu kannski bara of stressaðar eða þunglyndar. Ástandið getur minnt svolítið á brjóstaþoku því estrogen er líka lágt þegar konur eru með barn á brjósti. Konum er oft boðið svefnlyf, þunglyndislyf eða verkjalyf, jafnvel lyf til að slá á hjartsláttarónot. Þess konar lyf eru ekki án aukaverkana og þarna er ekki verið að taka á grunnorsökinni, sem er breytt hormónaframleiðsla. Því er hætt við að konur haldi áfram að upplifa þessi einkenni og að við taki tímabil sem þær sofa áfram illa, eru sífellt þreyttar og orkulausar og geta ekki hreyft sig eins og æskilegt væri. Fæðan verður oft óholl því konur leitast við að næra sig á skjótfenginni orku, einföldu kolvetni, koffíni, gosdrykkjum og sælgæti. Þetta verður vítahringur því það er ekki verið að meðhöndla það sem raunverulega er að valda þessari líðan. Sem betur fer eru margar konur að vakna til meðvitundar um að breytingaskeiðið byrjar mun fyrr en áður hefur verið haldið fram og hvaða áhrif það getur haft á líðan þeirra og heilsu. Ef kona á aldrinum 40 –  50 ára finnur fyrir áður óþekktum einkennum ætti alltaf að hafa í huga að þau gætu verið hormónatengd.“

Krónískir lífsstílssjúkdómar sliga heilbrigðiskerfið

,,Þjóðin er að eldast og heilbrigðiskerfið okkar ræður ekki við að margir eldri og veikir þurfi mikla umönnun,“ segir Hanna Lilja. ,,Við vitum núna að það er hægt að grípa inn í fyrr og leggja til  fyrirbyggjandi aðgerðir sem myndu spara háar fjárhæðir til lengri tíma. Það er svo mikilvægt að grípa fólk nógu snemma og valdefla það sjálft. Tilhneigingin í vestrænu heilbrigðiskerfi og lyfjaiðnaðinum er  að kenna fólki ákveðið hjálparleysi. Tafla er gefin við svefnleysi, önnur við depurð og svo framvegis. Lyfjaiðnaðurinn hefur haft áhrif á það hvernig við grípum inn í vandamálin. Það er búið að ala fólk upp í því að það sé alltaf til eitthvað ,,quick fix“ sem lagar allt á mettíma og þá er eðlilega leitað þangað. Það er sannarlega erfiðara þegar við þurfum að gera eitthvað sjálf til að ástandið lagist.“ Þegar Hanna Lilja sá þessa þróun og hversu sterk þörfin var fyrir aukinni vitund um heilsu kvenna, ákvað hún að opna Instagramsíðuna Gynamedica árið 2021, sem upphaflega var hugsuð til að miðla fræðslu um kvenheilsu. Ári síðar opnaði hún heilsumiðstöðuna GynaMEDICA.

Nýtt skeið í lífinu

,,Konur hafa þá sérstöðu að ganga í gegnum miklar hormónatengdar breytingar í gegnum lífið. Það er allt frá því að vera börn, svo kemur kynþroskinn og frjósemisskeiðið. Svo tekur breytingaskeiðið við þar sem eru miklar sveiflur og að lokum tíðahvörfin sem vara út ævina,“ segir Hanna Lilja. ,,Þegar líkaminn er ekki lengur stilltur inn á að fjölga sér verður sállíkamleg breyting sem getur haft í för með sér alls konar einkenni en líka nýtt hlutverk í samfélagslegu samhengi. Eftir sveiflukennt breytingaskeið tekur meira jafnvægi við eftir tíðahvörf, líkaminn aðlagast breyttum aðstæðum og því fylgir oft ákveðin valdefling. Hormónaframleiðslan verður samt aldrei eins og hún var áður. Estrógen og prógesteron gildi verða viðvarandi lág og það hefur áhrif á heilsu til framtíðar. Þú getur ekki aukið framleiðslu þessara hormóna aftur, en það er hægt að taka inn hormóna í formi hormónameðferðar.

Hræðslan við hormónana

Hormónameðferð gengur út á að gefa estrógen og progesterón og stundum testósteron ef á þarf að halda. Hanna Lilja segir að miðað við nýjustu rannsóknir sé ekki marktækt aukin krabbameinshætta þegar hormón eru gefin. Hormónameðferð hefur lengi haft neikvætt orð á sér og byggir það á niðurstöðum rannsóknar sem gerð var fyrir rúmlega 20 árum síðan sem bentu til aukinnar hættu á brjóstakrabbameini og hjartasjúkdómum borið saman við samanburðarhóp. Þær niðurstöður hafa nú verið hraktar, enda byggði sú rannsókn á notkun eldri tegundar áhormóna sem ekki eru í notkun í dag. Þátttakendur eldri rannsóknarinnar voru konur sem voru þegar talsvert yfir tíðahvörf, og  konur í samanburðarhópnum höfðu margar notað hormóna áður. Við frekari úrvinnslu á þessum gögnum kom í ljós að niðurstöður voru ekki marktækar.“

Fyrirbyggjandi aðgerðir

,,Nýrri rannsóknir benda hinsvegar til að hormónameðferð minnki líkur á hjartasjúkdómum, sem er algengasta dánarorsök kvenna í vestrænum ríkjum, beinþynningu, sykursýki svo eitthvað sé nefnt og að estrógen meðferð ein og sér (án prógesteróns) minnki jafnvel líkur á brjóstakrabbameini.

Estrógen verndar líka beinin okkar því þegar estrogen gildi er orðið lágt verður niðurbrot á beinum meira en uppbygging og beinþéttni minnkar. Þá getur orðið beingisnun sem getur þróast yfir í beinþynningu sem er mjög hamlandi sjúkdómur og getur haft alvarlegar lífsskerðandi afleiðingar í kjölfar beinbrota. Konur eru tvöfalt líklegri en karlar að fá beinþynningu. Estrógen uppbót styður við beinin og getur hægt á þynningu beina. Ef það er saga um beinþynningu í nánustu fjölskyldu eða kona er þegar komin með beingisnun, ætti hún að skoða það að fá hormónameðferð. Hreyfing og næring er mikilvæg til að viðhalda styrk beina. Með styrktarþjálfun, próteinríkri fæðu, D-vítamín- og kalkuppbót er hægt að gera mikið gagn.“ Það er til mikils að vinna að koma í veg fyrir beinþynningu og beinbrot því afleiðingarnar geta verið hamlandi og kostnaðarsamar fyrir samfélagið, fyrir utan þjáningarnar sem konur líða.“

Ætlar ekki að hætta að fræða konur

Hanna Lilja segist ekki ætla að hætta að fræða konur um breytingarnar sem verða þegar breytingaskeiðið ríður yfir. ,,Fræðsla er alger forsenda þess að konum líði vel á þessu skeiði sem við förum allar í gegnum,“ segir hún að lokum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 5, 2024 05:36